150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[18:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvaða hugmyndir hv. þingmaður hefði haft um viðbrögð við þeirri stöðu sem hann heldur að mögulega hafi myndast. Þar er ég að vísa til heildarafkomunnar. Það er alrangt að hér hafi ríkisstjórnin stillt öllum sköttum í botn vegna þess að hann er langur listinn yfir skattalækkanir sem við höfum beitt okkur fyrir. Það er auðvitað hægt að byrja einhvers staðar annars staðar en í beinum sköttum og fara bara í gjöld eins og vörugjöldin og tolla og benda hv. þingmanni á að þetta hefur verið afnumið í fyrsta skipti í sögunni. Nýkynntar breytingar á tekjuskattinum komu í kjölfarið á fyrri lækkunum tekjuskatts. Tryggingagjaldið er að lækka, heldur áfram að lækka á næsta ári og hefur lækkað verulega sem nemur líklega rétt í kringum 20 milljörðum á ári. Við getum haldið svona áfram. Að því leytinu til er hv. þingmaður auðvitað á miklum villigötum.

Aðalatriðið er að það gengur vel á Íslandi í dag. Það er hátt atvinnustig, það er lág verðbólga. Vextir húsnæðislána hafa aldrei verið lægri. (Forseti hringir.) Við erum við verðbólguviðmið. Við erum reyndar, eins og nýlega var bent á í The Economist, eina þróaða ríkið í heiminum sem er á verðbólgumarkmiði í augnablikinu.