150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Eins og ég hef áður bent á virðist því miður skammur fyrirvari og mikill hraði við að keyra þetta mál í gegn. Þá hringja yfirleitt alltaf viðvörunarbjöllur um að eitthvað sé ekki eins og það á að vera og eitthvað gæti farið úrskeiðis í þeim málum. Ef við kíkjum á það sem mér í fljótu bragði sýnist vera mesti gallinn á málinu virðist ekki vera vilji til þess að breyta vaxtakjörum ákveðins hóps fólks sem er nú þegar fast í gildru gamla Íbúðalánasjóðs og borgar mjög háa vexti miðað við það sem gengur og gerist og er hægt að fá á markaði í dag. Þarna er undir það fólk sem síst skyldi, fólk sem ætti einmitt að vera með bestu lánakjörin og bestu vextina, það eru öryrkjar og láglaunafólk sem ættu að vera með góð kjör. Svo er líka auðvitað staðreynd að þeir sem eru kannski fastastir í þessu eru þeir sem búa úti á landi.

En hvað erum við að tala um í samhengi við þessa sameiningu? Það er t.d. Mannvirkjastofnun. Ég óttast það mest að Mannvirkjastofnun líði fyrir þetta. Það væri alveg skelfilegt ef það kæmi upp vegna þess að Mannvirkjastofnun er með vítt hlutverk, eins og segir orðrétt í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Mannvirkjastofnun aðstoðar og tryggir þannig samræmingu á byggingareftirliti, eldvarnareftirliti og starfsemi slökkviliða, ásamt rafmagnsöryggi.“

Þarna undir er t.d. slökkvilið og ég veit að það eru ákveðnar áhyggjur meðal slökkviliðsmanna. Ákveðnir hlutir eru ekki í lagi, t.d. í sambandi við Brunavarnaskólann og ýmsa hluti sem er krafist að tekið sé á og þeim komið í lag. Ég óttast líka að þegar verður farið í sameiningu gleymist svona hlutir og sitji eftir. Undir Mannvirkjastofnun heyra t.d. íbúðir eða húsnæði fyrir öryrkja sem eru í hjólastól. Það þarf eiginlega efla það eftirlit vegna þess að við höfum orðið vör við að nýjar byggingar sem eru teknar út eru með rosalega flotta aðstöðu fyrir öryrkja í hjólastól en hún virkar ekki vegna þess að það er allt gert rangt. Þarna þarf auðvitað að efla eftirlit og ganga í hlutina þannig að þeir virki.

Það sem kemur þarna inn í líka er þessi 100 milljóna sparnaður. Það kemur ekki fram nákvæmlega hvar hann eigi að taka. Ég óttast einnig að Íbúðalánasjóður og yfirstjórn hans og Mannvirkjastofnun skuli vera alveg gjörólíkar stofnanir. Ég veit ekki hvor vegur þyngra sem forstjóri nýs fyrirtækis, sá sem kemur frá Íbúðalánasjóði eða Mannvirkjastofnun. Ég myndi telja að í því samhengi væri mikilvægara að hafa þann sem kemur frá Mannvirkjastofnun vegna þess að ég tel mun meira áríðandi að það sé allt í lagi sem undir er í sambandi við Mannvirkjastofnun.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en við munum skoða þetta vel í velferðarnefndinni. Það sem mér hugnast síst í þessu, eins og áður segir, eru vaxtakjörin sem á ekki að breyta fyrir þá sem mest þurfa á að halda og svo hitt, flýtirinn í málinu.