150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

meðferð einkamála.

100. mál
[18:13]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir framsöguna og ég tek undir með henni. Það er afar mikilvægt að það sé, eins og hún orðaði það, rétt gefið við beitingu tjáningarfrelsisins á Íslandi. En ég sé ekki alveg að þetta frumvarp leysi þann vanda sem hún kom að í lok máls síns, þ.e. þá hættu sem hefur ítrekað skapast og ítrekað orðið í íslensku réttarfari, að fjársterkir aðilar hafi farið í meiðyrðamál við einhverja sem eiga ekki eins mikla peninga eða eiga ekki eins mikið undir sér og haldið síðan áfram með málareksturinn meira og minna endalaust. Ég held að það sé miklu meira vandamál í íslensku réttarfari en það hvort einhver sem er dæmdur í meiðyrðamáli geti áfrýjað. Það er vissulega alveg rétt hjá þingmanninum að það út af fyrir sig er vandamál.

Mig langar aðeins að heyra þingmanninn ræða það hvernig hún sjái fyrir sér að taka á hinum meginvandanum vegna þess að ég get ekki með nokkru móti séð að það sé gert með framlagningu þessa frumvarps. Fjársterkir aðilar munu eftir sem áður, eins og þingmaðurinn kom inn á í máli sínu, geta haldið fólki að dómsölum meira og minna eftir sínum hentugleikum. Ég sé það sem vandamálið.