150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

losun kolefnis.

[15:07]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Þó svo að ég lýsi því yfir hér að ég telji að ekki sé hægt að ná nettólosun niður fyrir árið 2025, það sé ekki raunhæft, er ekki þar með sagt að við Íslendingar eða aðrar þjóðir eigi ekki að setja sér skýr og metnaðarfull markmið þegar kemur að loftslagsmálum, sem ég tel okkur Íslendinga hafa gert. Ég hef líka sagt að við þurfum að gera enn þá betur. Við erum að stíga mjög stór skref þegar kemur að þessum málum og ég vísa þar m.a. í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar frá því í september 2018 og þær fjölmörgu aðgerðir sem þar hefur verið gripið til. Þannig að það sé algjörlega skýrt þá vill sá sem hér stendur að Ísland sé fremst í flokki þegar kemur að loftslagsmálum og setji sér metnaðarfull markmið og fylgi þeim vel eftir.