150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:46]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek hjartanlega undir gagnrýni hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar á veiðigjöldum, því að það er eitthvað galið við það að arðurinn sé síðan nýttur í fjárfestingar í staðinn fyrir að klára það sem auðlindagjald. Þetta er afnotagjaldið af auðlindinni, en útgerðin segir: Nei, ég ætla ekki að greiða til landsmanna. Ég ætla að nota hluta af því í fjárfestingar og þar af leiðandi borga minna. Þetta er fáránlegt.

Að öðru: Hv. formaður fjárlaganefndar kom inn á tímasetningu þjóðhagsspár. Þá langar mig til að spyrja formanninn um tímasetningu fjármálaáætlunar. Hún verður væntanlega tiltölulega óheppileg vorið 2021, rétt fyrir kosningar, kemur í apríl og þingið er að fara að kveðja mjög skömmu fyrir kosningar. Það verður sama og enginn tími til að afgreiða fjármálaáætlun. Ég spyr hvort það sé ekki rétt að færa fjármálaáætlun einmitt framar á árið, jafnvel bara strax í febrúar. Og svo annað, (Forseti hringir.) einföld spurning: Erum við að fara eftir lögum um opinber fjármál?