150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[17:18]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það ber að þakka þessa umræðu. Hún var að mörgu leyti ágæt. Þó voru nokkur efnisatriði í ræðum sumra hv. þingmanna sem mér þóttu ekki framlag til málefnalegrar umræðu, svo ég orði það ekki sterkar. Hitt verð ég að segja að ég varð fyrir talsverðum vonbrigðum með hæstv. dómsmálaráðherra sem fór, eins og stjórnarliðarnir, fyrst og fremst í tæknilega vörn en talaði ekkert um stefnuna, gildin og áformin. Hvaða stefnu ætlar hæstv. ráðherra að taka í þessum málaflokki? Það var ekkert um það, bara tækni; vottorð, ekki vottorð, óskýrt vottorð, málsmeðferðartími 4–11 dagar. Þessi fjölskylda var að vísu í mánuð á landinu þannig að ekki átti það við þar.

Málið snýst um að markvisst hefur verið unnið að því undanfarið að þrengja og herða að regluverkinu og koma í veg fyrir að hægt sé að beita mannúðarsjónarmiðum. Það er ekki vilji Alþingis. Það hefur verið vilji þeirra sem fara með reglusetningarvaldið hjá hæstv. ráðherra í ráðuneyti hans. Það er það sem skiptir máli. Hvað ætlast hæstv. ráðherra fyrir? Hverju ætlar hann og vill breyta?