150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[17:43]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almennar íbúðir. Þetta er besta mál en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um tekjuviðmið og byrja á því sem stendur orðrétt í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Setja verði í forgang við ráðstöfun stofnframlaga og annarra opinberra framlaga vegna uppbyggingar á íbúðarleiguhúsnæði verkefni þar sem góðar almenningssamgöngur eru fyrir hendi“.

Ég spyr mig: Á fólk ekki að fá að velja hvar það býr? Á að gera fólki að þurfa að vera þar sem eru góðar almenningssamgöngur? Hvað teljast vera góðar almenningssamgöngur? Er það borgarlínan? Er það hún sem allt á að byggjast upp við? Ef svo er, hvernig í ósköpunum sér ráðherra fyrir sér að það verði hægt að byggja í kringum hana að mestu leyti og hversu mikil ívilnun fylgir þessari áætlun um að það megi eingöngu byggja þarna í kring? Hver er munurinn fyrir þá einstaklinga sem verða við borgarlínuna eða þessar góðu almenningssamgöngur og þá sem eru lengst frá? Hversu óhagstæður er munurinn þar á milli? Síðan er hin spurningin: Hvers vegna í ósköpunum var ekki miðað við 50% meðallaun í landinu, sem eru 440.000, heldur 40%? Það myndi nýtast mun fleirum.