150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[17:50]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Ég held að þarna gæti ákveðins misskilnings, eða ég lít svo á, varðandi það hvort eignirnar verða dýrari sem verða nálægt almenningssamgöngum. Ég tel að svo verði ekki vegna þess að í almenna íbúðakerfinu sem byggir á því að sveitarfélög geti lagt til lóðir og ríkið leggur fram stofnframlög eru ótrúlega ströng mörk á byggingarkostnaði, leigumörkum og upphæðamörkum. Það er ekki markaðurinn einn og sér sem ræður för. Það er raunkostnaðurinn við bygginguna, byggingarkostnaðurinn og annað slíkt þannig að það á að vera hægt og á að vera tryggt að það hafi ekki þau áhrif á verð líkt og ef við værum bara á almennum markaði að setja þetta ákvæði.

Varðandi prósentuna sem verið er að hækka úr 25% upp í 40% þá er verið að tala um 40% af launum fullvinnandi einstaklings og í rauninni nást um 70% landsmanna þarna undir, ef maður reiknar það upp. Það eru alla vega útreikningarnir sem menn hafa lagt fram, að við séum að ná 70% þarna inn, sem þýðir að það má velta því fyrir sér hvort við séum frekar að hækka þetta of mikið, það séu að verða of margir sem þarna falli undir. En ég hvet nefndina til þess að skoða þetta sérstaklega, nefnd sem hv. þingmaður á sæti í.