150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[17:11]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar svo mikið til að biðja íslensk stjórnvöld um að biðjast afsökunar á að hafa sent konu á 36. viku meðgöngu burt með tveggja ára barn um miðja nótt, viðurkenna að mistök hafi verið gerð þegar kona í áhættumeðgöngu var send í 19 klukkustunda ferðalag með mörgum millilendingum með tilheyrandi loftþrýstingsbreytingum ásamt tveggja ára barni sínu.

Mig langar líka til þess að íslensk stjórnvöld viðurkenni að mistök hafi valdið því að gamalt vottorð var tekið fram yfir nýrra vottorð um ástand konunnar og flughæfi hennar.

Það er alveg ljóst að stefna í málefnum fólks á flótta hefur harðnað mjög á vakt Sjálfstæðisflokksins í ráðuneytinu. Ráðherrar Sjálfstæðisflokks hafa sett stjórnvöldum skýr fyrirmæli þvert á lög þar sem kemur fram að fara eigi fram með mannúðlegum hætti. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa nefnilega sett stjórnvöldum skýr fyrirmæli með reglugerðum sem þrengt hafa mjög að fólki á flótta, fólki í leit að vernd, t.d. þegar kemur að því að meta fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Já, einstök mál rata í fjölmiðla en einstök mál vekja okkur af værum blundi, vekja okkur hér, sadda fólkið, sem ekki þurfum að óttast um líf okkar á hverjum einasta degi. Ég fagna því að við vöknum og ég fagna því ef við náum að vekja ráðherra ríkisstjórnarinnar af þeirra blundi. En ég ætla ekki að samþykkja að mér verði kennt um þetta, að alþingismönnum verði kennt um þetta, því að lögin (Forseti hringir.) heimila einmitt mannúðlega meðferð á þunguðum konum á lokametrum meðgöngu.