150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

meðferð einkamála.

100. mál
[18:18]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og áður hefur komið fram í máli mínu í þingsal virði ég mjög þá vegferð Pírata og raunar annarra stjórnmálasamtaka að bæta samfélagið. Það verður ekki nógsamlega oft sagt hversu mikilvægt það er að hafa margvíslegar raddir og margvísleg sjónarmið sem hjálpa okkur við að toga þetta samfélag okkar í rétta átt. Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum.

Þingmaðurinn nefndi málskostnaðinn. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni að það kann oft að vera þröskuldurinn sem má segja að litlu aðilarnir eigi erfitt með að komast yfir. Maður hefur ítrekað séð að fólk hefur orðið fyrir verulegu fjártjóni vegna áfrýjana og það hefur jafnvel orðið fyrir verulegu fjártjóni vegna áfrýjana í málum sem það hefur unnið vegna þess að málskostnaður er ekki dæmdur á fullnægjandi hátt eða í sumum tilfellum jafnvel felldur niður. Þá velti ég fyrir mér: Hvar er þá réttarbótin fyrir litla aðilann, ef við getum talað um það sem einhvern hóp af fólki? Eða fyrir þá sem kannski eru ekki eins fjársterkir? Hvar er þá réttarbótin, ef stóri aðilinn getur eftir sem áður og mun eftir sem áður halda áfram að þrýsta á þá sem hann telur að hann geti haft undir í krafti stærðar sinnar og fjármagns?