150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég var á ráðstefnu í morgun sem Tryggingastofnun hélt og þar fór Sigríður Lillý Baldursdóttir ágætlega yfir þær breytingar sem hafa orðið á örorkulífeyriskerfinu undanfarin 20 ár. Þar sést alveg að sumir hópar eru miklu nær lágmarkslaunum í krónutölu, yfir 300.000 kr., en það er hins vegar staðreynd að hlutur örorkulífeyrisþega hefur setið eftir og það er nákvæmlega sá hópur sem sérstaka framfærsluuppbótin hefur skipt mestu máli fyrir. Það er þess vegna sem ég er að hugsa þetta þegar við forgangsröðum peningum inn í þennan málaflokk. Nú er búið að draga úr þessu vægi og ég vil halda því til haga að ég hef aldrei talað um að fara eigi með skerðingarhlutföll af þeim bótaflokki niður í 0. Ég tel að þannig eigi það alls ekki að vera í kerfinu heldur þurfum við að ná einhverju eðlilegu samhengi. (Forseti hringir.)

Aftur vil ég spyrja hv. þingmann: Þurfum við ekki að líta til þeirra sem hafa lægstu bæturnar (Forseti hringir.) en taka hins vegar mið af því að hópurinn er fjölbreyttur og sem betur fer eru sumir þar betur staddir en aðrir?