150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[17:45]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Í fyrsta lagi er varðar prósentutöluna sem verið er að setja núna upp í 40%, af hverju hafi ekki verið farið í 50%. Ástæðan er sú að þetta er eitthvað sem samið var um í kjarasamningum 2015 að yrði 25% og færi síðan upp í 40% og var ítrekað aftur núna að menn vildu hafa þetta svona. Ég kann ekki nákvæma skýringu á því af hverju menn voru með þetta í 40% en ekki 45% eða 50%. Þetta var bara niðurstaðan af samtali og samningum við aðila vinnumarkaðarins, bæði 2015 og svo aftur núna í aðdraganda þessara kjarasamninga.

Þegar kemur að ákvæðinu sem fjallað er um hér, um að þau svæði þar sem séu góðar almenningssamgöngur sé litið á sem svo að hafi forgang, skulum við segja, þá er það líka eitt af því sem rætt var í tengslum við lífskjarasamninga og var vilji til að sett væri þar inn. Ríkisstjórnin skuldbatt sig til þess að þau svæði yrðu í forgangi þar sem væru öflugar almenningssamgöngur, sérstaklega gagnvart almenna íbúðakerfinu. Ég held að hugsunin á bak við þetta hafi verið sú að þeir einstaklingar sem leigja húsnæði í almenna íbúðakerfinu geti frekar haft val um það hvort þeir vilji hafa einkabíl eða nýti sér almenningssamgöngur þannig að húsnæðið sé ekki byggt fjarri almenningssamgöngum. Það var tillaga sem kom inn í lífskjarasamninginn að horft yrði til þess. Jafnframt var talað um að hluti af þeim tillögum sem tengjast lífskjarasamningunum lytu einmitt að almenningssamgöngum almennt sem ekki tengjast því máli sem við erum að leggja fram hér. Eins og ég segi, þetta er eitthvað sem kom þar inn, þessi forgangur, til að tryggja að þeir einstaklingar sem myndu leigja innan almenna íbúðakerfisins hefðu val um annaðhvort einkabíl eða almenningssamgöngur.