150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[18:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Ég ætla að koma aðeins inn á greiðslur vegna fæðingarorlofs, hækkun upp á 1,1 milljarð. Þar sem hámarksgreiðslur hafa hækkað frá fyrra ári og um fjölgun foreldra er að ræða, eins og hæstv. ráðherra rakti, væri náttúrlega fróðlegt að fá fram hversu stór hluti þessarar hækkunar stafar af hækkun hámarksgreiðslna og hver stór vegna fjölgunar foreldra. Þar sem hámarksgreiðslurnar eru ákvarðaðar af stjórnvöldum er ekki hægt að segja að það séu beint ófyrirséð útgjöld og þess vegna ætti þessi liður ekki að vera greiddur af varasjóði. Fjölgun foreldra er hins vegar eðlilegt frávik í vandaðri áætlanagerð, ef svo má segja, og það er hlutverk varasjóðs að taka á óvæntum atvikum eða bregðast við slíkum með öðrum hætti en að beita fjáraukalögum. Þannig að ég vildi kannski fá skýringar frá hæstv. ráðherra. Í venjulegu fráviki í rekstri má eiginlega segja að það að hækka greiðslur sé ákvörðun og hún á kannski ekki heima í fjáraukanum. Ef hæstv. ráðherra myndi skýra það nánar.