150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Greta Thunberg skaut föstum skotum að Norðurlöndunum um leið og hún afþakkaði umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs á dögunum. Hún sagði að lítið lægi á bak við orðagjálfur Norðurlanda í umhverfismálum. Það skorti hins vegar ekkert á að Norðurlöndin gortuðu yfir því sem þau þó gerðu, það skorti ekki falleg orð. Þetta er einmitt tilfinningin sem ég fæ þegar íslenskir ráðamenn tala um aðgerðir sínar. Aldrei hefur nokkur ríkisstjórn lagt eins mikið til loftslagsmála, segja þau, eins og það séu fréttir til að hrópa húrra fyrir. Það væru hins vegar fréttir ef ríkisstjórnin hefði ekki lagt meira en aðrar ríkisstjórnir til þessara mála. Losun gróðurhúsalofttegunda hefur vaxið hér á landi en ekki minnkað eins og til stóð. Staðreyndirnar tala sínu máli og sýna að loftslagsmálin snúast ekki um val á lífsstíl heldur um lífið sjálft. Allir verða að vera með og þess vegna þurfa stjórnvöld að vinna samhliða að mannréttindum og auknum jöfnuði. Fólk sem nær ekki endum saman um mánaðamót þolir ekki frekari álögur.

Við stjórnmálamenn getum gert málamiðlanir okkar á milli en við getum ekki gert málamiðlun við loftslagið eins og við vorum rækilega minnt á á þingi Norðurlandaráðs. Hamfarahlýnun er staðreynd og veldur æ meiri skaða. Stjórnmálamenn verða að vera óhræddir við að leiða óumflýjanlegar samfélagsbreytingar. Almenningur er tilbúinn til að gera ýmislegt og leggja ýmislegt á sig fyrir komandi kynslóðir, það hafa kannanir sýnt. En stjórnvöld þurfa að vísa veginn með raunhæfum aðgerðum þar sem almenningur hefur krefjandi, árangursríkt en viðráðanlegt hlutverk. Sama á við um fyrirtæki og stofnanir. Við stjórnmálamenn eigum að leggja áherslu á að byggja upp samkennd og sátt um óumflýjanlegar breytingar og breytingar á neysluvenjum okkar.