150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[18:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svarið. En lög eru lög, dómur er dómur. Við getum ekki breytt því eftir á. En það sem við eigum að gera er að læra af þessu. Við eigum að læra af þessu að á sínum tíma hefðum við átt að stoppa og hugsa: Bíddu, erum við að gera rétt? Það voru mistök gerð og við verðum bara að sætta okkur við það. Við getum ekki horft í baksýnisspegilinn. Og það voru líka gerð önnur mistök, það eru tvenn mistök í sömu fjáraukalögunum, og það er búsetuskerðingin. Þar kemur umboðsmaður Alþingis og slær líka á puttana á þinginu. Ég spyr mig bara: Eigum við ekki að fara að skoða þetta betur, passa upp á það að laga umhverfið? Ég get ekki ímyndað mér það vanti lögfræðinga hérna til að hafa hlutina rétta. Þess vegna eigum við að passa upp á það. Það skiptir engu máli hvernig við viljum ráðstafa peningunum eða hvernig ekki, við eigum bara að fara að lögum og reglum.