150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

meðferð einkamála.

100. mál
[18:20]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu tilfelli erum við að tala um ójafnvægi milli málsaðila. Það hefur verið sett ákveðin upphæð sem svarar milljón krónum, og mun fara aðeins hækkandi. Til þess að málefni teljist — hvað eigum við að segja? — áfrýjunarverð, sé það upphæðin sem er undir. Það sem við erum að leggja til er að þegar kemur að tjáningarfrelsismálum eigi þetta bara ekki við og það megi líka áfrýja, tapi viðkomandi málinu, þ.e. verði komist að þeirri niðurstöðu að æra stefnanda hafi verið meidd. Þannig erum við að jafna aðstöðu, tryggja að það sé aukið jafnræði á milli málsaðila fyrir dómi. Það sem við erum einnig að gera samhliða þessu máli er að leggja til að það sé ávallt rökstutt þegar sá sem tapar dómsmáli er látinn greiða málskostnað. Þetta er nokkuð sem hefur mögulega líka gert fjársterkum aðilum einfaldara um vik að færa sig upp á skaftið í þessum málum.

En það er ekki aðeins á Íslandi sem við sjáum að fjársterkir aðilar ráðast að fjölmiðlum eða að málglöðum einstaklingum með dómsmálum. Við þurfum eftir sem áður að hafa aðgengi að dómstólum. Við þurfum eftir sem áður að hafa kerfið þannig að viðkomandi geti leitað til dómstóla. Þannig að þær lagabreytingar sem við erum að leggja til eru til þess gerðar að jafna leikvöllinn, vegna þess að hann er ójafn nú þegar hvað varðar fjárhagsstöðu stefnanda og stefnda, eins og úr því kann að spilast. Það má ekki vera ójafnræði bara í kerfinu sjálfu. Það er það sem er verið að leggja til að breyta. Þótt við séum ekki að klára þetta í einu skrefi í þessu lagaverki erum við að gera það heildstætt og vonandi gerum það saman.