150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég sé hér svikin loforð. Í fyrsta lagi eru það framhaldsskólarnir, ef ég fer bara í lið fyrir lið. Framhaldsskólunum var gefið loforð um innspýtingu en fá lækkun milli ára. Því var lofað að háskólarnir myndu árið 2020, á næsta ári, ná fjármögnun á pari við önnur Norðurlönd. Meiru hefur verið lofað í velferðarmálin og sérstaklega af hálfu flokks hv. þingmanns, Sjálfstæðisflokksins. Í aðdraganda síðustu kosninga voru kosningaloforð Sjálfstæðismanna upp á 100 milljarða kr. hingað og þangað. Á sama tíma sjáum við, og það þarf ekki endilega að vitna í mín orð, að Landspítalinn stefnir í halla og kallar eftir meiri peningum. Öryrkjabandalagið segir að allir málaflokkar séu fjársveltir á ykkar vakt. Ekki er verið að setja það í loftslagsmálin sem þið segið á blaðamannafundum. Nýsköpunarmálin, alla vega vissir sjóðir undir þeim flokki, fá lækkun. Þannig mætti lengi telja. Uppistaðan í ræðu minni var að draga fram þá þætti sem betur mættu fara en að því sögðu veit ég að þarna er ýmislegt sem þið getið verið ánægð með. En betur má ef duga skal.