150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:14]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hagstjórninni vera ábótavant þegar forsendur hennar standast ekki frá ári til árs. Mér finnst hagstjórninni vera ábótavant þegar viljandi er verið að skilja ákveðna hópa fólks eftir. Mér finnst hagstjórninni vera ábótavant þegar beinlínis er gert ráð fyrir kjararýrnun á opinberum vinnumarkaði. Mér finnst það vera hluti af hagstjórninni. Ég ætla ekki að draga það fram að hér sé allt kolómögulegt, að sjálfsögðu ekki, og kannski er eitthvað til í gagnrýninni sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og aðrir aðilar hafa sett fram, gott og vel. En það er ýmislegt sem betur mætti fara. Mér finnst hagstjórnin ekkert sérstaklega góð þegar gengi krónunnar lækkar um 10% á milli ára eða þegar atvinnuleysi rís á þann hátt sem það er að gera. Ég veit að margt er alls ekki á ykkar ábyrgð, eins og fall WOW og annað slíkt, en eins og ég sagði áðan er hagstjórnin ekki eitthvað sem þið ættuð að stæra ykkur sérstaklega af þótt hægt sé að benda á margt jákvætt. (Forseti hringir.) Það er ýmislegt sem við hv. þingmaður getum verið sammála um að betur megi fara í hagstjórninni og þá í víðum skilningi þess orðs.