150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[18:57]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga. Í andsvörum áðan fóru hlutirnir svolítið á hvolf, þegar ég var að spyrja hæstv. fjármálaráðherra sneri hann dæminu við og spurði mig. Ég var eiginlega kominn í andsvör í andsvörum mínum við ráðherra sem er stórfurðulegt en samt mjög flott og nú ætla ég að svara.

Hæstv. ráðherra spurði hvort mér þætti eðlilegt að hópur ríkra einstaklinga fengi 5,4 milljarða leiðréttingu eftir dóm Landsréttar. Ég vil svara því til að þó að einungis einn einstaklingur á lægstu launum hefði fengið leiðréttinguna væri það flott. Það er bara ekki svoleiðis. Stærsti hluti þeirra sem fengu þessa leiðréttingu er konur. Þær fá lægsta lífeyrinn og fá mestu skerðingarnar á lífeyrinn. Ég veit að þær eru stærsti hópurinn sem fékk þessa leiðréttingu. Ég veit það, ég er búinn að fá pósta og hef fengið að sjá það.

Langstærsti hlutinn er fólk með tiltölulega lágan lífeyri. Þeir sem eru með háan lífeyri eru því miður í minni hluta. Þess vegna fagna ég því í sjálfu sér að þeir einstaklingar hafi fengið leiðréttinguna vegna þess að um töluverða peninga var að ræða fyrir einstaklinga sem hafa mjög lítið sér til framfærslu og það munar rosalega miklu fyrir þá einstaklinga að fá 80.000–90.000 kr. og jafnvel 150.000 kr. borgaðar út.

Ég ítreka að það er mjög leiðinlegt og eiginlega sorglegt að þingið skuli ekki hafa farið að lögum á sínum tíma. Menn geta sagt sér sjálfir að lög eru ekki sett afturvirk. Það held ég að sé mjög einfalt og eigi alveg að standa.

Ég fagna því líka að á fjáraukalögum eru 800 milljónir út af búsetuskerðingunum. Þar áttu 320 manns í hlut og það er fátækasta fólkið af öllum. Það er ömurlegt að vita til þess að einhverjir einstaklingar þurfi að lifa á 70.000–80.000 kr. á mánuði, bara vegna þess að kerfið reiknar það þannig út, en umboðsmaður benti á að ekki væri rétt farið með.

Það er fleira í þessu sem hægt er að fagna, t.d. stóraukningu í sjúkraþjálfun, 660 milljónum., sem sýnir hversu mikil þörf er fyrir sjúkraþjálfun. Við verðum að átta okkur á því að þegar fjárveitingavaldið breytti möguleikum fólks til að komast til sjúkraþjálfara komust mjög margir einstaklingar sem áður höfðu ekki haft efni á að fara í sjúkraþjálfun. Það er ömurlegt að vera með þannig kerfi að ákveðnir einstaklingar geti ekki farið í sjúkraþjálfun vegna þess að þeir hafi ekki efni á því. Ég fagna því að þarna sé aukið í vegna þess að ég held að það eigi eftir að skila ríkissjóði hagnaði seinna meir. Ég er nefnilega alveg sannfærður um að heft aðgengi að sjúkraþjálfun birtist á móti sem aukning örorku.

Það sem ég sakna eru auknar fjárheimildir til sjúkrahúsþjónustu. Setja hefði mátt töluvert til sjúkrahúsa en þarna eru líka undir 410 milljónir fyrir erlenda sjúkrahúsþjónustu. Mér er eiginlega spurn hvort inni í því séu tölur vegna liðskiptaaðgerða og annarra aðgerða sem hægt hefði verið að gera á Íslandi, og jafnvel gera þrjár fyrir eina. Ekki kemur fram í þessum tölum hvernig þessari skiptingu er háttað en þarna eru einhver útgjöld sem greinilega var ekki reiknað með.

Að öðru leyti held ég að meira hefði þurft að vera í frumvarpinu fyrir öryrkja. Þarna er leiðrétting á búsetuskerðingunum en reyndar líka breytingar á sérstöku uppbótinni. Í þann málaflokk er sett aukning upp á 2,5 milljarða. Það furðulegasta við það fyrirbrigði sem þar var borgað út er að þar virðist vera einhver kerfisvilla í gangi, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Það virðist vera hægt að borga öryrkjum sérstaka uppbót og leiðréttingu, fara úr krónu á móti krónu í 65 aura á móti krónu, en það virðist ekki skila sér í vasa öryrkja heldur rennur það í gegnum vasa þeirra sveitarfélaga þar sem húsaleigubætur eru skertar með því að borga upphæðina út sem eingreiðslu. Það er alveg óskiljanlegt fyrirbrigði og þarna þarf greinilega að taka til.

Að öðru leyti ætla ég ekki að segja öllu meira um frumvarpið en mun taka þetta fyrir í umræðum um fjárlögin sjálf. Við eigum að passa okkur og fagna dómi Landsréttar vegna þess að þarna gerði löggjafarþingið mistök. Okkur ber að fara eftir lögum og þó að einhverjir hafi það gott í lífeyrissjóðakerfinu, það er ekki tiltakanlega stór hópur, er hinn hópurinn miklu stærri sem hefur það skítt og hafði svo sannarlega þörf fyrir að fá þessa peninga.