150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

rekstraraðilar sérhæfðra sjóða.

341. mál
[19:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í kafla 2.2. í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að þeir sjóðir sem munu teljast til sérhæfðra sjóða leiki mjög stórt hlutverk á íslenskum fjármálamarkaði og samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu hafi eignir 114 fagfjárfestasjóða verið um 393 milljarðar íslenskra króna í árslok 2018 og heildareignir 60 fjárfestingarsjóða, sem teljast munu einnig til sérhæfðra sjóða, um 326 milljarðar kr. Þetta eru því samtals um 719 milljarðar kr. og lýsir umfanginu. Hvernig þetta skiptist nákvæmlega eftir þeim línum eða þeim mörkum sem hv. þingmaður vék að, sem var þá bara tilkynningarskylt eða skráð, kann ég ekki betur að gera grein fyrir en gert hefur verið í frumvarpinu. Það sem ég átti við í fyrra svari mínu var að hér geta auðvitað bæði verið sjóðir sem eru innlendir og myndu falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins og, eins og þekkt er, erlendir sjóðir sem eftir atvikum eru þá háðir eftirlitsvaldi annars staðar og eru markaðssettir á Íslandi. Hvernig sú innbyrðis skipting er nákvæmlega þekki ekki á þessari stundu.