150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:16]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eftir tæplega klukkutímaræðu þarf maður að sigta úr þegar maður fær mínútu til andsvars. Mig langar þó að byrja á að segja að ég er ósammála því að ekki sé verið að beita hagstjórninni rétt. Ég tel akkúrat að svo sé. Brugðist er við veruleikanum eins og hann birtist og ég tel að það sé gert á skynsamlegan hátt. En mig langar að spyrja hv. þingmann út í málefni örorkulífeyrisþega. Heildartekjur örorkulífeyrisþega hafa að meðaltali hækkað um 11% frá árinu 2017. Ég fellst á að ekki er hægt að skoða meðaltalsmyndir en mig langar að varpa einni spurningu til hv. þingmanns af því að hann talaði um sérstöku framfærsluuppbótina, gríðarlega mikilvægan bótaflokk sem Jóhanna Sigurðardóttir kom á í sinni tíð sem forsætisráðherra. Nú voru settir 2,9 milljarðar til að draga úr henni en þetta er nákvæmlega sá bótaliður sem hefur bætt kjör mest. Vill hv. þingmaður að fallið verði frá þeim mikilvæga bótaflokki sem tryggir kjör þeirra lægst settu?