150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

361. mál
[19:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ástæða til að taka undir þær áhyggjur sem birtast í orðum hv. þingmanns um að ný deild fæðist hjá eftirlitsaðilum með hverri nýrri tilskipun. Staðreyndin er hins vegar sú að við erum að ganga í gegnum tímabil núna þar sem við erum hreinlega að endurskrifa alla umgjörð fjármálamarkaðanna. Það er rétt að til verða ný fyrirbæri eins og skilavaldið en þegar við skoðum þá grunnhugsun sem býr að baki þessu nýja fyrirkomulagi er, eins og ég vék að í máli mínu, nærtækt að rifja upp þá hugsun sem fylgdi neyðarlögunum á sínum tíma og þeim aðgerðum sem Fjármálaeftirlitið greip til í því samhengi. Það er ekki bara nærtækt heldur mjög ánægjulegt að sjá að sú grunnhugsun sem þar kom fram hafi í millitíðinni orðið stór hluti af evrópska regluverkinu um þær aðgerðir sem grípa þarf til þegar fyrirtæki geta ekki lengur staðið í skilum á fjármálamarkaði.

Í frumvarpinu er farið í nokkuð löngu máli yfir alla umgjörð sem á við um þessar aðstæður, þar með talið hvernig skilavaldið starfar. Við erum aðeins komin inn á það sem snertir innstæður og það er afskaplega mikilvægt að átta sig á því hversu marga varnarveggi er í raun búið að byggja (Forseti hringir.) fyrir fjármálahrun sem getur orðið, borið saman við það sem gilt hefur til þessa.