150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[17:55]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Mér þætti vænt um að hæstv. ráðherra svaraði fyrri fyrirspurninni: Hvað má búast við að byggja þurfi margar íbúðir í þessu kerfi? Það hlýtur að liggja fyrir eitthvert mat á þörf á þessu úrræði. Það er grundvallaratriði því að þetta er félagslegt úrræði á húsnæðismarkaði. Þegar félagslegt úrræði er farið að ná svona hátt upp tekjustigann er verið að draga verulega úr forgangsröðun í átt að þeim sem virkilega þurfa á þessu úrræði að halda.

Þá hnýt ég um annað í greinargerð með frumvarpinu, þ.e. að það felur í sér útvíkkun hvað fleira varðar — stækkar ekki bara verulega þann tekjuhóp sem þarna gæti verið undir heldur er líka viðbótarúrræði fyrir landsbyggð og þá ákveðin uppbót fyrir þau verkefni sem fóru af stað á árunum 2016 og 2017 — en samt er ekki gert ráð fyrir að þetta muni kosta neitt meira fjármagn en þegar hefur verið varið til þess. Það hlýtur þar af leiðandi að veikja verulega forgangsröðun á þeim félagslega vinkli sem er á þessu máli, þ.e. að einfaldlega er verið að smyrja þessu úrræði út mun þynnra en áður var stefnt að.