150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef m.a. áhyggjur af öryggisþættinum vegna þess að nú er mikill mannauður innan Mannvirkjastofnunar. Forstjórinn mun láta af störfum með gríðarlega reynslu og þekkingu, en mér skilst að hann hafi hvergi komið að málum þegar til stóð að sameina umræddar stofnanir eða að ráðgjöf í þeim efnum. Í því sambandi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Voru unnar einhverjar skýrslur og greinargerðir o.s.frv. um öryggisþáttinn? Er ekki rétt að við fáum að sjá þær skýrslur? Hvað er það síðan í lagaumgjörð og skipulagi sameinaðrar stofnunar sem ráðherra telur að tryggi betri árangur í að fyrirbyggja slys og önnur óæskileg atvik í þessum málaflokki? Þetta eru allt mjög áleitnar spurningar og það læðist að manni í þessu öllu saman að hér sé Íbúðalánasjóður að yfirtaka þessa stofnun.

Rætt er um sparnað og (Forseti hringir.) betri nýtingu fjármuna. Það er ekki að sjá. Á bls. 19 í frumvarpinu segir t.d. að ekki sé gert ráð fyrir að kostnaður vegna starfsmannahalds muni hafa áhrif á ríkissjóð. (Forseti hringir.) Hvar er þessi sparnaður sem hæstv. ráðherra sér? En fyrst og fremst hef ég (Forseti hringir.) áhyggjur af faglega þættinum í þessu máli.