150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

undirritun og fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

70. mál
[19:12]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um að Ísland gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um að banna kjarnorkuvopn. Flutningsmenn með mér á tillögunni eru hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, Ari Trausti Guðmundsson og Ólafur Þór Gunnarsson. Ég hef áður mælt fyrir þessu máli en samhljóða tillögur voru lagðar fram á 147., 148. og 149. löggjafarþingi. Í tvö síðustu skiptin af þeim þremur var mælt fyrir málinu og það gekk til utanríkismálanefndar.

Tillögutextinn sjálfur við þessa tillögu er mjög einfaldur en hann hljómar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að undirrita og fullgilda samning um bann við kjarnorkuvopnum sem samþykktur var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York 7. júlí 2017.“

Þetta er mikilvægt mál og ég ætla hér að gera stuttlega grein fyrir því og rökstyðja af hverju Ísland eigi að gerast aðili að þessum samningi. Þetta er samningur um að kjarnorkuvopn verði bönnuð. Mig langar því að víkja nokkrum orðum að kjarnorkuvopnum vegna þess að þau eru ekki bara eins og hver önnur vopn heldur eru þau sérlega andstyggileg vegna eyðileggingarmáttar þeirra. Með einni kjarnorkusprengju er hægt að leggja heilar borgir í rúst og drepa milljónir manna og við þekkjum auðvitað öll hræðileg örlög íbúanna í Hírósíma og Nagasaki sem upplifðu það að verða fyrir kjarnorkusprengju. Enn eru til eftirlifendur þeirra sprenginga sem lifa við eftirköst, veikindi og aðra erfiðleika vegna kjarnorkusprengja sem sprengdar voru fyrir meira en 70 árum.

Aðdragandinn að þessum samningi um að banna kjarnorkuvopn er nokkuð langur og það eru í gildi aðrir kjarnorkuafvopnunarsamningar núna. Þar ber kannski fyrstan að nefna NPT-samninginn um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna. Aðilar að honum eru 191 ríki og hann hefur oft verið talinn einn mikilvægasti afvopnunarsamningurinn á sviði kjarnorkuvígbúnaðar, en í honum felst að fleiri ríki en nú eiga kjarnorkuvopn komi sér ekki upp slíkum vopnum. Sá samningur leggur líka þær skyldur á herðar þeim ríkjum sem nú þegar búa yfir vopnum að vinna að útrýmingu þeirra og það hefur kannski minna borið á efndum á þeim hluta samningsins. Þá er það INF-samningurinn um meðaldrægar kjarnorkuflaugar frá árinu 1987. Drögin að þeim samningi voru reyndar lögð hér í Reykjavík í Höfða á frægum fundi árið 1986. Sá samningur gengur út á það að heilum flokki kjarnorkuvopna, þ.e. meðaldrægum kjarnorkuflaugum verði hreinlega eytt. Frá því að samningurinn tók gildi 1987 hafa Bandaríkjamenn eytt um 850 kjarnorkuflaugum og 32 skotstæðum og Rússar hafa eytt yfir 1.800 kjarnorkuflaugum og næstum 120 skotstæðum. Þetta er auðvitað mikilvægt en því miður gerðist það í fyrra að Bandaríkjamenn sögðu þessum samningi upp, m.a. báru þeir fyrir sig vanefndir Rússa á samningnum. Það er auðvitað ömurlegt mál fyrir heimsbyggðina alla að þessi tvö stærstu kjarnorkuveldi hafi orðið þess valdandi að hinn mikilvægi afvopnunarsamningur er í rauninni ekki lengur í gildi.

Þá langar mig að nefna SALT-samningana en undirstaða þeirra er að fækka kjarnorkuvopnum og fækkunin sem ég talaði um áðan byggir að hluta til á þeim. Þessa samninga þarf að endurnýja á nokkurra ára fresti og nú hefur Trump lýst því yfir að hann muni ekki endurnýja SALT-samningana nema Kína verði partur af samningnum. Auðvitað er mikilvægt að Kína sem kjarnorkuríki taki þátt í kjarnorkuafvopnun. En það er hins vegar líka mikilvægt að hafa í huga að Kína kemst ekki í hálfkvisti við Bandaríkin og Rússland í fjölda kjarnorkusprengja, en það er að sjálfsögðu sama, ein kjarnorkusprengja er í rauninni allt sem þarf til þess að koma heimsbyggðinni allri í veruleg vandræði, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

En af hverju er ég að rekja þetta allt saman í framsöguræðu með þessari þingsályktunartillögu? Jú, vegna þess að á síðustu árum hefur verið grafið undan þeim afvopnunarsamningum sem til eru. Það þarf að fara nýja leið til þess að fækka og útrýma kjarnorkuvopnum því að gömlu samningarnir hafa ekki verið að virka. Samtökin ICAN hafa um árabil barist fyrir því að kjarnorkuvopn verði bönnuð og það gerðist svo 7. júlí árið 2017 að 122 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu samning um bann við kjarnorkuvopnum. Samningurinn tekur gildi þegar 50 ríki hafa afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna skjal um fullgildingu, staðfestingu, samþykkt eða aðild. Núna er staðan sú að 79 ríki hafa undirritað þennan samning og 33 ríki hafa fullgilt hann þannig að við erum að nálgast það að ná 50 ríkja tölunni og að sá mikilvægi samningur verði einn af samningum Sameinuðu þjóðanna og kjarnorkuvopn þar með bönnuð.

Vitaskuld á Ísland að vera aðili að svona samningi. Það þýðir ekkert að segja á tyllidögum að við séum herlaus þjóð en leggja svo ekki okkar af mörkum þegar kemur að því að banna illræmdustu vopn sem hafa verið fundin upp. Samtökin ICAN sem unnu brautryðjendastarf við að koma þessum samningi á koppinn hlutu friðarverðlaun Nóbels árið 2017 þannig að það er mikil vigt í þessu og vitaskuld væru ekki 33 þjóðríki búin að fullgilda samninginn og Sameinuðu þjóðirnar væru ekki að lyfta þessu svona upp nema af því að um mikilvægan samning er að ræða.

Ég vonast auðvitað til þess að þetta þingmál eigi eftir að hljóta brautargengi hér og vil minna á að það eru 25 þingmenn sem hafa skrifað undir heit eða loforð þess efnis að vinna að því að kjarnorkuvopn verði bönnuð og það er hægt að kynna sér hverjir þeir hv. þingmenn eru á heimasíðu ICAN. Ég myndi því ætla að við hefðum ansi drjúgan hluta þingmanna hér sem eru málinu efnislega algerlega sammála og ég trúi því reyndar varla að það sé nokkur fylgjandi því að kjarnorkuvopn verði ekki bönnuð. Ég bind vonir við að nú í fjórðu tilraun fari þetta mál í gegnum þingið og hljóti að lokum brautargengi. Það væri gaman að geta greitt atkvæði um þetta síðar í vetur.

Ég vil með þeim orðum að ljúka ræðu minni og legg til að málinu verði vísað til hv. utanríkismálanefndar og síðari umr.