150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[18:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru kostulegar lýsingar á stöðu opinberra fjármála sem hv. þingmaður kemur með á þessum tímapunkti. Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er nýfarin af landinu og skilaboðin voru einföld frá henni: Það eru hárrétt hagstjórnarviðbrögð sem eru að birtast í aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Í síðustu viku gaf Moody's út nýja einkunn fyrir Ísland sem lántakanda, lánshæfiseinkunnin var hækkuð. Samt koma hv. þingmenn, eins og sá sem á hér í hlut, ítrekað upp og segja algera óstjórn í opinberum fjármálum. Þetta er alrangt. Við erum að gera rétta hluti. Við erum að bregðast rétt við. Við sköpuðum svigrúmið með því að skila góðum afgangi á undanförnum árum.

Ég kann ekki svar við spurningunni sem hv. þingmaður kom með um það hver verður endanleg niðurstaða fyrir uppgjör sveitarfélaganna þannig að við áttum okkur á því hvernig árið kemur út. En við verðum að hafa ávallt í huga hver tilgangurinn er með þessu öllu saman. Við þurfum að stilla opinber fjármál þannig að þau rími við stöðuna í efnahagsmálum og það erum við að gera núna.