150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að nota þetta tækifæri til að ræða mál sem ég hef svo sem rætt áður í ræðustól, um réttindi en ekki síst skyldur foreldra til að sinna börnum sínum eftir skilnað. Ég hygg að löggjafinn og þeir sem skipað hafa þennan sal hér á undan okkur hafi lagt sig alla fram við að gera löggjöfina þannig úr garði að börn hafi réttindi til að vera hjá báðum foreldrum sínum og foreldrarnir eigi að geta sinnt börnum sínum þrátt fyrir að hafa skilið. En því miður hefur tölvan svolítið sagt nei þegar kemur að þessum efnum í ljósi þess að Þjóðskrá Íslands, sem heldur utan um hagi fólks hér á landi, er enn með í gangi eldgamla aðferð sem nefnist fjölskyldunúmer og var í raun aldrei hugsuð til að sinna því hlutverki að miðla upplýsingum um hver fari með forræði fyrir börnunum. Þannig hefur það komið fram, í svari frá hæstv. heilbrigðisráðherra til mín við fyrirspurn, að í raun hafi Sjúkratryggingar Íslands brotið persónuverndarlög þegar stofnunin sendir upplýsingar um heilsufar barna inn á heimili en þær eru ekki skráðar á barnið sem ekki er orðið 18 ára, ekki skráðar á foreldrið sem fer með forræðið yfir barninu heldur stjúpforeldri, elstu kennitöluna á heimilinu.

Það er náttúrlega með ólíkindum að árið 2019 séum við enn að glíma við einhver svona kerfislæg vandamál. Góðu fréttirnar eru þær að fyrir þinginu liggur frumvarp, mál nr. 101, um skráningu einstaklinga, sem á að hluta til að taka á þessu máli og heimila loksins Þjóðskrá að afla upplýsinga og dreifa upplýsingum um vensl þannig að þær upplýsingar liggi fyrir hver fari með forræði barnanna og viðkomandi stofnanir og fyrirtæki geti þá fengið þær.

Ég vil nota þessar síðustu sekúndur til að hvetja banka, tryggingafélög og allar þær stofnanir sem þurfa að senda út svona upplýsingar að aðlaga kerfi sitt að því að þeir geti (Forseti hringir.) miðlað áfram þessum upplýsingum því að núverandi ástand er algerlega óþolandi.