150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég tek undir að við þurfum að reyna að einblína á þann hóp sem er með lægstar tekjurnar. En ég minni á að 70% öryrkja eru með tekjur undir 300.000 kr. fyrir skatt. Lunginn af hópnum er því þarna í gólfinu. 70% eru með minna en 300.000 kr. og um helmingur öryrkja er með tekjur undir 270.000 kr. fyrir skatt. Þessar tölur hafa kannski aðeins hækkað þar sem þær voru frá því í fyrra, höfum þann fyrirvara á. Margir öryrkjar hafa það virkilega slæmt þegar litið er til kjaramála. Við sjáum líka að í frumvarpinu er einungis gert ráð fyrir 3,5% hækkun á grunnframfærslu öryrkja sem er lægra en hækkun launavísitölu. Við höfum líka bent á það. Af hverju skilur hv. þingmaður og flokkur hennar öryrkja og aldraða eftir þegar kemur að þeirri viðbót sem var sett í lífskjarasamningana? Af hverju fá öryrkjar og eldri borgarar ekki þá hækkun sem aðrir hópar fengu 1. apríl? Af hverju er verið að skilja þá hópa af öllum eftir? (Forseti hringir.) Það hefði verið rakið að setja þetta í fjáraukalögin en hv. þingmenn hafa ekki verið tilbúnir í það og það er gagnrýnisvert. En ég vona að við getum verið samferða (Forseti hringir.) um að bæta þetta kerfi talsvert frá því sem nú er.