150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

kjör lifeyrisþega.

[15:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Frumvarp til fjáraukalaga er á dagskrá hér síðar í dag. Þar kennir ýmissa grasa en gagnrýnisvert er og í raun algjörlega óásættanlegt að ekki sé gert ráð fyrir fjármagni til að greiða þeim sem treysta á lífeyrisgreiðslur hækkun í takti við lífskjarasamningana svokölluðu. Fólkið sem þarf að treysta á lífeyrisgreiðslur hefur ekki valið sér hlutskipti sitt. Það erum við, löggjafinn og stjórnvöld, sem eigum að standa vörð um þann hóp.

Hæstv. forsætisráðherra hefur verið þeirrar skoðunar að það ætti að vera metnaðarmál stjórnvalda að bæta kjör öryrkja og eldri borgara. Við umræður um fjáraukalögin 2015 tók hæstv. forsætisráðherra, þá í stjórnarandstöðu, undir breytingartillögu minni hluta fjárlaganefndar um hækkanir í samræmi við nýgerða kjarasamninga og sagði, með leyfi forseta:

„Þess vegna tek ég undir með minni hlutanum sem leggur bara þá breytingu til að öryrkjar og eldri borgarar fái kjör sem eru að minnsta kosti sambærileg við þau kjör sem þeir búa við sem hafa í raun lægstu kjörin í samfélaginu og þær kjarabætur verði afturvirkar eins og gert er ráð fyrir á almennum markaði. Þessir hópar hafa ekki valið sér hlutskipti sitt og það á að vera sómi okkar að búa sæmilega að þeim.“

Hæstv. forsætisráðherra sat einnig í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem ákvað, eftir kjarasamningana 2011, að öryrkjar og eldri borgarar fengju hliðstæðar kjarabætur og þá var samið um á milli ASÍ og SA. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mærir lífskjarasamningana en skilur öryrkja og eldri borgara eftir. Hvers vegna fá þau ekki greiðslur frá 1. apríl í takti við lífskjarasamningana? Hvers vegna skipti hæstv. forsætisráðherra um skoðun varðandi þessi mál?