150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að vera á sömu nótum og tveir aðrir þingmenn og ræða um Sjúkratryggingar Íslands. Það virðist vera ófriður í kringum þá stofnun þessa dagana og í rúmt ár hefur ekki verið gengið frá samningum við hjúkrunarheimilin sem er afar vond staða. Rekstur heimilanna er í járnum og mörg sveitarfélög greiða verulegar upphæðir með rekstrinum. Mér er kunnugt um fámenna hreppi sem eiga inni upp undir 70 milljónir hjá dvalarheimilunum. Þá hefur stofnunin ákveðið að taka út smæðarálagið sem hefur valdið mörgum minni heimilum miklum erfiðleikum í rekstrinum. Þetta er það naumt að það getur skilið á milli feigs og ófeigs í rekstrinum að smæðarálagið sé greitt eins og var. Við höfum ekki fengið neina skýringu á því hvað hafi orðið um þá peninga sem þar spöruðust, ef hægt er að tala um það í þessu tilfelli.

Ég tek líka undir það sem hér hefur komið fram og hef áhyggjur af því að ekki séu kláraðir samningar við sjúkraþjálfara og sérfræðilækna sem og hjúkrunarheimilin. Það er líka mjög leiðinlegt og vont fyrir okkur að sjá það í blöðunum í morgun að Sjúkratryggingar Íslands hafi kært sjúkraþjálfara til Samkeppnisstofnunar. Mér finnst að þegar mál eru komin á þennan stað sé það ekki sæmandi verklagi okkar að við séum komin þangað. Við höfum haft nógan tíma til að gera þessa samninga og ég hvet Sjúkratryggingar Íslands eindregið til að setjast við samningaborðið með samtökum um rekstur hjúkrunarheimila og sveitarfélögunum, sérfræðilæknum og sjúkraþjálfurum og klára þá samninga sem fyrst.