150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég sá ekki fyrir fall WOW air eða loðnubrest, ég sagði það sérstaklega. Ég var ekki að ætlast til þess að hv. þingmenn hefðu séð það fyrir. Hins vegar getur hv. þingmaður vel lesið ræður mínar frá því í fyrra þar sem ég varaði einkum við því að forsendur fjárlaga væru of bjartsýnar. Óskhyggju kallaði ég það, þetta var óraunsætt. (Gripið fram í.) Það er skráð það sem ég sagði (Gripið fram í.) um að forsendur fjármálaáætlunar og fjárlaga væru of bjartsýnar. En ég skal líka segja hv. þingmanni að það var ekki aðeins ég sem benti á það, það gerðu aðrir stjórnarandstöðuþingmenn. Það gerðu líka Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð, Alþýðusamband Íslands, aðilar vinnumarkaðarins eins og hann lagði sig. Allir þeir aðilar bentu á að forsendur fjárlagafrumvarps 2019 væru óraunsæjar og það kom á daginn. Hv. þingmaður þarf ekki endilega að taka mark á mér en hann getur a.m.k. hlustað á sérfræðingana sem allir sögðu það sama: Þegar kemur að hagstjórn og áætlunargerð fær ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins undir forystu Katrínar Jakobsdóttur algjöra falleinkunn. (Gripið fram í: Aldrei verið betra.)