150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[18:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að löggjafarviljinn hafa verið alveg skýr í þessu tiltekna máli en hins vegar eiga sér stað mistök við lagasetningu. Afleiðingin er sú að þessi dómur fellur á endanum og það eru greiddar út háar fjárhæðir, um 5 milljarðar. Það sem ég var að vekja athygli á er að ef Alþingi hefði haft til ráðstöfunar þessa 5 milljarða held ég að það sé útilokað að þeim hefði verið ráðstafað með þeim hætti sem dómurinn leiðir til. Mér finnst það miður. Það er eiginlega það versta við þetta mál í mínum huga að svona gríðarlegar fjárhæðir fari úr sjóðum almennings með þeim hætti til fólks sem ekki einn einasti þingmaður hér inni hefði lagt til og ekki nokkur einasti stuðningur hefði verið við í þjóðfélaginu ef menn hefðu áttað sig á því hvernig útgreiðslurnar yrðu. Við höfum almennt verið sammála um það í þessu samfélagi, hefði ég talið, og í þessum þingsal að reyna að ráðstafa fjármunum til þeirra sem eru í mestri þörf. Það er ekki niðurstaðan í þessu máli.