150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í reglum um fundi fastanefnda kemur fram að minni hlutinn á að jafnaði að hafa eigi skemmri frest en tvo daga til að skila nefndaráliti. Ég minnist á þetta því enn og aftur gerist það í afgreiðslu fjárlaga eða fjármálaáætlunar að fjárlaganefnd afgreiðir meirihlutaálit sitt og svo einungis degi seinna er hafin umræða. Það barst mér til eyrna að eitthvert samkomulag hefði verið gert um að þetta væri í lagi. Það er hins vegar ekki satt, ég mótmælti því alltaf og krafðist þess alltaf að fá þessa tvo daga, a.m.k. þessa tvo daga, til að klára nefndarálit. Ég hef gert þetta áður og held áfram að gera þetta því að í einu stærsta máli sem Alþingi tekur fyrir eigum við að sýna minni hlutanum þá kurteisi að nota a.m.k. lágmarkstímann sem er gefinn upp í reglum fastanefnda um meðferð mála. Það er sífellt verið að snuða minni hlutann um sinn tíma til að fara yfir umsagnir og nefndarálit meiri hlutans. Það er sífellt verið að troða málinu fyrr inn á fund þingsins en reglur segja til um. Þannig að sá orðrómur sem mér barst um að samkomulag hefði verið gert, og þess vegna væri þetta verið leyft, er ekki réttur. Ég hvet forseta til að kanna hvaðan sá orðrómur kom.