150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:09]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var eitt loforð sem ég gleymdi áðan og það er afnám krónu á móti krónu skerðingar, bara svo að því sé haldið til haga. Ekki er verið að uppfylla það loforð, það er ekki verið að afnema þá skerðingu þrátt fyrir ítrekuð loforð. Varðandi tekjur af erlendum ferðamönnum: Ég veit alveg að ferðaþjónustan er að kljást við vanda núna og kannski er þetta alls ekki rétti tíminn til að auka skattheimtu á þá þjónustu, alls ekki. Við þurfum að velja tímasetninguna mjög vel. Við þurfum sömuleiðis, ef við ætlum að stíga það skref, að gefa greininni nauðsynlegan aðlögunartíma. Þetta er grein þar sem bókað er langt fram í tímann og annað slíkt. Ég minni á að í fjárlagafrumvarpinu eins og það leit út fyrir tveimur mánuðum var það hugmynd hv. þingmanns að auka tekjur af erlendum ferðamönnum um 2,5 milljarða. Það frumvarp fór í gegnum þingflokk hv. þingmanns fyrir einungis tveimur mánuðum. Ég veit að sú tillaga hefur verið dregin til baka, ég átta mig alveg á því. En ég held að til lengri tíma litið þurfi að finna skynsamlega og réttláta leið til að auka tekjur af erlendum ferðamönnum. Við erum orðin ferðamannaþjóð, við lifum á ferðaþjónustu og við sjáum að samkvæmt þessu frumvarpi ykkar koma fram ýmsar hugmyndir um að hugsanlega sé tímabært að auka þessar tekjur með einum eða öðrum hætti.