150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Forseti. Samkvæmt frumvarpi sjávarútvegsráðherra á veiðileyfagjald annars vegar að mæta þeim kostnaði sem hið opinbera verður fyrir vegna sjávarútvegs og hins vegar á það að tryggja þjóðinni beina og sýnilega hlutdeild í afkomu veiðanna. Nú kemur í ljós að tekjur af veiðileyfagjaldi verða lægri en sá kostnaður og hlutdeild þjóðarinnar orðin að engu í gegnum veiðileyfagjaldið. Laxveiðimenn munu greiða meira fyrir sín veiðileyfi á næsta ári en stórútgerðarmenn. Mér finnst það vera skrýtin pólitík hjá stjórnarþingmönnum að fela sig á bak við reglur sem þeir sjálfir breyttu og við ásamt fleiri sögðum á sínum tíma að myndu þýða lækkun veiðileyfagjalds.

Það er sláandi staðreynd að upphæð veiðileyfagjalds hefur lækkað um meira en helming síðan þessi ríkisstjórn tók við og það er hin pólitíska spurning sem við stöndum frammi fyrir, hversu hátt á veiðileyfagjald að vera, hversu hátt er sanngjarnt að það sé, miðað við afkomu í greininni sem hefur verið þokkalega góð, líka á árinu 2018.

Mig langar því að spyrja, herra forseti: (Forseti hringir.) Af hverju stendur hv. þingmaður að fjárlagafrumvarpi sem gerir ekki ráð fyrir neinni beinni hlutdeild þjóðarinnar í afkomu (Forseti hringir.) veiðanna í gegnum veiðileyfagjöld og dugar ekki einu sinni fyrir kostnaði sem skattgreiðendur verða fyrir?