150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:26]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp því að mig langar að benda hv. þingheimi á það að þetta er uppskrift að tveimur alveg hrikalega leiðinlegum dögum fram undan. Það að við skulum hafa það þannig í þingsköpum að það sé tvöfaldur ræðutími þegar við ræðum fjárlagafrumvarpið og að flutningsmenn nefndarálita geti haldið klukkutímalangar ræður held ég að sé nokkuð sem enginn í þessum sal hefur áhuga á, hvað þá þarna úti, með fullri virðingu fyrir hv. þingmönnum sem sitja í fjárlaganefnd. Ég veit að þið hafið lagt mikla vinnu í þessi ágætu nefndarálit en þau liggja fyrir á prenti og ég verð að segja að mér finnst miður að ekki hafi náðst samkomulag um það að hafa þessa umræðu aðeins snarpari og skemmtilegri og ég efast (Gripið fram í.) ekki um að fleiri sætu í salnum og tækju jafnvel þátt í umræðunni. Nú held ég að 16 manns séu á mælendaskrá og það er óvíst hvenær einhverjir komast að sem vilja skrá sig fyrir utan það. Mig langar að beina því til hv. þingmanna að við höldum kannski örlítið styttri ræður, komum frekar fleiri upp, förum í andsvör og höfum svolítið knappara og skemmtilegra form.