150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[17:57]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að leiðrétta eitt sem ég tel að sé ákveðinn misskilningur. Við erum með félagslegt íbúðakerfi. Hugsunin er að almenna íbúðakerfið sé aðeins fyrir ofan það, að þetta sé almennt íbúðakerfi. Þessi prósentumörk eru þarna vegna þess að þetta er hugsað sem almennar íbúðir, annars hefði þetta verið kallað löggjöf um félagslegar íbúðir. Þetta er löggjöf um almennar íbúðir. (Gripið fram í.) Já, en það kemur til baka eftir ákveðinn tíma, þetta er kerfi sem við þurfum að byggja upp til einhverra áratuga. Við þurfum að hafa þolinmæði til þess og þá fer þetta að verða, skulum við segja, sjálfbært. Þannig var hugsunin á bak við þessa lagasetningu á sínum tíma og ég geld varhuga við því sem haldið er fram hér að þetta sé einungis félagslegt úrræði vegna þess að þetta er líka hugsað fyrir þá sem eru með lægstu tekjurnar á vinnumarkaði.

Varðandi uppbót fyrir árin 2016 og 2017 er gert ráð fyrir að bæta í það eins og ég rakti í framsöguræðu minni. Við getum ekki hafa ætlað að fara af stað með þetta kerfi varðandi landsbyggðina. Þegar farið var af stað voru skrifuð sérstök ákvæði sem lutu að landsbyggðinni. Það hefur einfaldlega ekki nýst landsbyggðinni vegna þess að þar hefur verið ákveðinn brestur. Þess vegna eru menn að gera breytingar núna. Við vorum að skuldbinda okkur, ríkisstjórnin, með fyrirvara um samþykki fjárlaga hvert ár, til að setja í þetta 3,5–4 milljarða á hverju einasta ári á kjarasamningsárum. Ætlum við virkilega að fara inn í þennan kjarasamning eins og þann síðasta og skilja landsbyggðina algjörlega eftir í þessari uppbyggingu? Nei, við ætlum ekki að gera það og þess vegna gerum við breytingar hvað þetta snertir. Ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig til þess (Forseti hringir.) að byggja 600 íbúðir á ári yfir kjarasamningstímann innan almenna íbúðakerfisins. Það skiptist. Það breytir því ekki að við ætlum að halda áfram að fjölga íbúðum innan kerfisins og ég vísa öllu á bug um að verið sé að smyrja hér þunnu lagi.(Forseti hringir.) Það er einfaldlega verið að gera góðar breytingar (Forseti hringir.) á góðu kerfi sem Eygló Harðardóttir, þáverandi húsnæðismálaráðherra, setti á fót árið 2015.