150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[17:54]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar athugasemdir, þær eru réttmætar. Þegar verið er að tala um 40% af launum fullvinnandi einstaklings, ég upplýsi það hér, geta um 70% þjóðarinnar fallið þar undir. Samið var um þetta í kjarasamningum á sínum tíma og aftur núna og sú krafa ítrekuð að þetta yrði hækkað upp í 40%. Þess vegna ítreka ég það ákvæði sem er í lögunum og varðar það að félögum sem starfa undir þessu almenna íbúðakerfi er frjálst að setja þrengri mörk. En þetta er það sem samið var um í kjarasamningum og má kannski segja að horft sé til þess sem tíðkast í Danmörku þar sem ekki er miðað við þessi mörk til að tryggja félagslega blöndun innan almenna íbúðakerfisins. Það gefur tækifæri til að gera það sem gerist ekki ef þessi mörk væru lægri, eða ekki með sama hætti skulum við segja.

Þessi umræða er algerlega réttmæt en um þetta var samið sérstaklega í kjarasamningum 2015 og ítrekað núna að þetta þyrfti að vera inni með þessum hætti. Þess vegna er gert ráð fyrir því að hækka það upp í 40% en sjálfsagt er það eitthvað sem væri skynsamlegt hjá nefndinni að skoða og ræða við aðila vinnumarkaðarins og aðra þá aðila sem kunna að hafa skoðun á þessu.