150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[18:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að segja annað en að dómurinn hafi verið áfellisdómur yfir vinnubrögðum. Ég get tekið undir það. Ég held hins vegar að sú hugsun hafi verið undirliggjandi að það hafi ekki mátt gera ráð fyrir því að bætur yrðu óskertar yfir það tímabil sem um var að ræða. En það breytir því ekki að rétt er rétt og að því leytinu til er dómurinn áfellisdómur yfir ákveðnum vinnubrögðum. Það eru vonbrigði. En ég verð líka að segja að það eru gríðarlega mikil vonbrigði að Alþingi skyldi ekki hafa getað, fyrst við erum að senda út um 5 milljarða til þeirra sem þarna eiga í hlut, tekið sjálfstæða ákvörðun um það með hvaða hætti menn vildu ráðstafa þessum 5 milljörðum. Þá spyr ég hv. þingmann: Ef hv. þingmaður hefði haft þessa 5 milljarða til ráðstöfunar, hefði hann ráðstafað þeim með þeim hætti sem dómurinn leiðir til?