150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

361. mál
[19:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fjallað er um skilaáætlun og skilabærni í III. kafla frumvarpsins þar sem m.a. kemur fram að skilavaldið geri slíka áætlun fyrir fyrirtæki þar sem tilgreind atriði þurfa að koma fram. Slík skilaáætlun er yfirfarin reglulega og uppfærð ef tilefni er til. Síðan er nokkuð ítarleg lýsing á því hvaða ferli fer af stað ef rekstrarerfiðleikar koma upp. Þeir kalla á samstarf og samtal við Fjármálaeftirlitið og líka stjórnir viðkomandi fjármálafyrirtækja sem þurfa í þeim tilvikum að sýna fram á að tiltekin skilyrði séu uppfyllt. Ég hef rakið það hér að það væri í algjörum undantekningartilvikum sem ríkið stigi inn en grunnhugsunin með þessum varnarveggjum, eins og ég nefndi áðan, er sú að hægt sé að koma fyrirtæki áfram í starfsemi án þess að erfiðleikarnir leiði til gjaldþrots eins og við þekkjum það.

Inn eru komin fjölmörg ný hugtök sem setja t.d. nauðasamninga alveg í nýtt samhengi. Hefðbundna leiðin fyrir fyrirtæki sem lenda í vandræðum en menn telja að hægt sé að bjarga væri að fara í einhvers konar nauðasamninga. Fyrir fjármálafyrirtækin, lánastofnanir og verðbréfafyrirtækin, er hins vegar verið að smíða algjörlega nýjan heim af aðgerðum og aðilum sem koma að eftirliti og framkvæmd þeirra þátta sem þarf að líta til. (Forseti hringir.) Ég leyfi mér að segja að að þessu leyti til megi upp að vissu marki líkja þessu við það sem gerist í nauðasamningum.