150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég kom inn á það áðan í andsvari við hæstv. ráðherra að ég hefði áhyggjur af því að við þessa sameiningu væri ekki nægilega hugað að faglega þættinum sem er mjög mikilvægur í báðum þessum stofnunum, sérstaklega vil ég nefna Mannvirkjastofnun. Við í Miðflokknum höfum talað fyrir því að sameina eigi stofnanir í sparnaðar- og aðhaldsskyni í ríkisrekstri en það má ekki koma niður á faglega þættinum. Hæstv. ráðherra hefur ekki sýnt fram á það með neinum gögnum að sameining þessara stofnana komi til með að skila verulegum sparnaði fyrir ríkissjóð. Hann sagði meira að segja að það væri í sjálfu sér ekki markmiðið. Ég tel líka nauðsynlegt að huga að því að í Mannvirkjastofnun er undir mjög mikilvægur málaflokkur sem lýtur að öryggismálunum.

Maður veltir því fyrir sér hvort ekki hefði verið skynsamlegra að skoða leiðir til að sameina öll þessi öryggismál okkar í eina stofnun að fyrirmynd Norðmanna og Svía þar sem öll verkefni er lúta að öryggi borgaranna og viðbragðsgetu samfélagsins, ef svo má orða það, eru undir einum hatti og þá er átt við forvarnir, fyrirbyggjandi starf, eftirlit o.s.frv. eins og t.d. eldvarnaeftirlit, rafmagnseftirlit, stórslysavarnir, svo dæmi sé tekið, hættuleg efni og almannavarnir og neyðarsímsvörun. Ég sé ekki alveg hvernig þessi mikilvægi þáttur í starfi Mannvirkjastofnunar á að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði, ég næ því ekki alveg. Vissulega eru þarna ákveðin tengsl. Það er gott að einfalda kerfið. Ég styð það heils hugar að einfalda kerfið og regluverkið í kringum byggingarframkvæmdir o.s.frv., það eru allt mikilvægir þættir. Það hefur verið rætt um að hér sé regluverkið allt of þungt og það komi niður á byggingarkostnaði og því sé mikilvægt að einfalda það. Ef það er raunin í þessu er það að sjálfsögðu fagnaðarefni. En ég hef áhyggjur af faglega þættinum. Þarna eiga mjög mikilvæg verkefni á könnu Mannvirkjastofnunar að flytjast yfir í Íbúðalánasjóð í þessari sameiginlegu stofnun og það er tilfinning mín, þegar ég hef verið að kynna mér þetta mál, að þetta sé svolítið yfirtaka Íbúðalánasjóðs á Mannvirkjastofnun. Ég hef heimildir fyrir því að margir innan Mannvirkjastofnunar séu ósáttir við framgöngu þessa máls og telji að samráð hafi ekki verið nægilegt í því ferli. Það er nauðsynlegt að fá að vita hvaða ráðgjafar komu að þessu. Það er nauðsynlegt að við þingmenn fáum að vita það. Voru allir þeir ráðgjafar sem komu að því sammála um að þetta væri gott hvað varðar öryggisþáttinn? Þetta verður allt að ræða mjög ítarlega í vinnu nefndarinnar. Ég held að það sé nauðsynlegt að við fáum mjög skýr svör við því að þetta muni þá leiða til þess að öryggi borgaranna verði betur tryggt.

Maður spyr sig að því, þetta ber allt svo brátt að hér, eins og nokkrir þingmenn hafa komið inn á, hvort við séum að brenna okkur á því að fara of geyst í mál sem er mjög mikilvægt, sem síðan gæti haft skaðleg áhrif á þá mikilvægu þætti sem eru innan þessara stofnana, og þá vísa ég aftur til Mannvirkjastofnunar. Það er síðan nauðsynlegt að fá líka, eins og ég sagði hér áðan í andsvarinu, skýrslur um þetta mál, auk þess að vita hver hvatinn er. Hæstv. ráðherra hefur nefnt aukinn slagkraft í málaflokkinn. Ég spyr: Hefur verið slakur slagkraftur í málefnum þeim sem Mannvirkjastofnun stendur fyrir? Það efast ég stórlega um. Hún sinnir mjög mikilvægum öryggismálum. Þess vegna er nauðsynlegt að fá að vita hvað það er í starfi Mannvirkjastofnunar sem hæstv. ráðherra telur svona nauðsynlegt að bæta og hvað það er sem hann telur að hann bæti með þessari sameiningu þegar kemur að öryggismálum.

Herra forseti. Það eru mörg álitamál í þessu. Ég hef miklar efasemdir um þetta mál og ég vona að það verði rætt ítarlega í nefndinni. Ég vona að starfsmenn Mannvirkjastofnunar verði boðaðir á fund og fái að tjá sig um þetta ferli og hvernig þeir sjá það fyrir sér, hvort þeir telji þessa sameiningu skynsamlega. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að fá það fram frá starfsmönnum stofnunarinnar, ekki bara forstjórum beggja stofnananna heldur hinum almenna starfsmanni sem sinnir þessum störfum, hvernig menn sjá þetta fyrir sér.