150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[17:30]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almennar íbúðir. Upphaflega tóku lögin gildi 15. júní 2016 en með þeim var sett á fót nýtt kerfi húsnæðisstuðnings sem ætlað var að auka húsnæðisöryggi tekju- og eignaminni leigjenda með því að auka aðgengi þeirra að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði, svokölluðum almennum íbúðum. Annað grundvallarmarkmið laganna var og er að stuðla að því að húsnæðiskostnaður leigjenda almennra íbúða sé í samræmi við greiðslugetu og að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna. Frumvarpið sem við fjöllum um hérna varðar breytingar á því.

Lög um almennar íbúðir fjalla um heimildir ríkis og sveitarfélaga til að veita svokölluð stofnframlög til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum á viðráðanlegu verði. Fyrstu almennu íbúðirnar hafa nú þegar verið afhentar leigjendum en frá fyrstu úthlutun stofnframlaga í árslok 2016 hefur tæplega 12 milljörðum kr. verið úthlutað í formi stofnframlaga til byggingar eða kaupa á 2.123 almennum íbúðum.

Frumvarp þetta er liður í þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin lagði fram til að liðka fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði síðasta vor til að styðja við markmið um efnahagslegan stöðugleika og bæta kjör launafólks. Aðgerðirnar voru í alls 38 liðum og þar af snýr rúmlega þriðjungur þeirra að aðgerðum á sviði húsnæðismála. Í lið 18 í lífskjarasamningi kemur m.a. fram að ríkisstjórnin muni vinna að innleiðingu tillagna átakshóps stjórnvalda um húsnæðismál í samráði við aðila vinnumarkaðar og sveitarfélög. Eftirfylgni með tillögum átakshópsins var falin Íbúðalánasjóði í samráði við þau ráðuneyti sem fara með stjórn viðkomandi málaflokka og gefur sjóðurinn reglulega út stöðuskýrslur um framgang þeirra verkefna. Á meðal tillagna átakshópsins sem stjórnvöld hafa þannig skuldbundið sig til að vinna að innleiðingu á eru tillögur um húsnæðismál nr. 2, 4, 5, 6 og 7 um almenna íbúðakerfið og er frumvarpinu ætlað að koma þessum tillögum til framkvæmda. Unnið er að nánari útfærslu annarra tillagna er varða lífskjarasamninga, m.a. um almennar íbúðir og stofnframlög, svo sem nýjum lánaflokki hjá Íbúðalánasjóði fyrir stofnframlagshafa til fjármögnunar á almennum íbúðum sem ætlað er að lækka fjármagnskostnað þeirra.

Með frumvarpinu sem hér er mælt fyrir eru einnig lagðar til breytingar á lögum um almennar íbúðir í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á framkvæmd þeirra síðustu ár þannig að þau nái betur markmiðum sínum. Frumvarpið var samið í félagsmálaráðuneytinu í samvinnu við Íbúðalánasjóð með hliðsjón af þeim ábendingum og breytingartillögum sem borist hafa, m.a. frá þeim aðilum sem hlotið hafa stofnframlög á undanförnum árum.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tekju- og eignamörkum leigjenda almennra íbúða þannig að hærra hlutfall landsmanna eigi kost á almennum íbúðum. Er það í samræmi við tillögu 4 í skýrslu átakshóps um húsnæðismál og það sem um var samið í tengslum við kjarasamninga árið 2015. Í stað þess að mörkin miðist við lægstu 25%, þ.e. neðri fjórðungsmörk reglulegra heildarlauna fullvinnandi einstaklinga samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands, sem eru sömu tekju- og eignamörk og gilt hafa um leigjendur félagslegra leiguíbúða sem fjármagnaðar hafa verið með niðurgreiddum lánum frá Íbúðalánasjóði, er lagt til í þessu frumvarpi að mörkin miðist við tekjur í tveimur lægstu tekjufimmtungum eða 40%.

Í ljósi þeirra umsagna sem bárust um frumvarpið í gegnum samráðsgátt stjórnvalda er rétt að árétta að stofnframlagshöfum verður eftir sem áður heimilt að miða við þrengri tekju- og eignamörk í reglum sínum um úthlutun almennra íbúða. Hér er því aðeins um að ræða það hámark sem gildir almennt um tekjur og eignir leigjenda þegar flutt er inn í almenna íbúð. Einnig er rétt að taka fram að slíkt hámark gildir ekki um úthlutun á félagslegu íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélaga sem fjármagnað hefur verið með stofnframlögum. Leiðir það af 21. gr. laganna og þeirri grundvallarreglu að úthlutun á slíku húsnæði sveitarfélaga byggi á heildarmati á félagslegum aðstæðum umsækjenda.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til mikilvægar breytingar sem eru liður í verkefni félagsmálaráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs um húsnæðismál á landsbyggðinni. Alkunnugt er að landsbyggðin glímir víða við misvægi á milli byggingarkostnaðar og markaðsvirðis íbúðarhúsnæðis sem leitt hefur til þess að lítið hefur verið byggt af nýju húsnæði á köldum markaðssvæðum þrátt fyrir gríðarlega mikla eftirspurn. Stjórnvöld ætla að bregðast við þessum vanda með margvíslegum aðgerðum og er það ætlun okkar að virkja húsnæðismarkaðinn um allt land. Nýlega kynntum við til að mynda nýjan lánaflokk sem komið hefur verið á fót hjá Íbúðalánasjóði til að lána til slíkra framkvæmda enda er ljóst að erfiðlega hefur gengið að fjármagna slík verkefni. Í þessu sambandi er einnig lagt til með frumvarpinu að Íbúðalánasjóði verði gert kleift að veita svokallað sérstakt byggðaframlag til fjármögnunar á almennum íbúðum á svæðum þar sem verulegur skortur er á leiguhúsnæði og misvægi er á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs íbúðarhúsnæðis. Gert er ráð fyrir að framlagið miðist framvegis við þörf hverju sinni en samkvæmt gildandi lögum getur framlagið eingöngu numið föstu hlutfalli stofnvirðis íbúðar, þ.e. 6%. Það hlutfall nær oft ekki að brúa það bil sem nauðsynlegt er til að framkvæmd standi undir sér en einnig eru dæmi þess að misvægi sé minna en 6%. Það er því mikilvægt að sú breyting verði gerð að sérstakt byggðaframlag geti framvegis miðast við þörf hverju sinni frekar en fasta prósentu. Áfram er gert ráð fyrir að sérstakt byggðaframlag feli í sér styrk og því ekki gert ráð fyrir að farið verði fram á endurgreiðslu þess nema eigendaskipti verði að umræddri íbúð.

Í tengslum við umrætt verkefni um húsnæðismál á landsbyggðinni er einnig lagt til að sveitarfélögum verði heimilað að leggja fram húsnæði sem breyta á í almennar íbúðir sem stofnframlag enda verði ekki talið óhagkvæmt að breyta því í almennar íbúðir. Í mörgum sveitarfélögum er til staðar húsnæði sem ekki er í notkun, til að mynda félagsheimili eða heimavist, sem mögulegt væri að breyta í almennar íbúðir og er því lagt til að sveitarfélag geti lagt slíkt húsnæði til sem stofnframlag.

Þessu til viðbótar eru lagðar til ýmsar breytingar sem hafa það að markmiði að lækka fjármagnskostnað stofnframlagshafa og stuðla þannig að sem lægstu leiguverði. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að stofnframlagshafar geti fengið hærra hlutfall stofnframlags greitt út í upphafi en áður tíðkaðist, þ.e. 75% í stað 50%. Með því má draga úr þörf á kostnaðarsömum brúarlánum. Í þessu sambandi er enn fremur lagt til að síðari greiðsla stofnframlaga, þau 25% eða 50% sem út af standa eftir aðstæðum, verði framvegis veitt við öryggisúttekt íbúðar fremur en við útleigu íbúðar þegar um nýbyggingu er að ræða. Er það einnig til þess fallið að auðvelda framkvæmdina hjá Íbúðalánasjóði.

Í öðru lagi er lagt til það nýmæli að greiðsla síðari hluta stofnframlags verði verðtryggð samkvæmt vísitölu byggingarkostnaðar í allt að tvö ár á þeim tíma sem líður frá útgreiðslu fyrri hluta stofnframlags fram að útgreiðslu síðari hluta framlagsins. Mikið hefur verið kallað eftir slíkri breytingu af hálfu stofnframlagshafa til að draga úr áhættu þeirra vegna hækkunar byggingarkostnaðar frá því að fyrri hluti stofnframlags er veittur þar til síðari greiðsla berst. Gert er ráð fyrir að umrædd breyting taki til þeirrar stofnframlaga sem úthlutað er frá og með næsta ári.

Í þriðja lagi er lögð til önnur þýðingarmikil breyting á lögunum sem mikið hefur verið kallað eftir, sem er að stofnframlagshöfum verði gert kleift að veðsetja fleiri en eina almenna íbúð til tryggingar á almennu skuldabréfi sem gefið er út á markaði eða svokölluð veðpottaheimild. Með því má auðvelda stofnframlagshöfum að sækja sér hagstæða fjármögnun á framtíðarverkefnum.

Í fjórða lagi er lagt til með frumvarpinu að unnt verði að gera samninga um úthlutun stofnframlaga fram í tímann, þ.e. til allt að þriggja ára í senn, til að auka fyrirsjáanleika í verkefnum stofnframlagshafa. Slíkt samkomulag yrði ávallt háð nánari skilyrðum og gert með fyrirvara um fjárveitingar á fjárlögum og að frestir samkvæmt tímasettri framkvæmdaáætlun verkefnisins séu haldnir.

Loks er lagt til að lagaheimild verði veitt til þess að þeim sem fengu úthlutað stofnframlögum á árunum 2016 og 2017 verði veitt viðbótarframlög til leiðréttingar á því misræmi sem skapaðist við það að þágildandi viðmið um hámark byggingarkostnaðar voru lægri en efni stóðu til. Mikilvægt er að úr því verði bætt til að tryggja að umrædd verkefni fái full stofnframlög í samræmi við viðmið um hámarksbyggingarkostnað eins og þau stóðu í árslok 2017.

Á meðal annarra breytingartillagna frumvarpsins er að liðkað verði fyrir veitingu stofnframlaga vegna nýbyggingarframkvæmda og að skýrt verði hvernig endurgreiðslum stofnframlaga skuli háttað þegar ekki hafa verið tekin lán til fjármögnunar á almennum íbúðum eða lágt hlutfall stofnvirðis þeirra hefur verið fjármagnað með lánum, þ.e. minna en 30% af stofnvirði íbúðar. Í því sambandi eru einnig lagðar til breytingar á hámarkslengd lána sem tekin eru til fjármögnunar á almennri íbúð sem nema lægra hlutfalli en 30% af stofnvirði íbúðar. Gert er ráð fyrir að þau verði að hámarki til 20 ára í stað 50 ára til að draga úr fjármögnunarkostnaði og þar með stuðla að lægra leiguverði. Einnig er lagt til að lögfest verði tímabundin forgangsregla þess efnis að við afgreiðslu umsókna um stofnframlög skuli Íbúðalánasjóður miða við a.m.k. tveir þriðju hlutar þess fjármagns sem til úthlutunar er hverju sinni renni til íbúða sem ætlaðar eru tekjulágum og eignaminni leigjendum á vinnumarkaði.

Hér er aðeins um að ræða tímabundna heimild sem gilda mun þar til stofnframlögum hefur verið úthlutað til 1.534 almennra íbúða fyrir tekju- og eignaminni leigjendur á vinnumarkaði. Sú ráðstöfun er liður í skuldbindingum ríkisins samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál frá 28. maí 2015 sem gerð var til að liðka fyrir kjarasamningum það ár. Þar var m.a. kveðið á um uppbyggingu 2.300 almennra íbúða og var lagt til grundvallar við gerð samkomulagsins að tveim þriðju hluta þeirra yrði ráðstafað til tekju- og eignaminni einstaklinga á vinnumarkaði. Forgangsreglunni er þannig ekki ætlað að gilda til frambúðar um úthlutun stofnframlaga heldur tímabundið þar til skuldbindingum ríkisins samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi hefur verið fullnægt enda voru þær forsenda kjarasamninga árið 2015.

Loks er lagt til að umsóknum um stofnframlög sem varða verkefni þar sem góðar almenningssamgöngur eru fyrir hendi verði veittur forgangur við afgreiðslu umsókna og er það í samræmi við tillögur er varða lífskjarasamninginn.

Frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og bárust alls 11 umsagnir um það. Tekið var tillit til þeirra athugasemda sem fram komu við samráðið eftir því sem frekast var unnt og breytingar gerðar á frumvarpinu þar að lútandi.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar Alþingis.