150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

almannatryggingar.

294. mál
[18:52]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér með frumvarpi til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, aldurstengd örorkuuppbót. Flutningsmaður auk mín er Inga Sæland.

Á eftir 1. mgr. 20. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Þegar réttur til örorkulífeyris fellur niður og taka ellilífeyris hefst þá skal réttur til aldurstengdrar örorkuuppbótar haldast óbreyttur.

Í 2. gr. segir: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Í greinargerð segir:

Þegar örorkulífeyrisþegi verður 67 ára, þ.e. nær þeim aldri þegar réttur til töku ellilífeyris myndast, fellur niður réttur hans til aldurstengdrar örorkuuppbótar. Við þetta tímamark skerðast greiðslur viðkomandi um þá upphæð sem nemur aldurstengdri örorkuuppbót hans. Þessi skerðing hefur mikil áhrif á ráðstöfunartekjur öryrkja og er þeim verulega íþyngjandi. Rökin fyrir því að greiða aldurstengda örorkuuppbót eru þau að aflahæfi viðkomandi skerðist til lengri tíma allt eftir því hve ungur hann er þegar hann er metinn til 75% örorku. Þau rök eiga við óháð því hvort viðkomandi er 66 eða 67 ára, enda er það svo að með sífellt bættum læknavísindum hefur aflahæfi fólks aukist vel fram yfir 67 ára aldur. Þeir sem eru vinnufærir geta nýtt sér úrræði laganna til töku hálfs lífeyris eða nýtt sér frítekjumörk ellilífeyris en þeir sem eru óvinnufærir njóta þá engra slíkra úrræða. Því á hin aldurstengda örorkuuppbót ekki að falla niður við upphaf töku ellilífeyris.

Aldurstengda örorkuuppbótin var samþykkt á Alþingi 12. desember 2003 og varð að lögum 1. janúar 2004. Aldurstengd örorkuuppbót greiðist þeim sem fá greiddan örorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Fjárhæð miðast við aldur einstaklings þegar hann var í fyrsta sinn metinn til 75% örorku. 16–24 ára einstaklingur fær 44.866 kr. í dag, 25 ára fær 42.000, 26 ára fær 40.379, 27 ára fær 38.000, 28–29 ára fær 33.650, 30–31 árs 29.000, 32–33 ára 24.676, 34–35 ára fær 20.000, 36–37 ára 15.000, 38–39 ára 11.000, 40–45 ára 6.700, 46–50 ára 4.487, 51–55 ára 3.365 kr. og 56–60 ára 2.243 og 60–66 ára 1.122 kr. Þetta eru ekki háar upphæðir sem þarna er um að ræða og það er eiginlega óskiljanlegt að þessar upphæðir skuli detta út við það eitt að öryrki verði ellilífeyrisþegi.

Tveimur árum eftir að lögin öðluðust gildi, rúmlega það, skrifaði Helgi Seljan grein um kjarabætur eldri borgara undir titlinum „Aldurstengd örorkuuppbót og 67 árin“. Með leyfi forseta, segir þar orðrétt:

„Baráttan fyrir bættum kjörum aldraðra og öryrkja hefur oft verið nokkuð samofin en vissulega er um margt ólíku saman að jafna. Sannarlega hefur margt áunnist en allt of oft má segja um fetin fram á við: Of seint — of lítið.

Hafandi starfað um langt skeið að málefnum öryrkja er mér óhætt að fullyrða að einhver stærsti áfangasigurinn hafi unnist undir forystu Garðars Sverrissonar sem formanns Öryrkjabandalagsins þegar samkomulag náðist við ríkisstjórnina um aldurstengda örorkuuppbót sem næmi jafngildi grunnlífeyris öryrkja til þeirra sem öryrkjar hefðu verið alla tíð en uppbótin fór svo stiglækkandi eftir því sem örorkan kom til seinna á lífsleiðinni. Að vísu gerðist það dapurlega að ríkisstjórnin stóð ekki að fullu við loforð sín svo stiglækkunin varð mun meiri en samið hafði í raun verið um. En fyrir stóran hóp öryrkja var hér um dýrmæta kjarabót að ræða og það fólk sem glímt hafði lengst við örorku fékk sinn hlut stórbættan. Ekki skal hér farið í þessa vanefndasögu en hennar má gjarnan minnast. Erindið með þessum línum var hins vegar það að vekja athygli á þeirri oft afar tilfinnanlegu kjaraskerðingu sem öryrkjar verða fyrir við það eitt að eldast, þ.e. að verða 67 ára, verða sem sé „löggilt gamalmenni“. Þá fellur nefnilega aldurstengda örorkuuppbótin niður því samkvæmt laganna hljóðan þá er viðkomandi ekki lengur öryrki heldur ellilífeyrisþegi og brúttótalan getur sem sé lækkað um meira en 24 þúsund á mánuði og það munar um minna.

Bæði Öryrkjabandalagið og samtök eldri borgara hafa knúið á um leiðréttingu, ranglætið verði viðurkennt, en enn ekkert verið aðhafst. Ekki þyrfti nú annað ákvæði inn í tryggingalöggjöfina okkar margbættu en svo einfalt viðbótarákvæði að saman mættu fara bætur ellilífeyrisþega og aldurstengd örorkuuppbót. Eru mér þá Karvelslögin svokölluðu í fersku minni, sjúklingatryggingin svokallaða, þar sem réttlát og eðlileg framkvæmd strandaði á að ekki var til ákvæði sem heimilaði bætur samkvæmt lögunum og almennar örorkubætur. Þetta þýddi sem sagt að öryrkjar sem fyrir viðbótarheilsutjóni urðu fengu ekki bætur samkvæmt sjúklingatryggingu Karvelslaganna, svo hlálega sem það nú hljómar. Þessu var loks kippt í liðinn og öllum þótti sjálfsagt réttlætismál þegar upp var staðið. Hvaða aðferð sem notuð kann að verða til leiðréttingar nú skiptir ekki máli heldur það að öryrkjar verði ekki sviptir þeim tekjum sem þeir fyrir 67 ára aldur áttu lagalegan rétt til.

Ég skora á Alþingi og stjórnvöld að láta þessa ósvinnu ekki líðast og leiðrétta það sem auðvitað á að vera meginsjónarmið að ekki sé unnt að hrifsa bætur af fólki sem það hefur réttilega notið aðeins af því að það er komið á vissan aldur.

Grunngildi aldurstengdu örorkuuppbótarinnar fer þá vissulega fyrir lítið ef ekki verður leiðrétt.“

Í þessum anda er þetta frumvarp lagt fram og í framhaldi af því vil ég benda á umsögn frá Öryrkjabandalaginu í júlí í sumar:

„Alþingi samþykkti eins og kunnugt er, frumvarp félags- og barnamálaráðherra um lækkun skerðinga bóta vegna annara tekna lífeyrisþega. Breytingin var afturvirk, og gildir frá 1. janúar 2019. Tryggingastofnun hefur nú tilkynnt að í síðustu viku ágústmánaðar, munu þeir sem rétt eiga á hækkun greiðslna vegna fyrstu átta mánaða ársins, fá þær greiðslur.

Tekjuviðmið breytast þannig að 65% af skattskyldum tekjum örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hafa nú áhrif á útreikninginn í stað 100% áður. Aldurstengd örorkuuppbót hefur nú 50% vægi í stað 100% áður. Bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, aðrar en aldurstengd örorkuuppbót, hafa áfram 100% vægi.

Öryrkjabandalag Íslands lítur á þessa lagabreytingu sem hænuskref í þá átt að afnema að fullu þá skerðingu sem króna á móti krónu, nú 65 aurar á móti krónu, er og veltir áfram fyrir sér hvers vegna svo erfiðlega gangi að fá ríkisstjórn til að afnema að fullu þessa skerðingu. Aðeins þannig er fötluðu fólki opnuð leið inn á vinnumarkaðinn án þess að þurfa að kaupa sig inn á hann.

Skerðing er áfram til staðar, bara aðeins minni. ÖBÍ brýnir stjórnvöld til að stíga skrefið til fulls og afnema skerðinguna að fullu.“

Þarna er verið að ræða um krónu á móti krónu skerðinguna og hún hafði gífurleg áhrif á tekjutengdu uppbótina og skerti hana illa og við verðum að átta okkur á því að segja má að hin tekjutengda uppbót örorkulífeyrisþega sé hálfgerður lífeyrissjóður þeirra. Við erum að tala um unga einstaklinga sem í mörgum tilfellum komast aldrei út á vinnumarkaðinn. Fólk á vinnumarkaði safnar í lífeyrissjóð, rúm 15%, og það getur líka safnað í séreignarsparnað. Margir öryrkjar sem hafa aldrei farið út á vinnumarkaðinn hafa engin tök á að afla sér slíkra tekna. Þar kemur séreignarlífeyrissparnaðurinn blóðugast út. Þess vegna ber okkur að sjá til þess að þeir sem eru í þessari aðstöðu og fæðast með þá byrði að þurfa að vera öryrkjar alla sína tíð séu ekki afskrifaðir sem heilbrigðir við 67 ára aldur og verði þá heilbrigð gamalmenni.

Því miður er ótrúlega mikið óréttlæti innbyggt í kerfið okkar. Þetta er eitt af því. Við sjáum líka á upptalningunni að það virðst einu gilda hvar gripið er niður hjá öryrkjum, það eru alltaf einhverjar skerðingar. Ég verð í því samhengi líka að benda á að það er óþolandi að við skulum vera með kerfi, og hafa viðhaldið því árum saman, sem skerðir eftir á, kerfi með þann umbúnað að ekki er einu sinni hægt að treysta skattskýrslum hvers árs. Kerfið setur tekjur á skattskýrslur, ekki hundruð þúsunda heldur jafnvel yfir milljón eða meira og þetta er skráð á skattskýrslu eins og viðkomandi hafi fengið þessar upphæðir en þetta er allt tekið af þeim ári síðar. Síðan koma stjórnvöld og segja: Hey, við vorum svo góð við öryrkjana. Við hækkuðum þá svo rosalega. Við settum þetta inn á skattskýrsluna, hundruð þúsunda eða jafnvel milljónir, og þeir hafa það svo miklu betra af því að þeir fengu þennan pening. Því miður, það er bara ekki rétt. Þeir fengu aldrei þennan pening.

Það sem er ljótast af öllu er að þetta kemur hvergi fram, hvergi í opinberum gögnum, nema fólk grafi eftir því. Jú, þetta er til hjá Tryggingastofnun. Þetta er til hjá félagslega kerfinu, Reykjavíkurborg. Þessar upplýsingar eru alls staðar til en þær koma aldrei inn í kerfið þannig að hægt sé að reikna þetta út. Það er því eina leiðin, það eina sem við getum gert, og við eigum að sjá til þess að það verði gert og eigum að drífa í því, að greiða bætur á rauntíma, að allt sé reiknað upp á rauntíma þannig að þegar skattálagning hvers árs kemur fram sé hún rétt. Þá á að vera hægt að segja: Nákvæmlega þetta fékk viðkomandi öryrki á þessu ári.

Því miður er kerfið svo flókið að á sama tíma og einn öryrki er skertur um 100 þús. kr. er annar skertur um milljón. Ég tala þar af reynslu og það er skelfileg staða, alveg ömurleg, að taka við eingreiðslu lífeyrissjóða, sem kemur oft þegar fólk verður öryrkjar, og lenda í þeirri fáránlegu aðstöðu að þú færð 0 kr. frá Tryggingastofnun í heilt ár. Fólk með börn fær engar greiðslur í heilt ár. Það sem er verra er að þetta eru greiðslur sem kannski var dreift á þig í mörg ár, tvö til þrjú ár. Kerfið er svo undarlegt. Þá er ekki bara verið að svipta þig öllu frá Tryggingastofnun heldur er verið að svipta þig barnabótum, vaxtabótum. Þetta er mannfjandsamlegt kerfi og á ekki að líðast vegna þess að þarna er um veikt fólk að ræða og þá segir kerfið: Þú getur kært aftur á bak, þú getur dreift þessu. En þú átt ekki að þurfa að standa í því. Veikur einstaklingur sem er að berjast fyrir því að ná heilsu, og með áhyggjur af farmfærslu fjölskyldu sinnar, á ekki að þurfa að berjast við kerfið líka til að það sé réttlátt við hann. Við eigum að sjá til þess, ef við erum á annað borð að úthluta fjármunum til þeirra sem þurfa á því að halda, að fjármunirnir skili sér án allra milliliða, án þess að skerðast ári seinna.

Þetta er eitt af forgangsmálum Flokks fólksins, eitt af málunum í velferðarpakka okkar, eitt af þeim mörgu sem við höfum þegar lagt fram og mörg eiga eftir að koma fram. Ég reikna með að málið fari nú til hv. velferðarnefndar og ég vona heitt og innilega að það sleppi í gegn vegna þess að þetta er ekki dýrt fyrir ríkið en það skiptir gríðarlegu máli fyrir þá öryrkja sem eru á þessum litlu bótum að fá að halda þeim þegar þeir verða 67 ára og fara á eftirlaun.