150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[17:09]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa komið inn á að Ísland er í raun mjög lokað land fyrir þeim sem koma annars staðar frá en hinu Evrópska efnahagssvæði. Það eitt og sér er hluti af því að það kemur álag á hælisleitandakerfið okkar sem er algjörlega óþarft því að eins og heimurinn er í dag þurfum við auðvitað að hafa hælisleitendakerfi sem geti virkilega tekið á þeim sem eru að flýja hræðilegt ástand vegna stríðshörmunga eða loftslagsbreytinga eða annars ófremdarástands í sínum heimalöndum og þurfa svo sannarlega á því að halda að það sé gott kerfi í löndunum sem þeir koma til. Það er almennt atriði sem kemur auðvitað ekki beint inn á það sem hér er rætt en skiptir þó máli í heildarumræðunni.

Mér hefur fundist á umræðunni hér að flest séum við, ef ekki öll, sammála um að við viljum hafa mannúðlegt kerfi hérna. Það finnst mér mjög mikilvægur útgangspunktur. Ég held líka að við vitum það öll hér inni að almenna reglan, sú sem við notum almennt í okkar lífi, er sú að konur sem eru komnar mjög langt á leið fara ekki undir venjulegum kringumstæðum í flug. Það er hins vegar það sem gerðist hérna í gær. Þess vegna finnst mér mikilvægt að farið verði yfir verklag og verkferla, sérstaklega með tilliti til (Forseti hringir.) heilsufarsupplýsinga, og þar verði haft að leiðarljósi að það þurfi að túlka einstaklingnum í vil en ekki einhverri skilvirkni.