150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Störf okkar í Norðurlandaráði eru mörg og mikilvæg og ég ætla að kynna hér það sem við í flokkahópi hægri manna vorum m.a. að gera á nýafstöðnu Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi. Lýðræði er okkur öllum mikilvægt og hefur okkur orðið tíðrætt um það á þessu þingi sem og á Norðurlandaráðsþinginu. Lýðræði er best tryggt með því að hvert ríki sinni grundvallarskyldum sínum með því að halda uppi lögum og reglum og tryggja þannig öryggi borgaranna. Trú á réttarríkið er mikilvæg lýðræðinu og hefur sú trú verið ríkjandi meðal norrænna borgara. Þó eru teikn á lofti um að þessi trú fari dvínandi og auknar áhyggjur séu af glæpum.

Við í flokkahópi hægri manna á Norðurlandaráðsþinginu lögðum því til í þessu ljósi tvær tillögur. Annars vegar lögðum við til að Norðurlandaráð beindi þeim tilmælum til ríkisstjórna Norðurlanda að norrænu löndin tækju upp samræmda stefnu með tilliti til áhættuþátta tengdum dreifingaraðilum 5G búnaðar, að norrænu löndin samhæfðu aðgerðir og afstöðu sína í alþjóðlegum samningum vegna öryggissjónarmiða tengdum útfærslu 5G netsins, að norrænu löndin leituðust við að halda hvert öðru upplýstu um þróun 5G mála innan ESB og NATO og að norrænu löndin sköpuðu forsendur til að meta ásamt öðru öryggisatriði við innkaup eða útboð á viðkvæmum innviðum. Hins vegar lögðum við fram þingmannatillögu um aukið öryggi með New York-líkaninu, að Norðurlöndin skoði hvaða lærdóm megi draga af New York-líkaninu og hvernig nýta megi þann lærdóm í norrænu löndunum. Aðferðin sem notuð var er byggð á því að sé rúða brotin án þess að verða löguð líði ekki á löngu þar til önnur verði brotin. Ég vona að tillögurnar fái góðar undirtektir innan Norðurlandaráðs og að íslensk stjórnvöld sýni þessum tillögum áhuga.