150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni, formanni fjárlaganefndar, fyrir ágæta framsögu. Ég vil koma aðeins inn á málefni Landspítalans við hv. þingmann. Landspítalinn er mikilvægasta og stærsta heilbrigðisstofnun landsins. Það hafa skapast miklar umræður um fjárhagsvanda spítalans undanfarið og sá vandi er margþættur. Yfirstjórn spítalans hefur kynnt fjárlaganefnd aðhaldsaðgerðir vegna halla á rekstri og ein af þeim aðgerðum er að falla frá sérstökum kjörum fyrir hjúkrunarfræðinga vegna langvarandi mönnunarvanda á spítalanum. Nú stendur til að leggja það kerfi af sem er áhyggjuefni. Það mun þýða að yfirvinna mun aukast og verður það mjög fljótt að stórum tölum. Mikill skortur er á hjúkrunarfræðingum á Landspítalanum og margar deildir eru undirmannaðar og loka þarf deildum vegna vanmönnunar. Hjúkrunarfræðingar hafa verið í kjaraviðræðum við ríkisvaldið í rúma sjö mánuði. Það er alveg ljóst að stjórnvöld verða að eiga raunsætt samtal við Landspítalann um lausnir.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann um því að nú er þetta bráðasjúkrahús (Forseti hringir.) og það lokar ekki þótt fjárveitingar séu búnar: Sér hv. þingmaður fyrir sér að það verði meiri sveigjanleiki (Forseti hringir.) í fjárveitingum til Landspítalans í framtíðinni?