150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Við erum að hefja 2. umr. fjárlaga. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar. Frumvarpinu var vísað til nefndarinnar að lokinni 1. umr. 16. september sl. Nefndin byrjaði að venju umfjöllun sína á því að senda málið til umsagnar og hélt síðan fund með fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem farið var yfir greinar frumvarpsins. Svo fylgdu fundir með öðrum ráðuneytum þar sem farið var yfir áformuð ríkisútgjöld málefnasviða og málaflokka tilheyrandi ráðherra hvar ábyrgðin liggur.

Þá tók við yfirferð umsagna og móttaka umsagnaraðila og voru fjölmargar umsagnir mjög gagnlegar að þessu sinni, vandaðar og ítarlegar, og samtalið sem nefndin á við umsagnaraðila er mikilvægur liður í því ferli öllu. Það er auðvitað mismunandi eftir eðli umsagna hvernig nálgunin er, allt frá efnahagsmyndinni og mismunandi sýn og áherslur, ekkert síður en umfjöllun um tiltekin útgjöld og forgangsröðun útgjalda. Þeir aðilar sem komu á fund nefndarinnar eru taldir upp í nefndaráliti meiri hlutans.

Forsendur frumvarpsins byggja á maíhagspá Hagstofunnar en frá 1. umr. hefur komið fram ný hagspá, þann 1. nóvember sl., og fengum við í hv. fjárlaganefnd fulltrúa Hagstofunnar á fund nefndarinnar til að fara yfir helstu breytingar frá fyrri hagspá, þeirri hagspá sem liggur til grundvallar frumvarpinu. Um þennan hluta ferlisins vil ég segja, virðulegi forseti, að það er í mínum huga afar mikilvægt fyrir nefndina að fá vandaðar umsagnir og eiga þetta samtal við mismunandi aðila um leið og við sjáum að frávik frá fjármálaáætlun í upphaflegu frumvarpi eru lítil, enda beinlínis gert ráð fyrir því í lögunum að fjárlagafrumvarp hvíli á áætluninni sem unnin er að vori. Smám saman, eftir því sem við höldum lengra með ferlið sem lögin mæla fyrir um og áætlanir verða fastmótaðri, verður umfang fjárlagafrumvarps og breytinga á milli umræðna umfangsminna, helst viðbrögð við nauðsynlegum breytingum og hagspá.

Þessi birtingarmynd er smám saman að teiknast upp með hverjum fjárlögum og eðlilegt að spyrja sig út í þá vegferð og alla þá vinnu sem nefndin leggur á sig, hvort hún sé þess virði og sé raunverulega að skila sér fyrir þá aðila sem fjárlögin snúa að, sem er auðvitað fólkið í landinu. Ég vil segja já, hún er okkur afar nauðsynleg og mikilvæg þrátt fyrir allt. Þetta er samhangandi stefnumótunarferli og rökin sem fylgja umsögnum og samtali skila sér áfram, ef ekki í hreinum breytingartillögum þá til þingsins og áfram til ráðherra og hefur áhrif á stefnumótandi ákvarðanir til framtíðar.

Ég held hins vegar, virðulegi forseti, að við ættum öll að huga að því hvernig við getum gert ferlið skilvirkara fyrir þingið. Ég nefni aukið svigrúm til að taka annan hring með ráðuneytum eftir að umsagnarferli lýkur. Nefndin reynir auðvitað að fylgja eftir samtali með því að kalla eftir frekari gögnum og upplýsingum í formi minnisblaða og slík vinna myndi jafnvel nýtast enn betur. Nefndin hefur í meira mæli nú kallað eftir viðbótargögnum og upplýsingum en oftast áður og hef ég það frá riturum nefndarinnar. Ein hugmynd til að skapa þetta rými væri t.d. að færa hagspá framar í tíma, til að mynda apríl, október fremur en maí, nóvember eins og nú er eða jafnvel, þar sem þetta eru jú áformaðar heimildir inn á næsta ár og byggja á spám sem sveiflast, að miða við eina spá. Ég velti því upp til umræðu.

Að venju bárust hinar ýmsu beiðnir um fjárframlög, fjárbeiðnir. Hefur nefndin í auknum mæli til samræmis við lög um opinber fjármál vísað þeim til viðeigandi ráðherra um leið og þær eru skráðar. Mælist nefndin til að ráðherrar viðkomandi málaflokka fari yfir þessar beiðnir, meti þær út frá stefnumörkun í hverjum málaflokki og geri eftir atvikum samning eða leggi málefninu lið og er mikilvægt að ráðherra taki í auknum mæli upp það verklag í samræmi við lögin.

Nokkur verkefni eru tilgreind í breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur til um tímabundið framlag og ráðherrar ættu að taka inn í sína ramma með samningi eða þar sem það er viðbót við eða þarf að endurskoða fyrirliggjandi samninga. Eins og gert er ráð fyrir í lögum um opinber fjármál er tölugrunnur fjármálaáætlunar sundurliðaður með nákvæmari hætti og málefnasvið brotin niður á ráðuneyti og málaflokka í frumvarpinu. Í kafla 5.3 í greinargerð frumvarpsins koma fram útgjaldabreytingar frá fjármálaáætlun. Eins og ég gat hér um er um minni háttar frávik að ræða frá áætlun til fjárlagafrumvarps og má segja að þar raungerist sú festa og langtímahugsun í ríkisfjármálum sem ætluð var með lögunum.

Það vill brenna við, virðulegi forseti, við 2. umr. fjárlaga og með áherslunni á breytingar eðli máls samkvæmt, að meginmarkmið og áherslumál hæstv. ríkisstjórnar sem birtast í frumvarpinu — ég ætla ekki að segja að þau gleymist en það má halda þeim til haga fyrir samhengi hlutanna. Þær breytingartillögur sem við erum að ræða í raun og veru eru um 1% af heildarumfangi fjárlaganna og þær rekur meiri hlutinn í nefndaráliti sem ég vísa til, en nefni hér skattalækkanir og breytingar á tekjuskattskerfi í samræmi við lífskjarasamninginn til að tryggja jafnan ávinning allra tekjuhópa af framleiðniaukningu og auka sérstaklega ráðstöfunartekjur tekjulægri hópa.

Tryggingagjaldið er lækkað um 0,25 prósentustig á næsta ári sem er seinni hluti 0,5 prósentustiga heildarlækkunar á tveimur árum. Fæðingarorlof lengist og við sjáum þegar jákvæð viðbrögð og eru framlög nú einnig aukin á milli umræðna til að bregðast við því. Barnabætur eru auknar og stofnframlög til íbúðabygginga eru hækkuð. Þá er myndarleg aukning til fjárfestinga eins og fram kemur í fjármálaáætluninni og er brýnt að ekki myndist langtímafjárfestingarhalli sem gengur gegn markmiðum um sjálfbærni opinberra fjármála. Veigamestu verkefnin eru bygging nýs Landspítala sem reyndar eru nú lækkuð um 3,5 milljarða vegna tímatafar eða hliðrunar á milli fjárlagaára, kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, áframhaldandi uppbygging hjúkrunarheimila, smíði nýs hafrannsóknarskips og bygging Húss íslenskunnar.

Við þær kringumstæður sem við búum við í hagkerfinu er afar mikilvægt að setja aukinn kraft í opinbera fjárfestingu og í frumvarpinu er gert ráð fyrir fjárfestingu upp á liðlega 72 milljarða kr. sem er tvöföldun frá árinu 2017.

Frumvarpið er lagt fram í samræmi við lög nr. 123/2015, um opinber fjármál. Í 16. gr. þeirra laga er tilgreint hvernig tölugrunnur frumvarpsins er byggður upp og settur fram. Í 14. gr. kemur fram að það skuli vera í samræmi við markmið fjármálaáætlunar. Við endurskoðun fjármálastefnu í vor var dregið úr fyrri áformum um afgang af heildarafkomu hins opinbera í samræmi við breyttar efnahagshorfur. Meðal áhersluatriða var að stuðla að því að aðhaldsstig opinberra fjármála yki ekki á samdrátt eða hjöðnun hagvaxtar umfram þá aðlögun sem hagkerfið gengur í gegnum. Til þess að auka sveigjanleika var gert ráð fyrir sérstöku óvissusvigrúmi sem nemur 0,8% af vergri landsframleiðslu og nær til áranna 2019–2022. Það reyndist afar jákvætt skref, enda hefur komið í ljós að nauðsynlegt er að nýta það í ljósi nýrrar hagspár sem Hagstofan gaf út 1. nóvember sl.

Maður veltir því auðvitað fyrir sér hversu nákvæmlega í raun við tökum mið af spám milli afgreiðslu ríkisfjármálaáætlunar og fjárlagafrumvarps og svo á milli umræðna eins og raunin er. Lykilatriðið er að við höfum sniðið ríkisfjármálastefnuna þannig að sveigjanleikinn er í stefnunni, líkt og fjármálaráð hefur ítrekað kallað eftir í umsögnum sínum. Við sjáum að þess vegna halda áætlanir betur eins og við sjáum í mjög litlum frávikum frá fjármálaáætluninni yfir í fjárlagafrumvarp. Afkomumarkmiðin eru þannig til þess fallin að fá sjálfvirka sveiflujöfnun fram í ríkisfjármálum, gjöldum og tekjum. Afkomumarkmiðin vinna þannig á móti sveiflunni, hjaðnandi hagvexti eins og kemur fram í spánni, þ.e. frá fyrri spá um 2,6% hagvöxt í 1,7% hagvöxt, og leitar þannig jafnvægis. Þá hefur breytt verðbólguspá um 2,6% frá 3,2% í forsendum frumvarpsins áhrif til endurmats tekna og gjalda nú.

Meginmarkmið ríkisfjármála koma fram í ríkisfjármálaáætlun en í fjárlagafrumvarpinu er fyrst og fremst verið að útfæra ramma áætlunarinnar til eins árs í senn. Þannig ýta afkomumarkmiðin með innbyggðu óvissusvigrúmi undir heildareftirspurnina og vinna þannig í átt að jafnvægi, auknum stöðugleika og þau auka líkur á að sjálfbærni opinberra fjármála verði viðhaldið til lengri tíma litið.

Það er einnig athyglisvert og jafnframt mikilvægt að ríkisfjármálaáætlun og peningastefna vinna í takt. Hægt er að finna ummæli og skýrslur til staðfestingar á því og telur meiri hlutinn mikilvægt að draga það fram vegna þess að þetta hefur ekki verið raunin til margra ára, þau skilaboð að peningastefna og fjármálastefna vinni í átt að sömu markmiðum. Ef við vísum í nóvemberhefti Peningamála Seðlabanka Íslands er þar að finna þjóðhagsspá sem er áþekk spá Hagstofunnar og m.a. umfjöllun um markmið fjárlagafrumvarps og aðgerðir í ríkisfjármálum og slíkt samspil þar á milli. Fram kemur að aðgerðir í ríkisfjármálum auka ráðstöfunartekjur heimila og örva eftirspurn með lækkun skatta og auknum tilfærslum sem nema samtals 90 milljörðum kr. á árinu 2020–2022 eða um 2,7% af vergri landsframleiðslu. Þessi slaki á aðhaldsstigi í ríkisfjármálum mun auka ráðstöfunartekjur og almenn eftirspurn mun aukast. Seðlabankinn ætlar að þetta muni skila 0,5% framlagi til hagvaxtar og um 2% í einkaneyslu á árunum 2020–2022. Seðlabankinn metur það svo að samkvæmt endurskoðuðum afkomutölum Hagstofunnar á síðasta ári hafi slaknað á aðhaldsstigi ríkisfjármála eins og það er mælt með hagsveifluleiðréttum frumjöfnuði ríkissjóðs meira en fyrra mat gaf til kynna. Það sé til þess fallið að styðja betur við þjóðarbúskapinn á samdráttarskeiði. Eins og við þekkjum hafa á sama tíma meginvextir Seðlabankans lækkað töluvert undanfarna mánuði og eru nú 3% og hafa því lækkað um 1,5 prósentustig frá því í maímánuði og hafa ekki verið lægri frá árinu 1995.

Að öllu því sögðu, virðulegur forseti, hafa breyttar forsendur hagvaxtar og verðlagsáhrif til endurmats tekna og gjalda auk þess sem nýrri upplýsingar um innheimtu skatta liggja fyrir og þróun útgjalda minnt okkur á að fjárlagafrumvarpið er í raun þar til lögfest — eins og í bókhaldi almennt, því er lokað og gert upp — lifandi plagg og við færumst nær því sem gerist dag frá degi. Það má segja að við horfum til þess hér við uppfærslu og endurmat og með þeim breytingartillögum sem við leggjum til á tekju- og gjaldahlið.

Áætluð heildaráhrif breytinga á frumjöfnuð eru 10.456,4 millj. kr. og frumtekjur lækka um 9.673 millj. kr. og gjöldin aukast um 783,4 millj. kr. Vaxtajöfnuðurinn batnar með lægri verðbólgu og lægri vöxtum þar sem gjöldin lækka meira en tekjurnar. Heildaráhrifin eru 378,3 millj. kr. Af ríflega 1.000 milljarða umfangi fjárlaga er þetta 1%, virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan má setja þá spurningu fram hvað og hvort það segi okkur eitthvað og er fróðlegt að skoða í samhengi tímans. Í öllu falli má setja fram þá tilgátu að þarna speglist sá agi og festa sem lagt var upp með með verklagi og fjárlagaferli í ramma laga um opinber fjármál.

Við verðum áfram með myndarlegan afgang á frumjöfnuði eða tæplega 38 milljarða, sem er afar mikilvægt, og verkefnið er að vinna á vaxtabyrði ríkissjóðs. Það stingur eilítið að hafa náð með skynsamlegri fjárstjórn að vinna niður skuldir ríkissjóðs og náð þar verulegum og markverðum árangri á tiltölulega skömmum tíma, en vaxtabyrðin sé jafn há í samhengi hlutanna. Skuldahlutfallið stefnir í að fara, að frádregnum innstæðum, á næsta ári í 22% af vergri landsframleiðslu og er komið langt undir skuldaviðmið laganna. Það merkilega er að með svo sterkan frumjöfnuð getum við og áætlum, þrátt fyrir að gefa eftir afkomuna, að greiða áfram niður skuldir á næsta ári um 72 milljarða kr. Það er mikilvægt að halda því til að haga að frumjöfnuðurinn er sterkur áfram og jákvæður og hefur verið það um langa hríð, alveg frá 2012.

Af áætlaðri tekjulækkun af minnkandi umsvifum vegur þyngst að skattar á tekjur og hagnað lækka um 7,3 milljarða kr. Mest munar um lækkun á tekjuskatti fyrirtækja vegna minni hagnaðar. Áætlað er að skattar á vöru og þjónustu lækki samtals um 5,1 milljarð kr. Þrátt fyrir það er gert ráð fyrir að virðisaukaskattur skili 1,3 milljörðum kr. meira en áður var áætlað, m.a. sökum þess að neysla Íslendinga erlendis dregst saman en neysla erlendra ferðamanna hérlendis dregst ekki saman og það er merkilegt. Áætlun flestra annarra veltuskatta lækkar.

Fallið er frá áformum um 2,5 milljarða kr. skattlagningu á ferðaþjónustu auk þess sem ekki er gert ráð fyrir tekjum af urðunarskatti um sinn á meðan unnið er að útfærslu innheimtunnar. Áætluð innheimta af skattlagningu á bifreiðar hefur verið endurmetin og leiðir það til 900 millj. kr. lækkunar.

Launastofn næsta árs verður 2,5% lægri vegna minni atvinnu og lægra launastigs og því er gerð tillaga um að tryggingagjöld lækki samtals um 2,6 milljarða kr. Aðrar tekjur lækka um 4 milljarða kr. og vegur þar þyngst 2,1 milljarðs kr. lækkun veiðigjalda á grundvelli vísbendinga um væntanlegan útreikning veiðigjalds á næsta fiskveiðiári. Álagning veiðigjalda miðast við rekstrarafkomu útgerðarfyrirtækja árið 2018 og þá var afkoman ekki góð í sögulegu samhengi, hagnaður sá lægsti síðan árið 2010. Það skýrist að hluta til af því að auknar fjárfestingar í sjávarútvegi leiddu til hærri afskrifta árið 2018. Þess má geta að ef veiðigjaldakerfið hefði byggst á eldri lögum hefði heildarinnheimta gjaldsins ekki numið hærri fjárhæð en 2 milljörðum kr. Með gildandi lögum um veiðigjöld er nú áætlað að innheimtan skili 5 milljörðum kr. á næsta ári.

Lægra vaxtastig leiðir til 900 millj. kr. lægri vaxtatekna auk þess sem hagnaður ÁTVR var ofmetinn um 1 milljarð kr. í frumvarpinu.

Á móti þessum lækkunum vegur 4,8 milljarða kr. hækkun vegna sölu á losunarheimildum í eigu ríkisins, en að hluta til færist sala þeirra frá árinu í ár til næsta árs. Loks er tekjufærð 4,2 milljarða kr. endurgreiðsla frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Endurgreiðslan er tekjufærð þar sem um er að ræða framlög fyrri ára sem reyndust of há mörg ár í röð.

Frumgjöldin aukast um 783 milljarða en heildargjöldin lækka samtals um 542 milljarða kr. þar sem vaxtagjöld lækka um 1.325 millj. kr. Til lækkunar vegur mest endurmat á framkvæmdaáætlun fyrir nýjan Landspítala en framkvæmdir hafa gengið hægar en forsendur frumvarpsins gerðu ráð fyrir og því er gerð tillaga um 3.500 millj. kr. lækkun af þeim sökum. Næstmest vegur endurreikningur á launa-, gengis- og verðlagsliðum fjárlaga, einkum vegna lægri verðbólguspár.

Til hækkunar munar mest um 1.878 millj. kr. útgreiðslu úr Ábyrgðasjóði launa og því næst 1.300 millj. kr. sem skýrist af vanáætluðum útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs, bæði vegna fyrirhugaðrar lengingar orlofs en ekki síður vegna þess að fleiri foreldrar nýta sér réttindi í sjóðnum, sem verður að teljast, virðulegi forseti, afar jákvætt þar sem við erum þá að ná markmiðum með þessum breytingum. Til að styrkja rekstrargrunn sjúkrahúsa er bætt við 600 millj. kr. og mun ráðherra ráðstafa því fé með tilliti til rekstraráætlana sjúkrahúsa. Er því ætlað að bæta mönnun sjúkrahúsa en sérstaklega hefur skort á fulla mönnun hjúkrunarfræðinga á Landspítala og lækna á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Þá eru settar 300 milljónir til þróunarsamvinnu eins og naglfest var í nefndaráliti meiri hlutans við vinnu ríkisfjármálaáætlunar til þess að ná markmiðum um þróunarsamvinnu.

Að sögðum þessum tillögum um breytingar á tekju- og gjaldahlið verður frumjöfnuður áfram sterkur með myndarlegan afgang upp á tæpa 38 milljarða en hann hefur verið jákvæður frá árinu 2012. Heildarafkoman verður neikvæð um 9.710,7 millj. kr. en það rúmast innan þess óvissusvigrúms sem fjármálastefnan leyfir. Hallinn nemur samkvæmt því um 0,3% af vergri landsframleiðslu en óvissusvigrúmið hljóðaði upp á hámark 0,8% af vergri landsframleiðslu. Ég vil segja, virðulegi forseti, að ríkisfjármálastefnan er þannig beinlínis hönnuð til að veita viðspyrnu í hagkerfinu.

Nefndin hefur til glöggvunar á útgjaldaþróun tekið saman gögn um þá þróun allt frá árinu 2011 og má nýta þau gögn m.a. til að sjá í hvað peningarnir fara og hvernig vægi einstakra málefnasviða er að þróast í tíma. Þetta er mikilvægt, met ég, og mat mitt að fjárlaganefnd þurfi að vinna jöfnum höndum með slíkar upplýsingar og meta útgjöld ríkissjóðs og þróun þeirra með tilliti til grunngilda laganna, ekki síst sjálfbærni. Ef litið er til kjörtímabilsins frá 2017 hafa útgjöld ríkissjóðs hækkað um 158 milljarða kr. sem er 18,9% að raungildi.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu breytingum tekna og gjalda sem verða á milli umræðna út frá hagþróun og breytingum á hagspá og hinu efnahagslegu mikilvægi og samhengi ríkisfjármálanna og verklags og ferli fjárlagavinnunnar. Ég ætla ekki að fjalla nánar um einstök málefnasvið en vísa til nefndarálits meiri hlutans og veit að kollegar mínir í meiri hlutanum munu fara nánar yfir það í ræðum og minni hlutinn örugglega líka í framsögu sinni og svo í umræðunni síðar í dag og andsvörum og vonandi verður sú umræða lífleg og gagnleg.

Ég vil þó draga það fram að meiri hlutinn ákvað eftir gagnlegan fund nefndarinnar með fulltrúum Öryrkjabandalagsins að bregðast við nokkrum þáttum í umsögn þeirra og af samtali á þeim fundi. Meiri hlutinn leggur til 15 millj. kr. viðbótarframlag til Fjölmenntar, símenntunar- og þekkingarmiðstöðvar. Þá gerir meiri hlutinn tillögu um að falla frá 12,2 millj. kr. aðhaldskröfu sem gerð er í frumvarpinu á lið 27.30 um málefni fatlaðs fólks og fyrirhuguð lækkun til réttindagæslu þannig dregin til baka.

Í umsögn Öryrkjabandalagsins er komið inn á desemberuppbót og samkvæmt reglugerð fá örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar greidda desemberuppbót sem nemur 30% af fjárhæð tekjutryggingar og heimilisuppbótar hvers lífeyrisþega. Meiri hlutinn áformar að leggja til breytingar við gerð fjáraukalaga ársins 2019, þar sem greiðslan fellur til á þessu ári, að þeim örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem fá greidda desemberuppbót og eiga rétt á slíkri greiðslu verði einnig greidd sérstök viðbótargreiðsla, eingreiðsla, sem teljist ekki til tekna við útreikning bóta samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, húsnæðisbóta eða sérstaks húsnæðisstuðnings sveitarfélaga.

Hér þarf auðvitað að meta hvort sú greiðsla sem lögð er til rúmist innan varasjóðs. Meiri hlutinn gerir ráð fyrir að hagur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega verði bættur með aukinni áherslu á starfsendurhæfingu og innleiðingu nýs greiðslukerfis fyrir fólk með skerta starfsgetu. Slíkar breytingar munu krefjast aukins fjármagns og það er mikilvægt að þær verði vel undirbúnar og innleiddar í góðu samráði við hagsmunasamtök öryrkja. Meiri hlutinn leggur áherslu á horft verði til sviðsmynda sem birtast í þeirri vinnu sem þverpólitískur starfshópur skilaði og ráðherra hefur til umfjöllunar og samráðs og í framhaldinu af þessu innleggi hér, skulum við segja, skili sú vinna árangri.

Um aðrar tillögur meiri hlutans og umfjöllun um einstök málefnasvið vísa ég til nefndarálits og umræðunnar, sem ég vona og veit að verður uppbyggileg og gagnleg.

Ég vil hins vegar í lokin koma að villu í texta sem ég óska eftir að verði leiðrétt. Efst á bls. 12 segir um Lánasjóð íslenskra námsmanna, virðulegi forseti:

„Það hefur þó engin áhrif á útlán sjóðsins heldur er eingöngu gengið á handbært fé sem nemur rúmum 100 milljörðum kr.“

Hér er ef betur er að gáð um að ræða eigið fé en ekki handbært fé. Handbært fé sjóðsins nemur núna rúmum 13 milljörðum kr. Rétt setning er þá: Það hefur þó engin áhrif á útlán sjóðsins heldur er eingöngu gengið á eigið fé sem nemur rúmum 100 milljörðum.

Ég kom í ræðu nokkuð inn á mikilvægi samspils peningamálastefnu og fjármálastefnu, sem er staðfest m.a. í Peningamálum Seðlabankans sem ég vísaði í, og hvernig ríkisfjármálastefnan, eins og hún er hönnuð nú, er til þess fallin að veita viðspyrnu og við fáum sveigjuna í stefnuna þannig að áætlunin haldi betur. Það er hægt að finna þessa staðfestingu víðar, m.a. í áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir heimsókn til Íslands. Það sem er kannski athyglisverðast er að sjá að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að hagstjórnarviðbrögð stjórnvalda í kjölfar falls WOW air og fleiri efnahagsáfalla fyrr á árinu voru í senn rétt og hröð. Þar er vísað til slökunar í aðhaldi ríkisfjármálanna til skamms og millilangs tíma ásamt lækkun stýrivaxta. Hóflegar launahækkanir í kjarasamningum hafi einnig stuðlað að því að atvinnuleysi sé minna en það hefði ella orðið. Jöfnuður á íslenskum vinnumarkaði sé með þeim mesta í þróuðum hagkerfum. Styrkar stoðir íslensks efnahagslífs og trúverðugleiki hagstjórnaraðila hafi orðið til þess að milda niðursveifluna og hagkerfið sé þess vegna í stakk búið til að taka við sér á ný.

Svipaða sögu má lesa út úr hækkun lánshæfismats Moody's þar sem vísað er í lækkun skulda og styrka umgjörð opinberra fjármála. Það eru tvær meginástæðurnar fyrir þeirri hækkun. Þetta nefni ég til viðbótar og staðfestingar á því, sem er ánægjulegt, að peningamálastefnan og ríkisfjármálastefnan vinna í takt.

Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem skipa hv. fjárlaganefnd og öflugum riturum nefndarinnar fyrir góða vinnu við frumvarpið. Að venju geri ég ráð fyrir að frumvarpið gangi til nefndarinnar fyrir 3. umr., en meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér liggja fyrir og skýrðar hafa verið og jafnframt gerð tillaga um á sérstökum þingskjölum.

Undir álitið rita eftirtaldir hv. þingmenn: Willum Þór Þórsson, Haraldur Benediktsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Páll Magnússon og Steinunn Þóra Árnadóttir.