150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa spurningu. Það er ágætt að hv. þingmaður komi inn á veiðigjöldin sem hann hefur verið duglegur við að segja þjóðinni að séu að lækka svo og svo mikið. Hv. þingmaður talar mikið um kostnað og hann verður að útskýra betur fyrir mér um hvað hann er að tala þegar hann talar um kostnað þjóðarinnar af þessu. Við erum að fá 5 milljarða áætlaða í ríkissjóð í tekjur af veiðigjöldum, það er þannig sem þetta er. Og eins og ég kom inn á í ræðu minni, ef eldri lög hefðu gilt þar sem við vorum fjær í tíma, sem er til bóta, hefði ekki verið tekið jafn mikið tillit til afkomu eða fjárfestingar sem til framtíðar litið er algjört lykilatriði fyrir afkomu fyrirtækja um allt land og atvinnusköpun og ég gæti lengi talið. Ég átta mig því ekki að öðru leyti á því hvað hv. þingmaður er að fara í þessari umræðu.