150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

hjúskaparlög.

321. mál
[18:22]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á hjúskaparlögum sem flutt er af þingflokki Viðreisnar ásamt þeim hv. þingmönnum Andrési Inga Jónssyni, Vinstri grænum, Helgu Völu Helgadóttur, Samfylkingunni, og Pírötunum Birni Leví Gunnarssyni og Helga Hrafni Gunnarssyni. Sömu þingmenn flytja einnig tillögu til þingsályktunar um bætta réttarstöðu þolenda heimilisofbeldis við hjúskaparslit samhliða þessu frumvarpi og verður vonandi mælt fyrir henni á næstu dögum.

Sennilega er ofbeldi innan veggja heimilis eitt algengasta ofbeldisbrotið sem framið er á Íslandi. Þessi brot eru alvarleg, ekki síst vegna þess að ofbeldinu er beitt í nánu sambandi sem er bundið saman með lögum. Núgildandi lög veita þeim sem búa við ofbeldi alls ekki nógu greiðar leiðir til að losna úr hjónabandi. Þetta á ekki síst við um þolendur andlegs og fjárhagslegs ofbeldis eða kúgunar í sambandi.

Frumvarp þetta er ekki síst lagt fram til þess að takast á við þennan vanda. Í frumvarpinu eru lagðar til ferns konar breytingar á hjúskaparlögum. Í fyrsta lagi er lagt til að tímamörk lögskilnaðar verði hin sömu hvort sem hann er að kröfu annars hjóna eða beggja. Í öðru lagi er lagt til að lögskilnaður verði einfaldaður þegar hjón eru ekki einhuga um að leita hans og tryggja fólki jafnframt aukið frelsi við ákvörðun hjúskaparskráningar sinnar. Í þriðja lagi er lagt til að lögskilnaður á grundvelli heimilisofbeldis verði gerður að raunhæfu úrræði fyrir þolendur slíkra brota. Í fjórða lagi er lagt til að sáttaumleitan verði færð í form samtals um forsjá barna.

Markmið framangreindra breytinga er að styrkja stöðu þolenda ofbeldis og tryggja rétt þeirra til að slíta hjúskap.

Herra forseti. Hjúskapur er lögbundið og formlega staðfest samkomulag tveggja einstaklinga um að verja lífinu saman og deila ábyrgð á heimili og börnum. Hjúskap fylgja jafnframt skyldur til trúmennsku og framfærslu sem og réttur til erfða falli annað hjóna frá. Grundvöllur hjúskapar er samkomulagið og getur fólk undirgengist og fallið frá því samkomulagi á eigin forsendum, að lagalegum skilyrðum uppfylltum.

Tölfræðigögn frá Hagstofu Íslands sýna að um 85% skilnaða að borði og sæng lýkur með lögskilnaði. Engin gögn eru til um það á hvaða tímabili skilnaðar að borði og sæng þau 15% hjóna sem ekki óska lögskilnaðar taka saman á ný. Þá er heldur engum opinberum upplýsingum til að dreifa um hversu hátt hlutfall hjóna sem slíta samvistum vegna ósamlyndis krefst að endingu lögskilnaðar. Ætla verður að hálft ár í kjölfar skilnaðar að borði og sæng og heilt ár í kjölfar samvistaslita vegna ósamlyndis dugi fólki til að endurreisa samband sitt sé grundvöllur fyrir því á annað borð. Þá er rétt að benda á að vilji fólk reyna lengur að ná saman en þann lágmarkstíma sem kveðið er á um í lögum er ekkert sem bannar það.

Gildandi hjúskaparlög voru sett árið 1993 en ákvæði þeirra um hjónaskilnaði eru að mörgu leyti áþekk ákvæðum eldri laga um hjúskap, nr. 60/1972, um stofnun og slit hjúskapar, sem einnig höfðu tekið takmörkuðum breytingum um það efni sem frumvarp þetta tekur til, frá enn eldri lögum allar götur frá 1921.

Mikilvægt er að mati flutningsmanna að gildandi hjúskaparlög spegli tíðaranda. Samfélagslegar áherslur hafa tekið miklum breytingum, m.a. þegar litið er til hlutverka og valdastöðu kynjanna á heimilinu og einstaklingsfrelsis, auk stöðu og mikilvægis hjónabandsins sem grundvallareiningar í samfélaginu. Þrátt fyrir að hjónabandið sé mikilvæg grunneining samfélagsins hefur vægi þess minnkað með tilkomu fjölbreyttari sambúðarforma, auknum samfélagslegum stuðningi við einstæða foreldra og viðurkenningu samfélagsins á ólíku fjölskyldumynstri. Eru því að mati flutningsmanna ekki jafn sterk rök fyrir hinum löngu tímamörkum og víðtæku takmörkunum fyrir lögskilnaði og voru á fyrri tímum, sérstaklega þar sem tímamörkin og takmarkanirnar reynast þolendum ofbeldis í hjúskap afar íþyngjandi. Það er löngu úrelt viðhorf að halda eigi í hjónaband hvað sem tautar og raular. Einstaklingur er frjáls að því að ganga í hjónaband og hann á með sama hætti að vera frjáls að því að slíta því hjónabandi.

Herra forseti. Eins og áður var vikið að er ofbeldi á heimilum eitt algengasta form ofbeldis á Íslandi. Sérstaða þess felst ekki síst í því hversu nátengdur þolandi er gerandanum en það gerir þolanda auðvitað erfiðara en ella að slíta tengslum við gerandann og komast þar með undan ofbeldinu. Í umfjöllun Kvennaathvarfsins um heimilisofbeldi kemur fram að það geti verið af margvíslegum toga, til að mynda líkamlegt, andlegt, kynferðislegt, fjárhagslegt og stafrænt, auk ýmiss konar hegðunar sem felur í sér ógn, hótun, stjórnun og/eða þvinganir. Þá sé oft um fleiri en eina tegund ofbeldis að ræða og birtingarmyndir þess séu einnig margar, á borð við niðurlægingu, tilfinningalega kúgun, höfnun, lítilsvirðingu, einangrun og fjárhagslega stjórnun en einnig barsmíðar, nauðganir og líkamsmeiðingar.

Allt ætti þetta að geta talist fullt tilefni til hjúskaparslita sem er þó ekki raunin samkvæmt ákvæðum núgildandi hjúskaparlaga. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að skilgreina heimilisofbeldi í lögum og reglum, en eftir stendur að engin ein almenn skilgreining liggur fyrir. Í verklagsreglum ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála er heimilisofbeldi t.d. skilgreint með þessum hætti, með leyfi forseta:

„Heimilisofbeldi er ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af nákomnum, þ.e. gerandi og þolandi eru skyldir, tengdir eða hafa sögu um tengsl […] Ofbeldið getur verið líkamlegt, andlegt, kynferðislegt og/eða fjárhagslegt og felur í sér valdbeitingu eða hótun um valdbeitingu.“

Þar kemur einnig fram að heimilisofbeldi er ekki bundið við heimili geranda og/eða þolanda heldur getur það átt sér stað hvar sem er. Í 3. gr. verklagsreglnanna eru leiðbeiningar um hvaða brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga og barnaverndarlaga skuli færa undir verkefnaflokkinn „heimilisofbeldi“ þegar aðilar eru í nánu sambandi.

Herra forseti. Þá er sérstök ástæða til að geta 218. gr. b í almennum hegningarlögum sem var nýmæli þegar hún var sett inn árið 2016 en greinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hver sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, niðja síns eða niðja núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, áa síns, eða annarra sem búa með honum á heimili eða eru í hans umsjá, með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

Ef brot er stórfellt getur það varðað fangelsi allt að 16 árum. Við mat á grófleika verknaðar skal sérstaklega líta til þess hvort þolandi hafi beðið stórfellt líkams- eða heilsutjón eða bani hlotist af. Enn fremur ber að líta til þess hvort brot hafi verið framið á sérstaklega sársaukafullan eða meiðandi hátt, hafi staðið yfir í langan tíma eða hvort gerandi hafi misnotað freklega yfirburðastöðu sína gagnvart þolanda.“

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögunum kemur m.a. fram að við samningu þess hafi norsk hegningarlagaákvæði um sama efni verið höfð til hliðsjónar. Áhersla var jafnframt lögð á að ofbeldi í nánum samböndum fæli ekki einungis í sér samansafn einstakra tilvika heldur mætti virða slíka háttsemi sem eina heild. Í greinargerðinni segir:

„Athyglin er þannig færð á það ógnar- og óttaástand sem getur skapast og jafnframt á þá viðvarandi andlegu þjáningu, kúgun og vanmátt sem þolandi upplifir við slíkar aðstæður.“

Flutningsmenn þessa frumvarps taka undir fullyrðingar um mikilvægi þess að ofbeldi í nánum samböndum sé ekki einungis skilgreint sem einstök tilvik heldur megi virða slíka háttsemi sem eina heild. Sterk rök standa gegn því að sönnunarkröfur hvað varðar skilnað á grundvelli ofbeldis séu jafn þungar og kröfur sem lagðar eru á herðar ákæruvaldinu þegar sanna þarf sekt, samanber 108. gr. laga um meðferð sakamála.

Í núgildandi ákvæðum hjúskaparlaga er þröng heimild til þess að krefjast lögskilnaðar ef annað hjóna hefur orðið uppvíst að líkamsárás eða kynferðisbroti sem bitnar á hinu eða barni sem býr hjá þeim, eða hefur sýnt af sér atferli sem fallið er til að vekja alvarlegan ótta um að það gerist sekt um slíkan verknað. Annað hjónanna getur þá krafist lögskilnaðar að nokkrum skilyrðum uppfylltum, í fyrsta lagi að verknaðurinn hafi verið framinn af ásettu ráði og valdið tjóni á líkama eða heilbrigði þess er verður fyrir líkamsárás, í öðru lagi að maki geranda hafi höfðað mál eða sett fram kröfu um leyfi til lögskilnaðar innan sex mánaða frá því að honum varð kunnugt um verknaðinn og eigi síðar en innan tveggja ára frá því að hann var framinn og í þriðja lagi, og því þungbærasta, að gerandinn samþykki að óska skilnaðar á grundvelli brota sinna. Sú kvöð á sér stoð í 2. mgr. 41. gr. laganna þar sem kveðið er á um að leita megi skilnaðar á grundvelli annarra ákvæða en 33. gr. og 1. mgr. 36. gr. laganna, „ef hjón eru sammála um það“ stendur þar, en annars þurfi að leita hans fyrir dómstólum. Þýðir þetta ákvæði að jafnvel þótt gerandi í ofbeldissambandi hafi hlotið dóm fyrir brot gegn maka sínum, jafnvel þótt lögregluskýrsla liggi fyrir og áverkavottorð einnig, geti þolandinn ekki krafist skilnaðar frá ofbeldismanni sínum fyrir sýslumanni nema makinn samþykki það. Verður brotaþoli þess í stað að höfða dómsmál til að krefjast lögskilnaðar, með tilheyrandi töfum, tilkostnaði og álagi. Er heimild til að krefjast lögskilnaðar hjá sýslumanni á grundvelli ofbeldis því þrengri en heimild til að dæma menn fyrir sambærileg brot þar sem ekki er gerð krafa um skýlausa játningu sakbornings og samþykki hans fyrir dómi.

Annar ágalli umrædds ákvæðis er að það nær ekki til andlegs ofbeldis, annars en þess sem felst í því að „vekja alvarlegan ótta“ um að maki gerist sekur um líkamsárás eða kynferðisbrot. Leiða verður líkur að því að andlegt ofbeldi sé algengara í samböndum en líkamlegt en á sama tíma er erfiðara að færa fyrir því óyggjandi sönnur. Þá eru birtingarmyndir andlegs ofbeldis fleiri en þær að vekja ótta um líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi.

Herra forseti. Flutningsmenn frumvarpsins leggja því til að sýslumaður geti veitt lögskilnað án undangengins skilnaðar að borði og sæng að kröfu annars hjóna hafi maki þess beitt það líkamlegu eða andlegu ofbeldi eða hótunum um slíkt. Er farin sú leið að skilgreina ekki með tæmandi talningu hvað felst í slíku ofbeldi í ákvæði laganna en í stað þess leitast við að skýra það í athugasemdum við greinina. Í ákvæðinu er þó getið um sönnunarkröfur.

Herra forseti. Við vinnslu þessa frumvarps var haft samráð við samtök og fólk sem hefur reynslu og sérþekkingu á sviði hjúskapar- og heimilisofbeldismála, með viðtölum og fundum. Var m.a. rætt við lögfræðinga hjá sýslumanni, Kvennaathvarfinu og lögreglunni og fundað með fólki sem hefur rekist á veggi laganna við að leita skilnaðar eftir að hafa mátt þola ofbeldi af hálfu maka. Í þessu samráði kom m.a. fram að skilnaðarferlið reynist þolendum ofbeldis sérlega flókið og þungbært þegar sameiginlegar eignir og börn eru í hjónabandinu. Í mörgum tilvikum hefur dvöl kvenna í Kvennaathvarfinu lengst vegna þess að þar til skilnaður er genginn í gegn eiga þær ekki rétt á fjárhagslegum stuðningi, fullum barnabótum og annarri félagsaðstoð sem þær ættu væru þær skráðar einstæðar mæður. Því lengur sem skilnaður dregst, þeim mun líklegra er að þær leiti aftur á heimili ofbeldismanna sem er að mati flutningsmanna óboðleg staða. Þá kom einnig fram að samkvæmt kenningum fræðimanna eru ofbeldisáhrif gerenda enn til staðar löngu eftir að sótt hefur verið um skilnað sem hvort tveggja rennir frekari stoðum undir framangreinda nálgun og er til marks um að ákvæði 35. gr. hjúskaparlaga sé sérstaklega ósanngjarnt og íþyngjandi fyrir þolendur heimilisofbeldis.

Flækjustig í skilnaðarferlinu vegna barna og eigna kemur eingöngu til þegar ekki ríkir sátt með aðilum um hvernig skuli haga forsjá og búskiptum. Þar er tilefni til að athuga að vilji ofbeldismaður hamla skilnaði getur hann nýtt sér þessa stöðu og viðhaldið þannig valdi sínu og áhrifum á líf þolandans. Eru þess raunar fjölmörg dæmi. Þegar ekki er sátt með hjónum um þessi atriði getur sýslumaður eingöngu veitt leyfi til skilnaðar ef fyrir liggur úrskurður um opinber skipti og að forsjármál sé komið fyrir dómstóla. Sá þröskuldur er hár, enda er kostnaðarsamt, tímafrekt og andlega lýjandi að standa í dómsmáli vegna svo mikilla hagsmuna sem forsjá barna er.

Það voru einkum tvær lausnir sem voru nefndar í þessu sambandi í því samráði sem við áttum við fjölda aðila, annars vegar að heimila sýslumanni að gefa út skilnaðarleyfi þó að mál hjóna væru óútkljáð. Með þeim hætti væri hjónum gert kleift að ljúka málum sínum á eigin hraða án þess að vera bundin í hjúskap á meðan. Var m.a. bent á að fyrirmynd að slíkri lausn er að finna í norskum lögum. Hins vegar væri hægt að rýmka reglur um gjafsókn til að draga úr þeirri áraun sem forsjármál fyrir dómi eru þolendum heimilisofbeldis.

Á þessum fundum var einnig nefnt það sjónarmið að skylda til sáttaumleitanar sem og hugtakið sáttaumleitan mælist illa fyrir hjá þolendum heimilisofbeldis enda vandséð hvaða tilgangi það þjónar að eiga að koma á sáttum milli þolanda og ofbeldismanns. Í þeim tilvikum eru sjaldnast forsendur fyrir sáttum. Kom fram það sjónarmið að sáttameðferð yrði breytt í samtal um forsjá ósjálfráða barna hjóna. Einnig var lagt til að samtal hjá sýslumanni eða dómara yrði að meginreglu en heimilt yrði áfram að óska sáttaumleitanar hjá fulltrúa trú- eða lífsskoðunarfélags, enda væru báðir aðilar sammála um að fara þá leið.

Þótt þessu frumvarpi sé ætlað að bæta stöðu þolenda ofbeldis, og brýnt að samþykkja að mati flutningsmanna, þarf einnig aðkomu ríkisstjórnarinnar og dómsmálaráðherra til að rýmka úrræði fulltrúa sýslumanns til að bregðast við andlegu ofbeldi við meðferð skilnaðarmála. Tryggja þarf aðkomu sérfræðinga á sviði sálfræði eða félagsráðgjafa að samkomulagi um skilnaðarkjör en ekki einungis lögfræðinga. Kanna þarf til fullnustu möguleikann á því að lögskilnaður sé veittur þótt samkomulag liggi ekki fyrir um fjárskipti eða forsjá og rýmka reglur um veitingu gjafsóknar. Það er þess vegna, eins og áður er getið, sem lögð er fram sérstök þingsályktunartillaga um þessi efni og er flutt af sömu hv. þingmönnum.

Herra forseti. Kemur þá að einstökum greinum frumvarpsins, fyrst um 1. gr. þess. Í greinargerðinni segir:

Ákvæði 34. gr. verði efnislega samhljóða lokaorðum 33. gr. um að maki sem telur sig ekki geta haldið áfram hjúskap geti leitað skilnaðar að borði og sæng og að veita beri leyfi til slíks skilnaðar. Er með þessu verið að leggja til að annað hjóna hafi sama rétt til að krefjast skilnaðar að borði og sæng einhliða og ef það væri sameiginleg ákvörðun beggja hjóna. Rökin fyrir því eru þau að efni til að veita skilnað að borði og sæng er ekki síður fyrir hendi ef annað hjóna leitar þess og jafnvel kunna að vera ríkari ástæður fyrir því að veita skilnað að borði og sæng þegar annað hjóna stendur því í vegi.

Um 2. gr.:

Lagt er til að fella brott ákvæði hjúskaparlaga um að réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng falli annars vegar niður ef makar halda áfram sambúð umfram stuttan tíma sem sanngjarnt er að ætla þeim og hins vegar ef hjón taka síðar upp sambúð nema um sé að ræða skammvinna tilraun til að endurvekja samvistir að nýju.

Rökin fyrir því eru tvíþætt. Í fyrsta lagi býður núgildandi ákvæði upp á að skilnaðarferli sé tafið með því að knýja fram dómsmeðferð án þess að tilefni sé til slíkrar meðferðar. Í öðru lagi eiga lögráða einstaklingar að geta ráðið sambúðarformi sínu, þar með talið breytt hjúskap sínum í skráða sambúð, ef þeir svo kjósa. Ákvæði 35. gr. hjúskaparlaga takmarkar verulega rétt fólks til að velja það sambúðarform sem best hæfir þeim í samskiptum við hvort annað og við ríkið.

Þá eru þolendur ofbeldisbrota í nánu sambandi oft í viðkvæmri stöðu gagnvart maka sínum og mörg dæmi um að þeir hafi leitað aftur til hans eftir skilnað að borði og sæng, t.d. af fjárhagslegum eða tilfinningalegum ástæðum eða vegna einhvers konar kúgunar. Ákvæði 35. gr. vinnur því gegn hagsmunum þess hóps sem viðkvæmastur er fyrir og því þarf að breyta.

3. gr. er einföld, um að tímamörk lögskilnaðar í kjölfar skilnaðar að borði og sæng verði sex mánuðir, óháð því hvort annað hjóna eða bæði krefjast skilnaðar.

Um 4. gr.:

Tímamörk lögskilnaðar í kjölfar þess að hjón hafa slitið samvistum vegna ósamlyndis, án þess að sótt hafi verið um skilnað að borði og sæng, verði eitt ár en ekki tvö eins og nú er.

Í 5. gr. er lagt til að fellt verði á brott ákvæði 3. mgr. 39. gr. hjúskaparlaga um tímamörk kröfu til að óska leyfis til lögskilnaðar í kjölfar hjúskaparbrots. Hægt verður því að krefjast skilnaðar á grundvelli hjúskaparbrots óháð því hve langt er liðið frá því að maka varð kunnugt um háttsemina eða hvenær hún var viðhöfð.

Ítarlegust grein er gerð fyrir 6. gr. þar sem fjallað er um ofbeldi. Í upphafi 1. málsliðar 1. mgr. er kveðið á um að ákvæðið heimili lögskilnað án undangengins skilnaðar að borði og sæng, að frekari skilyrðum uppfylltum. Þau skilyrði eru að það hjóna sem krefst skilnaðar hafi verið beitt ofbeldi eða hótunum um slíkt af hálfu maka síns. Sama gildir ef makinn hefur brotið með þeim hætti gegn barni sem býr hjá þeim. Í ákvæðinu er tekið fram að ofbeldi og hótun um ofbeldi taki til líkamlegs, kynferðislegs, andlegs eða fjárhagslegs ofbeldis. Á það einnig við um ofbeldi og hótanir gegn börnum á heimilinu.

Skilgreining ofbeldis í ákvæðinu byggist á samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, sem oft hefur verið nefndur Istanbúl-samningurinn. Ofbeldi er af margvíslegum toga og getur einnig birst sem safn minni háttar brota yfir langan tíma sem er sjónarmiðið að baki 218. gr. b í almennum hegningarlögum eins og áður var vikið að. Rétt er að gæta þess að ofbeldishugtakið sé ekki túlkað of þröngt, enda eru ekki sterk rök fyrir því að takmarka um of rétt fólks til að leita skilnaðar sem hefur orðið fyrir ofbeldi af hálfu maka.

Vegna þess hve örðugt kann að vera að sanna brot af þessu tagi er í 2. mgr. kveðið á um sönnunarkröfur í fjórum liðum til skýringar á því hvernig það hjóna sem krefst skilnaðar á grundvelli heimilisofbeldis geti sýnt fram á brot maka síns.

Í fyrsta lagi er kveðið á um að leyfi til skilnaðar á grundvelli ákvæðisins skuli veita ef maki annaðhvort gengst við broti sínu eða hefur hlotið dóm fyrir brotið, að leyfi til skilnaðar verði veitt í þeim tilvikum þegar maki hefur hlotið dóm fyrir ofbeldisbrot í hjúskap sem felur í sér rýmkun á réttinum.

Í öðru lagi er kveðið á um að leyfi skuli veita ef fyrir liggur skýrsla lögreglu um útkall vegna heimilisofbeldis. Ber þá að meta skýrslu út frá efni hennar.

Í þriðja lagi er kveðið á um að leyfi til skilnaðar vegna heimilisofbeldis skuli veita ef önnur gögn benda til þess að það hjóna sem krefst skilnaðar hafi mátt þola ofbeldi af hálfu maka síns. Eru þar sérstaklega nefnd áverkavottorð læknis og skýrsla sálfræðings. Skýrsla eða vottorð sálfræðings getur staðfest að aðili beri merki þess að vera þolandi ofbeldis í nánu sambandi en sannar ekki að slíkt ofbeldi hafi átt sér stað. Að sama skapi getur áverkavottorð talist sönnun fyrir ofbeldi en veitir yfirleitt litlar upplýsingar um hver gerandinn sé. Við beitingu ákvæðisins þarf að fara fram heildstætt mat á gögnum og framburði aðila. Rétt er að sönnunarkröfur séu metnar í því ljósi að lögskilnaður er almennt ekki talinn jafn íþyngjandi fólki og refsingar.

Í fjórða lagi er kveðið á um að heildarmat á aðstæðum og upplýsingum gefi af öðrum ástæðum tilefni til þess að ætla að það hjóna er krefst skilnaðar hafi mátt þola ofbeldi af hálfu maka síns. Er hér um að ræða sambærilegt ákvæði og í 3. tölulið sem veitir ákvörðunaraðila aukið svigrúm til mats á aðstæðum, t.d. eftir að hafa átt samtöl við bæði hjóna eða með vísan til upplýsinga frá barnavernd eða öðrum aðilum í tilviki barna. Skiptir þar máli að matið sé hlutlægt og í samræmi við niðurstöður sambærilegra mála. Grundvallarhugsunin að baki ákvæðinu er sú að ekki eigi að torvelda fólki um of að fá leyfi til lögskilnaðar og að þegar grunur er um að ofbeldi hafi verið beitt gegn maka eða barni sem býr hjá hjónum eigi þolandinn að fá að njóta vafans.

Loks er lagt til að fyrirsögn á undan greininni verði breytt úr Líkamsárás í Heimilisofbeldi, enda lýsir það betur inntaki ákvæðisins eftir breytingarnar.

Um 7. gr. er í a-lið lögð til breyting á 1. mgr. 41. gr. til samræmis við breytingar á 34. gr. laganna, samanber 1. gr. frumvarpsins, og í b-lið er lagt til að sýslumaður geti ekki eingöngu veitt lögskilnað á grundvelli 36. gr. laganna eða þegar hjón eru sammála, heldur einnig ef skilyrði 40. gr. um skilnað vegna heimilisofbeldis eru uppfyllt.

Um 8. gr. segir:

Vegna þess hvað sáttaumleitan kann að láta illa í eyrum þolenda eru lagðar til breytingar á heiti og nálgun við samtal hjóna í skilnaðarferli.

Lagt er til að slíkt samtal verði að meginreglu til í höndum sýslumanns eða dómara nema hjón ákveði í sameiningu að óska þess að fulltrúi trú- eða lífsskoðunarfélags leiði þau í gegnum það ferli.

Við 42. gr. er bætt ákvæði sem heimilar að reyna sættir með hjónum hvoru í sínu lagi ef skilyrði 40 gr. eru uppfyllt.

Lagt er til að fyrirsögn greinarinnar verði breytt úr Sáttaumleitan í Samtal um forsjá barna og sættir.

9. gr. þarfnast ekki skýringar.

Herra forseti. Vonir flutningsmanna standa til þess að frumvarp þetta eigi greiða leið í meðförum þingsins og verði að lögum sem allra fyrst enda um mikið framfara- og réttlætismál að ræða.

Að lokum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu.