150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þann ræðutíma sem ég hef hér, eina klukkustund, og reyni að nýta hann vel. Ég sá að hæstv. forseti horfði sérstaklega á mig þegar hann nefndi það að mönnum væri ekki skylt að tala í klukkutíma. Ég mun reyna að nýta þann tíma vel og get svo sem ekki sagt að það verði einhver skemmtiræða en ég reyni að vera málefnalegur og koma að þeim málefnum sem skipta máli í þessu mikilvæga fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Áætlanir í opinberum fjármálum hafa á síðustu árum byggst á óhóflega bjartsýnum forsendum um efnahagsþróun og treyst hefur verið á tímabundna aukningu tekna í uppsveiflu. Lítið hefur mátt út af bregða til þess að áætlanir brystu og tekjur dygðu ekki til að fjármagna nauðsynleg útgjöld. Efnahagsforsendur frumvarpsins eru reistar á spá Hagstofu Íslands frá október sl. en sú spá breyttist þó nokkuð frá því í júní. Í spánni kemur fram að meiri óvissa ríkir nú um efnahagshorfur hér á landi sem endurspeglast í áætlunum og spám um hagvöxt. Eftir langt hagvaxtarskeið gerir Hagstofa Íslands ráð fyrir nær engum hagvexti í ár en að hann taki við sér á ný á næsta ári og verði þá um 1,7%. Hagvaxtarspáin er 0,9% lægri en fyrri spá.

Vissulega vonar maður, herra forseti, að þetta gangi eftir en það eru miklir óvissuþættir í þessu, ekki síst alþjóðlegir óvissuþættir eins og þróun í viðskiptalöndum okkar, olíuverð og staða gjaldeyrisins, krónunnar o.s.frv., þannig að það er ekki víst að sú spá rætist. En að sjálfsögðu vonum við að svo verði og að hagvöxtur taki við sér á nýju ári.

Í bréfi fjármála- og efnahagsráðherra til fjárlaganefndar, dagsett 7. nóvember sl., kemur fram að tekjuáætlun frumvarpsins hafi verið uppfærð með hliðsjón af gögnum sem fallið hafa til síðan áætlunin var gerð í júní sl. Samkvæmt tillögu meiri hluta fjárlaganefndar verður ríkissjóður rekinn með um 11 milljarða kr. halla. Að sama skapi lækki tekjur ríkisins fyrir árið 2020 um 10,6 milljarða kr.

Gagnrýnivert er að ríkisstjórnin ætlar að fjármagna breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið vegna breytinga á hagspá, sem og breytingartillögur sem ríkisstjórnarflokkarnir gera við frumvarpið við 2 umr., með sölu losunarheimilda koltvísýrings að fjárhæð a.m.k. 4,8 milljarðar kr. Rétt er að benda á að á síðasta fjárhagsári voru seldar losunarheimildir fyrir u.þ.b. 2,5 milljarða kr. Það er margt sem bendir til þess að í framtíðinni þurfi stjórnvöld að kaupa þessa kvóta til baka á mun hærra verði þar sem ekki virðist líklegt að Ísland geti haldið sig innan losunarheimilda. Ríkisstjórnin þarf að rökstyðja að þessi ráðstöfun sé skynsamleg til framtíðar litið áður en fjárlög verða afgreidd eða að draga einfaldlega þessa tillögu til baka. Þetta snýr líka að þeirri miklu hækkun sem hefur orðið á kolefnisgjaldinu sem almenningur þarf að greiða og bitnar sérstaklega á landsbyggðinni. Ég mun fara nánar í það á eftir.

Auk þess er það gagnrýnivert að ríkisstjórnin ætli að ganga á eigið fé Lánasjóðs íslenskra námsmanna um sem nemur 4,2 milljörðum kr. til að mæta breytingum á tekjuhlið ríkissjóðs vegna breytinga á hagspá. Með öðrum orðum á Lánasjóður íslenskra námsmanna að borga upp hluta af halla ríkissjóðs. Það hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar. Jafnvel þótt staða sjóðsins sé góð er þessi ráðstöfun óskynsamleg nú þegar stjórnvöld áforma að gera breytingar á lánasjóðsfyrirkomulaginu. Fyrirhugaðar breytingar, þar sem 30% hluti láns verður í formi styrks, munu þýða aukna eftirspurn eftir lánum.

Í áðurnefndu bréfi ráðherra kemur auk þess fram að veiðigjöld komi til með að lækka um 2,1 milljarð kr. í frumvarpinu á grundvelli vísbendinga um væntanlegan útreikning veiðigjalda á næsta fiskveiðiári, að teknu tilliti til mikillar fjárfestingar útgerðarinnar. Að sjálfsögðu styðjum við í Miðflokknum fjárfestingar útgerðarinnar, þann mikilvæga þátt, og mörg þau afleiddu störf sem fylgja sjávarútvegi. Hins vegar má spyrja hvers vegna þetta mál sé svona seint fram komið og hvort vísbendingar um væntanlegan útreikning, eins og það er orðað, gefi til kynna að útreikningarnir séu ekki fullkomnir og ekki afstaðnir eða geti almennt talist fullnægjandi rökstuðningur í máli sem þessu.

Af hálfu Seðlabanka Íslands var í tengslum við vaxtaákvörðun í nóvember tekið fram að þróun efnahagsmála kunni að litast um of af bjartsýni, ekki síst vegna óvissu í alþjóðlegum efnahagsmálum eins og ég nefndi í upphafi. Mikilvægt er að stefnan í ríkisfjármálum um þessar mundir taki mið af raunsæislegum forsendum um framvindu efnahagsmála. Af hálfu OECD hefur verið bent á að opinberar fjárfestingar þyrftu að vera meiri hér á landi en raun ber vitni og að aðgerðir næstu missera miði fyrst og fremst að því að draga úr áhrifum niðursveiflu. Þegar hægir á í efnahagslífinu, eins og raunin hefur orðið, er brýnt að stjórnvöld grípi til viðeigandi aðgerða. Í því efni blasir við að rík nauðsyn er á að endurnýja og auka við fjárfestingar í innviðum. Mikil verkefni blasa við t.d. í samgöngumálum og heilbrigðismálum svo eitthvað sé nefnt.

Miðflokkurinn telur að fjalla ætti meira um stöðu og afkomu ríkissjóðs í frumvarpinu út frá því hvar við erum stödd í hagsveiflunni. Auk þess mætti fjalla nánar um framlag slakans í ríkisfjármálum til landsframleiðslu á næsta ári. Hver verða t.d. áhrif skattalækkana og fjárfestinga þegar kemur að landsframleiðslunni?

Þegar litið er yfir fjárlagafrumvarpið sést að ekki er gert ráð fyrir neinum afgangi á árinu 2020. Þvert á móti verður ríkissjóður rekinn með halla og endurspeglar sú staðreynd breytingar á efnahagshorfum á liðnum misserum. Það skiptir máli á óvissutímum sem þessum að skuldastaða ríkissjóðs er góð og er óhætt að hrósa ríkisstjórninni fyrir að hafa haldið áfram að greiða niður skuldir. Það er mikilvægt og reynist vel í niðursveiflu sem núna er fram undan. Áhersla stjórnvalda á niðurgreiðslu skulda síðustu ár mun reynast mikilvæg og góð ráðstöfun. Þessi staða gerir mönnum betur kleift að bregðast við óvissum horfum í efnahagsmálum.

Að sjálfsögðu skiptir miklu máli hver þróunin verður í útflutningstekjum þjóðarinnar. Undanfarin ár hefur þjóðin notið uppgangs í ferðaþjónustu, greinin hefur orðið burðarás í atvinnulífi landsmanna og mikilvæg uppspretta gjaldeyristekna. Áberandi er að framvinda í ferðaþjónustu er meðal helstu óvissuþátta fjárlagafrumvarpsins enda hafa horfur í ferðaþjónustu veruleg áhrif á efnahagsforsendur frumvarpsins. Það vekur því óneitanlega athygli að framlög til ferðaþjónustu í frumvarpinu lækka að raungildi um 292 millj. kr., þ.e. 12,8%, frá fjárlögum ársins 2019.

Samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands hefur verðbólga verið um eða yfir 3% frá því í vor en í október mældist hún 2,8%. Undirliggjandi verðbólga hefur hins vegar verið þrálátari. Að dómi bankans eru horfur á að verðbólga hjaðni hraðar en spáð var í ágúst og að hún verði komin í markmið undir lok þessa árs.

Áætlað er að ríkisfyrirtæki og sjóðir í B-hluta ásamt Landsvirkjun muni greiða 91,3 milljarða kr. í afborgunum af lánum á næsta ári. Þetta er 45,6 milljarða kr. aukning og um tvöföldun frá áætluðum afborgunum 2019. Sem fyrr er stærsta beina skuldbinding ríkissjóðs ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar vegna B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, LSR. B-deild LSR og Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga tryggja sjóðfélögum réttindi sem eru verðmætari en iðgjald það sem sjóðfélagar og vinnuveitendur greiða í sjóðinn á hverjum tíma. Mismunurinn á áunnum réttindum og eignum B-deildar LSR er tryggður með bakábyrgð ríkissjóðs og hjá LSR með bakábyrgð ríkissjóðs og annarra launagreiðenda. Bakábyrgðaraðilar munu þurfa að leggja þessum sjóðum til fjármagn á næstu áratugum eftir því sem lög um lífeyrissjóðina kveða á um til þess að tryggja að sjóðirnir geti staðið undir greiðslu lífeyris. Mikilvægt er grannt sé fylgst með þessu þannig að sýnt sé að framlög í sjóðinn dugi til að halda jafnvægi.

Miðflokkurinn leggur áherslu á að stjórnvöld beiti sér fyrir því að skapa forsendur fyrir öflugu atvinnulífi, hagsæld og almennri velmegun. Skattstefna ríkisstjórnarinnar á að fela í sér hvata til að fjölga starfsfólki og bæta kjör þess og skapa skilyrði fyrir nýsköpun og endurnýjun á tækjum og búnaði og fjárfestingum í atvinnulífinu. Í þessu sambandi leggur Miðflokkurinn þunga áherslu á að einfalda stjórnkerfið og létta bákninu af atvinnufyrirtækjum og heimilum landsmanna. Gera verður kröfu um eðlilega skilvirkni og hagræðingu í allri starfsemi hins opinbera.

Á bls. 3 í nefndarálitinu er að finna yfirlit yfir breytingartillögur Miðflokksins við frumvarpið. Tillögurnar eru fullfjármagnaðar og koma ekki til með að auka halla ríkissjóðs. Ég kem nánar inn á þessar tillögur hér á eftir en ég ætla að víkja næst að kafla sem í nefndarálitinu ber yfirskriftina Hagræðing í ríkisrekstri engin - bætt í ríkisbáknið og regluverk. Hagræðing í ríkisrekstri engin – bætt í ríkisbáknið og regluverk.

Herra forseti. Ráðdeild og skilvirkni á ávallt að ríkja við meðferð almannafjár. Fjárlagafrumvarpið ber þess merki að það er ekki ofarlega á verkefnalista ríkisstjórnarinnar að vinda ofan af ríkisbákninu. Þar fer fremstur í flokki Sjálfstæðisflokkurinn sem reglulega hefur hrópað hátt fyrir kosningar „báknið burt“. Þegar flokkurinn kemst síðan til valda heldur báknið áfram að vaxa. „Við þurfum að taka rækilega til í ríkisfjármálunum og minnka ríkisbáknið,“ sagði fjármálaráðherra árið 2010. Nú leggur ráðherra fram fjárlagafrumvarp þar sem enn er bætt í ríkisbáknið. Ríkisbáknið hefur þanist út í tíð þessarar ríkisstjórnar og engar tilraunir hafa verið gerðar til þess að draga úr ríkisumsvifum. Er það þvert á það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað fyrir hverjar kosningar. Hækkun á fjárveitingum til forsætisráðuneytisins frá árinu 2018 nemur 876 millj. kr. Hækkun til stjórnsýslu umhverfismála frá árinu 2018 nemur 1.218 millj. kr. sem er hækkun upp á 35%. Hækkun milli áranna 2019 og 2020 er 572 millj. kr., svo dæmi séu tekin.

Ljóst er að ráðuneytin hafa í umboði ríkisstjórnar vanrækt það hlutverk sitt að meta áhrif frumvarpa á reglubyrði atvinnulífsins. Mjög takmörkuð vinna hefur farið fram við það að skoða gildandi löggjöf og hvernig megi einfalda hana, létta reglubyrðina og draga úr samkeppnishömlum. Hér er um brýnt málefni að ræða. Mikið af regluverki kemur frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn. Greinilegt er að við samningu frumvarpa til að innleiða EES-reglur nýta ráðuneytin iðulega ekki það svigrúm sem Ísland hefur til að létta reglubyrðina heldur bæta þvert á móti við séríslenskum íþyngjandi reglum. Rannsóknir hafa sýnt að þetta hefur verið gert í þriðjungi tilvika þegar ný EES-löggjöf var innleidd. Félag atvinnurekenda hefur bent á fjölmörg dæmi þess efnis. Það á að vera á stefnuskrá hverrar ríkisstjórnar að einfalda regluverk. Ár eftir ár vex umgjörð stjórnkerfisins á Íslandi og kostnaðurinn sem því fylgir. Sá kostnaður er greiddur af skattgreiðendum. Brýnt er að draga úr íþyngjandi regluverki og minnka báknið.

Ekki hefur verið mikil hagræðingarkrafa innan Stjórnarráðsins á síðustu árum. Það er orðið löngu tímabært að ráðast í uppstokkun á opinbera kerfinu og draga úr umsvifum hins opinbera. Auk þess er óskynsamlegt að bæta enn í ríkisbáknið þar sem erfitt og sársaukafullt getur verið að vinda ofan af útgjaldaaukningu ef tekjuforsendur ríkisins breytast. Því þarf að forgangsraða betur í ríkisfjármálum. Sameining Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands, svo dæmi sé tekið, á að fela í sér hagræðingu. Athygli vakti þegar sameiningaráformin voru kynnt að þess var sérstaklega getið að ekki stæði til að fækka starfsmönnum. Þetta er röng nálgun, herra forseti. Sameining á að fela í sér sparnað fyrir skattgreiðendur. Laun í ráðuneytunum hafa auk þess hækkað mikið á undanförnum misserum og eru há miðað við einkageirann. Hækkanir á fjárveitingum til ríkisstofnana umfram almennar verðlagshækkanir eru regla fremur en undantekning. Ríkisreksturinn verður skattgreiðendum því stöðugt dýrari. Þannig er síaukinn kostnaður vegna eftirlitsstofnana ríkisins. Í frumvarpinu eru aðhaldskröfur til ríkisstofnana litlar. Sjálfstæðisflokkurinn sem nú fer fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytinu hefur öll tök á því að taka hér til hendinni eins og hann hefur margoft predikað. Þess í stað bætir hann í ríkisbáknið sem aldrei fyrr.

Það sætir tíðindum að þegar ríkisstofnanir eru sameinaðar skuli engin einasta hagræðingarkrafa vera gerð af hálfu ríkisstjórnarinnar. Gott dæmi um þetta er sameining Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans eins og fyrr segir. Stjórnvöld verða að horfa til þeirra tækifæra sem skapast til hagræðingar við sameiningu þessara tveggja stofnana. Ein af ástæðum fyrir sameiningunni er það óhagræði sem skapast af núverandi fyrirkomulagi. Skýr tækifæri eru til samnýtingar krafta beggja stofnana og tækifæri til hagræðingar án þess að það bitni á gæðum. Að auki er ástæða til að gera óháða úttekt á rekstri Fjármálaeftirlitsins vegna sameiningar við Seðlabankann. Margt er óljóst sem snýr að sameiningunni. Eftirlitsgjaldið sem fjármálafyrirtæki greiða FME nemur um 2,3 milljörðum kr. árlega og hefur hækkað mikið undanfarin ár. Fjármálafyrirtæki hafa síaukinn kostnað af gagnavinnslu og gagnaskilum eftirlitsaðila. Hægt væri að hagræða í rekstri FME og Seðlabankans með sameiningu stoðdeilda og að samræma gagnaskil milli stofnananna.

Þá hefur sagan sýnt að útgjöld ríkisins hafa tilhneigingu til að aukast við sameiningu stofnana og eru fyrirhugað áform um stækkun á húsnæði Seðlabankans vegna sameiningarinnar gott dæmi. Miðflokkurinn leggur fram breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að gerð verði 15% hagræðingarkrafa af hálfu ríkisins við sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Það ætti að spara ríkissjóði um 350 millj. kr. árlega. Ísland er smáríki og því er enn mikilvægara hér á landi en víðast annars staðar að líta til hagræðingar á sem flestum sviðum.

Miðflokkurinn flytur breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2020 sem miðar að því að draga úr ríkisbákninu og gera kröfu um hagræðingu sem nemur rúmlega 10% í rekstri allra ráðuneyta. Hagræðingin mun skila ríkissjóði sparnaði upp á 1,1 milljarð kr. Auk þess er gerð sérstök hagræðingarkrafa á sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins upp á 350 millj. kr. eins og áður segir. Samtals er því gerð hagræðingarkrafa á ríkisreksturinn upp á 1.450 millj. kr. á árinu 2020. Á bls. 5 í nefndarálitinu er að finna töflu um þá hagræðingarkröfu sem Miðflokkurinn gerir á öll ráðuneyti.

Ég vil næst víkja að mikilvægi þess að lækka tryggingagjaldið enn frekar. Sú aðgerð er nauðsynleg og hún er skynsamleg og er til viðbótar við þá lækkun sem hefur verið boðuð í frumvarpinu. Horfur á vinnumarkaði hafa versnað eftir því sem liðið hefur á árið. Útlit er fyrir að svo verði áfram. Um 7.000 manns eru nú án atvinnu samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunar og hefur þeim fjölgað um rúmlega 2.700 frá sama tíma í fyrra. Hátt í 1.000 manns hafa misst vinnuna í hópuppsögnum það sem af er ári, auk þeirra 1.100 sem misstu vinnuna við fall WOW air.

Stjórnvöld eiga ávallt að leitast við að styrkja starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja, sér í lagi nú þegar efnahagsumhverfið blæs minni byr í seglin. Styðja þarf íslensk fyrirtæki við að mæta hækkandi launakostnaði á komandi árum og sporna gegn fækkun starfa. Skattheimta á íslensk fyrirtæki er há í alþjóðlegum samanburði og er hún sú hæsta á Norðurlöndum á eftir Noregi. Skattar á fyrirtæki voru hækkaðir eftir efnahagshrunið 2008 í þeirri viðleitni að loka fjárlagagatinu. Skattbreytingar þessar hafa hins vegar verið að festast í sessi síðan. Það hefur verið tregða hjá ríkisvaldinu við að lækka tryggingagjaldið sem er einn stærsti tekjustofn ríkissjóðs en samkvæmt frumvarpinu mun það skila 11% af skatttekjum ríkissjóðs á næsta ári.

Hátt tryggingagjald kemur verst niður á fyrirtækjum þar sem laun og launatengd gjöld eru stór hluti kostnaðar. Hátt tryggingagjald veikir samkeppnishæfni þessara fyrirtækja mest. Bætt samkeppnishæfni Íslands er mjög mikilvæg og sérstaklega nú þegar hægt hefur hratt á hjólum efnahagslífsins. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega lögð áhersla á lækkun tryggingagjaldsins og því ber að fagna en hún er hins vegar ekki nægileg að mati okkar Miðflokksmanna. Auk þess hafa Samtök iðnaðarins ályktað á sama veg.

Samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum hefur versnað á undanförnum árum vegna innlendra kostnaðarhækkana sem eru mældar í erlendri mynt. Sú þróun er nú sýnileg í minni verðmætasköpun útflutningsgreina og þeirra fyrirtækja á innlendum markaði sem keppa við erlend fyrirtæki.

Fyrir efnahagshrunið árið 2008 var tryggingagjaldið 5,34% en var hækkað í 8,65% í kjölfar þess. Hækkunin var hugsuð sem tímabundin aðgerð til að standa straum af stórauknum útgjöldum vegna skyndilegs atvinnuleysis. Forsendurnar fyrir hækkuninni og þau rök sem þá voru notuð til að hækka gjaldið eiga ekki lengur við þar sem atvinnuleysi hefur verið lítið í langan tíma. Atvinnuleysi mældist 3,7% í september og hafði þá lækkað frá mánuðinum á undan. ASÍ hefur stutt að mikilvægt sé að skila hækkun tryggingagjaldsins til baka. Það sætir nokkurri undrun hversu treg stjórnvöld hafa verið til að lækka tryggingagjaldið vegna þess að ávinningurinn er margfaldur. Staðreyndin er hins vegar sú að tryggingagjaldið hefur í vaxandi mæli verið notað til að fjármagna önnur útgjöld ríkissjóðs en því var ætlað. Eigi lækkunin að þjóna þeim tilgangi að stuðla að jafnvægi á vinnumarkaði og að launahækkanir á næsta ári leiði síður til verðbólgu þarf hún að vera meiri en 0,25%. Gjaldið er reiknað sem hlutfall af þeim launum sem fyrirtækið greiðir til starfsmanna sinna. Því fleiri krónur sem fyrirtækið greiðir í laun, þeim mun hærri fjárhæð þarf það að greiða í tryggingagjald. Því hærri sem tryggingagjaldsprósentan er, þeim mun dýrari er hver starfsmaður fyrir fyrirtækið sitt. Því hærri sem prósentan er, þeim minni launahækkunum getur fyrirtækið staðið undir. Gjaldið dregur úr getu fyrirtækja til að fjárfesta og búa til störf. Vaxtarmöguleikar einkafyrirtækja eru því hindraðir með háu tryggingagjaldi.

Miðflokkurinn flytur hér breytingartillögu við frumvarpið um að tryggingagjaldshlutfallið lækki um 0,25% á næsta ári til viðbótar við þá 0,25% lækkun sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Með samþykkt breytingartillögunnar mun gjaldið þá lækka úr 6,35% í 6,10%. Eðlilegt er að miða við að þessi skattheimta verði ekki meiri en hún var fyrir hrun þegar atvinnustigið var sambærilegt og nú. Þrátt fyrir það vantar enn upp á að tryggingagjaldið sé sama hlutfall af launagreiðslum fyrirtækja og það var fyrir fjármálahrunið. Tekjuáhrif af lækkun tryggingagjalds um 0,25% á næsta ári til viðbótar við fyrirhugaða lækkun samkvæmt frumvarpinu eru neikvæð fyrir ríkissjóð um 2 milljarða kr.

Tillaga Miðflokksins er fullfjármögnuð og hægt að skoða hana nánar í nefndaráliti en m.a. gerir Miðflokkurinn ráð fyrir því að byggingarlóð Landsbankans við Austurhöfn verði seld og að áætlað söluandvirði lóðarinnar sé um 2 milljarðar kr. Landsbankinn keypti lóðina fyrir rúmum fimm árum fyrir tæpan 1 milljarð kr. Söluandvirðið renni síðan í ríkissjóð en ríkissjóður er eigandi bankans að 98%. Einnig er gert ráð fyrir því í tillögu Miðflokksins, 2. minni hluta fjárlaganefndar, að framkvæmdum við byggingu Stjórnarráðshússins verði frestað og það mun hafa í för með sér 550 millj. kr. til ráðstöfunar fyrir ríkissjóð. Lækkun tryggingagjaldsins gerir fyrirtækjum auðveldara að ráða nýtt starfsfólk og gera betur við það sem fyrir er sem síðan eykur skatttekjur ríkissjóðs þannig að ávinningurinn er mikill eins og áður sagði og ekki síst nú, þegar gert er ráð fyrir auknu atvinnuleysi.

Herra forseti. Ég vil næst víkja að hjúkrunarheimilunum. Miðflokkurinn er með breytingartillögu við frumvarpið þar sem gert er ráð fyrir því að settar verði 800 millj. kr. í að bæta brýnan rekstrarvanda hjúkrunarheimila. Hjúkrunarheimilin eru ein af mikilvægustu grunnstoðum íslenska velferðarkerfisins og ríkisstjórnin hefur ekki staðið við þau áform sem koma fram í stjórnarsáttmálanum um að styrkja rekstrargrunn hjúkrunarheimila og dagþjálfun. Á þeim tveimur árum sem ríkisstjórnin hefur setið við völd hefur hún í sífellu skert rekstrarframlag hjúkrunarheimila. Ríkisendurskoðun hefur bent á að rekstur hjúkrunarheimila sé almennt mjög þungur og hefur róðurinn þyngst ár frá ári í samræmi við fjárhagsskerðingar ríkisstjórnarinnar. Rammasamningur milli hjúkrunarheimila og Sjúkratrygginga Íslands rann út í árslok 2018 þegar Sjúkratryggingar breyttu aðferðafræði sinni við útgreiðslu fjármagns. Það er ámælisvert að ákvörðun Sjúkratrygginga hafi verið tekin einhliða og án viðræðna við hjúkrunarheimilin og verður að segjast eins og er að það er ekki gott veganesti í að semja við fyrirtæki eins og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu eða Samband íslenskra sveitarfélaga.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2020–2024 kemur fram að stærsta verkefni ríkissjóðs í tengslum við málefnasvið hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu sé átak sem felist í fjölgun hjúkrunarrýma, bæði með endurgerð eldri rýma og byggingu nýrra, m.a. með byggingu hjúkrunarheimila. Hér er um að ræða rúmlega 900 rými í heild. Stjórnvöld hafa boðað að rúmlega 700 rými verði byggð til ársins 2024 þegar áætlað er að þau verði orðin rúmlega 3.400 í heild sem er 26% aukning frá árinu 2018. Á sama tíma gerir ríkisstjórnin ráð fyrir aðeins 6% auknu fjármagni til reksturs málefnasviðsins, þ.e. í rekstur hjúkrunarheimila. Ljóst er að í fjármálaáætluninni hefur lítið tillit verið tekið til byggingar eða reksturs nýju hjúkrunarrýmanna og verður það að teljast ámælisvert. Ekki er nóg að byggja ný hjúkrunarheimili, það verður líka að tryggja forsvaranlegar rekstrarforsendur fyrir heimilin til þess að þau geti sinnt hlutverki sínu. Nauðsynlegt er að fara alvarlega ofan í saumana á fjárhagsgrunni hjúkrunarheimilanna og rýna betur skýrslur Ríkisendurskoðunar um málefnasviðið.

Illa gengur að manna stöður hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á hjúkrunarheimilum. Formaður Sjúkraliðafélags Íslands segir alvarlegan skort á sjúkraliðum á hjúkrunarheimilum. Það hefur gert að verkum að vísa hefur þurft frá einstaklingum með mikla þjónustuþörf þar sem ekki fæst heilbrigðisfólk til starfa. Ástæða þess að illa gengur að manna stöður er m.a. sú að hjúkrunarheimili landsins hafa setið eftir hvað varðar fjárveitingar til þjónustunnar undanfarin ár. Nauðsynleg styrking á rekstrarfé hefur orðið hjá spítölum, heilbrigðisstofnunum og heilsugæslu en skorið hefur verið niður hjá hjúkrunarheimilum. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa ítrekað bent á nauðsyn þess að styrkja rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila og endurhæfingarrýma. Rekstur hjúkrunarheimila á landsbyggðinni er afar þungur. Þetta kemur m.a. til af því að ómögulegt er að ná fram þeirri stærðarhagkvæmni sem næst með þeim fjölda rúma sem alla jafna þekkist á höfuðborgarsvæðinu.

Herra forseti. Það verður að fara fram trúverðugt samtal milli fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins, Sjúkratrygginga Íslands, öldrunarstofnana og sveitarfélaga. Forsenda árangurs og breiðari sáttar um málaflokkinn er stóraukið samráð og skilningur á eðli reksturs hjúkrunarheimila. Þetta kemur m.a. fram í umsögn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Miðflokkurinn telur mjög brýnt að mæta þeim með rekstrarerfiðleikum sem ríkja í þessum mikilvæga málaflokki og leggur til, eins og áður sagði, viðbótarfjármagn í breytingartillögu til þessara stofnana upp á 800 millj. kr. til að bæta brýnan rekstrarvanda.

Herra forseti. Næst ætla ég að víkja að kafla í nefndarálitinu sem ber yfirskriftina Nýjir skattar draga úr boðaðri skattalækkun. Áformaðar eru verulegar breytingar á tekjuskattskerfi einstaklinga til að mæta loforðum stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði síðasta vor. Tekið verður upp þriggja þrepa tekjuskattskerfi með nýju lágtekjuþrepi sem taki gildi í tveimur áföngum á árunum 2020 og 2021. Þannig er áætlað að þriðjungur breytinganna taki gildi á árinu 2020 og tveir þriðju árið 2021. Gert er ráð fyrir að þessar aðgerðir auki ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu um 10.000 kr. á mánuði. Á sama tíma er lagt til að skerðingarmörk barnabóta hækki í 325.000 kr. á mánuði sem kemur þá væntanlega verst niður á tekjulægsta hópnum. Ýmsar skattahækkanir er að finna í frumvarpinu þrátt fyrir boðaða skattalækkun. Gert er ráð fyrir hækkun vörugjalds af bensíni og dísilolíu, bifreiðagjald hækkar, áfengi og tóbak, útvarpsgjald hækkar, gjald í Framkvæmdasjóð aldraða hækkar, úrvinnslugjald hækkar o.s.frv. Nýr urðunarskattur, sem ríkisstjórnin áformaði í fjárlagavinnunni en hefur verið gerður afturreka með vegna lélegs undirbúnings, mun kosta heimilin í landinu 6.000 kr. á næsta ári og 12.000 kr. árlega þegar hann er að fullu kominn til framkvæmda og ljóst að það er vilji ríkisstjórnarinnar að þessi skattur verði lagður á en hann mun hugsanlega frestast um eitt ár vegna áðurnefnds lélegs undirbúnings. Síðan mun kolefnisgjald hækka um 10% á næsta ári sem mun þýða hækkun á bensíni og dísilolíu. Ríkisstjórnin er því að hækka ýmsa skatta og gjöld sem dregur úr áðurnefndri skattalækkun. Nettóskattalækkun til almennings er því töluvert lægri en ríkisstjórnin hefur boðað.

Nýtt þriggja þrepa skattkerfi gengur þvert á stefnu Sjálfstæðisflokksins um að einfalda skattkerfið. Fjármála- og efnahagsráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur áður sagt að þrjú skattþrep væru mjög óheppilegt fyrirkomulag og til þess fallið að flækja skattkerfið.

Á árinu 2019 er áætlað að árlegar tekjur ríkissjóðs af nýjum sköttum og skattahækkunum verði ríflega 115 milljarðar kr. sem samsvarar u.þ.b. 15% af heildarskatttekjum ríkisins. Þrátt fyrir boðaðar skattalækkanir standa því eftir 97 milljarðar kr. í aukna skattheimtu frá síðustu niðursveiflu sem heimili og fyrirtæki standa enn undir.

Verði fjármögnun nýrra samgönguframkvæmda gerð með sérstakri gjaldtöku á einstökum vegum eða notendagjöldum eins og komið hefur til tals af hálfu ríkisstjórnarinnar er í eðli sínu um hækkun skatta á einstaklinga að ræða og dregur þar með úr ráðstöfunartekjum almennings. Verði áformin að veruleika í tengslum við nýja samgönguáætlun er ljóst að boðuð skattalækkun verður engin þegar upp er staðið.

Herra forseti. Ísland er háskattaríki í alþjóðlegum samanburði. Skattahækkanir fyrri ára standa að mestu óhreyfðar. Það ætti að vera forgangsmál að draga til baka þær skattahækkanir sem gripið var til í kjölfar bankahrunsins. Ríkisstjórnin hefur hækkað fjármagnstekjuskatt en um leið lofað að endurskoða skattstofninn. Hvergi er minnst á slíka endurskoðun í fjárlagafrumvarpinu. Þegar fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp var lágt skatthlutfall rökstutt með breiðum skattstofni. Nú er skattstofninn enn breiður en skatthlutfallið hefur tvöfaldast. Miðflokkurinn leggur áherslu á að nú, þegar skuldir ríkisins lækka hratt, sé ráðrúm til að huga að lækkun skatta á fólk og fyrirtæki í landinu en ekki stækka ríkisbáknið eins og ríkisstjórnin er sérstaklega áhugasöm um. Lækkun skatta er skynsamleg ráðstöfun þegar hagkerfið er í niðursveiflu. Vissulega er ríkisstjórnin að lækka skatta á lægstu tekjur en hún er hins vegar að hækka ýmis önnur gjöld þannig að nettóskattalækkunin er ekki sú sem boðuð er. Skattar á Íslandi eru með þeim hæstu í heimi þegar lífeyrisgreiðslur eru teknar með í reikninginn. Það er löngu orðið tímabært að draga úr álögum á almenning og fyrirtæki og leysa þannig úr læðingi aukna verðmætasköpun. Það gagnast samfélaginu öllu að leyfa fólki og fyrirtækjum í auknum mæli að ráðstafa eigin tekjum. Á sama tíma þurfa ríki og sveitarfélög að fara betur með það almannafé sem þau taka til sín.

Næst vil ég, herra forseti, víkja aðeins að kolefnisskattinum og þeirri 10% hækkun sem ríkisstjórnin stefnir að. Hér er kafli í nefndaráliti fulltrúa Miðflokksins í fjárlaganefnd sem ber yfirskriftina Stefnulaus kolefnisskattur – ekki jafnað niður á landsmenn á sanngjarnan hátt. Náttúruvernd og önnur umhverfisvernd er á meðal mikilvægustu viðfangsefna samtímans. Viðbrögð stjórnvalda hafa hins vegar ekki verið í samræmi við það. Þau hafa allt of oft byggst á gagnslausri og jafnvel skaðlegri sýndarmennsku sem t.d. birtist í nýjum sköttum án þess að þeim fylgi markmið eða aðferðir við að meta árangurinn. Mat á árangri er afar mikilvægt í þessu sambandi. Kolefnisgjaldið er nýr skattur á Íslandi eins og við þekkjum. Í frumvarpinu kemur fram að tekjur af kolefnisgjaldi séu áætlaðar 6,3 milljarðar á árinu 2020. Gjaldið hefur nú þegar hækkað um 65% á mjög skömmum tíma, tveimur árum. Þá mun kolefnisgjaldið hækka um 10% á næsta ári til viðbótar 65% hækkun sem nú þegar hefur átt sér stað frá árinu 2017. Tekið saman hefur því kolefnisgjaldið hækkað um 82% frá árinu 2017 gangi áform stjórnvalda eftir með 10% hækkun á næsta ári.

Í því samhengi ber einnig að hafa í huga að stjórnvöld áætla að ríkissjóður fái 4,8 milljarða kr. í tekjur við sölu losunarheimilda eins og ég rakti hér í upphafi. Víða erlendis eru tekjur stjórnvalda af slíkum losunarheimildum nýttar til aðgerða í loftslagsmálum. Það liggur óljóst fyrir með hvaða hætti það er gert hér á landi. Þvert á móti virðist eini tilgangur sölunnar vera sá að draga úr halla ríkissjóðs. Tekjur ríkisins af kolefnisskatti eru ekki eyrnamerktar aðgerðum í loftslagsmálum með beinum hætti og aðeins hluti þeirra rennur þangað. Miðflokkurinn telur að sú hækkun sem orðið hefur á þessu gjaldi sé úr öllu hófi, sérstaklega í ljósi þess að ekki er hægt að sýna ótvírætt hver árangurinn af skattheimtunni er. Gert er ráð fyrir enn frekari hækkun, 10%, á næsta ári og er áætlað að það skili ríkissjóði 375 millj. kr. í tekjur að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt. Kolefnisgjaldið nemur núna rúmum 12 kr. á hvern lítra af bensíni og dísilolíu og þessar álögur á eldsneyti koma því til með að auka enn frekar álögur á almenning og bitna sérstaklega á fólki á landsbyggðinni. Færa má rök fyrir því, herra forseti, að með kolefnisgjaldinu sé verið að skattleggja landsbyggðarfólk umfram aðra enda á rafbílavæðingin mun auðveldara um vik á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni þar sem innviðir eins og hleðslustöðvar eru mun fleiri á höfuðborgarsvæðinu en þar. Engu að síður hafa rafbílaeigendur kvartað yfir því að innviðir fyrir rafbíla séu engan veginn fullnægjandi í höfuðborginni, hvað þá á landsbyggðinni þar sem innviðauppbyggingin er einfaldlega allt of skammt á veg komin. Auk þess nota íbúar á landsbyggðinni í mun ríkara mæli bifreiðar knúnar með jarðefnaeldsneyti, bensíni og dísilolíu, aka meira vegna fjarlægðar og kaupa því meira eldsneyti.

Eðlilegt væri að samfara hækkun kolefnisgjalds lækkuðu gjöld og skattar samsvarandi á umhverfisvæna starfsemi ef markmiðið væri það eitt að draga úr mengun. Svo er þó ekki. Meginmarkmið kolefnisgjaldsins er að hvetja bæði heimili og fyrirtæki til þess að draga úr losun með því að skipta yfir í hreinni orku. Í fyrsta lagi er það alls ekki á færi allra að skipta yfir í rafmagnsbifreið og í öðru lagi henta rafmagnsbifreiðar síður á landsbyggðinni enn sem komið er. Lýtur það fyrst og fremst að drægni bifreiðanna og fjölda hleðslustöðva. Kolefnisgjaldið leggst því með öðrum hætti á íbúa höfuðborgarsvæðisins annars vegar og íbúa landsbyggðarinnar hins vegar. Það er því í raun munur á gjaldheimtu milli þessara hópa. Þannig bitnar skatturinn hlutfallslega verst á þeim tekjulægri og íbúum landsbyggðarinnar. Hvatning til orkuskipta er góðra gjalda verð en hún verður að vera í takt við raunveruleikann.

Orkuskipti fyrir sjávarútvegsfyrirtæki, ýmsan iðnað og atvinnutæki eru ekki raunhæfur kostur sem stendur. Kolefnisskatturinn hefur bein efnahagsleg áhrif á hagkerfið. Án nokkurra mótvægisaðgerða dregur skatturinn þrótt úr hagkerfinu og minnkar samkeppnishæfni fyrirtækja. Hugmyndafræðin má teljast göfug en stjórnvöld verða að ígrunda vel tilgang, forsendur og markmið með skattheimtunni, sérstaklega hverja er verið að skattleggja og hverja ekki. Markmiðið með gjaldinu er að draga úr losun án þess að grafa undan samkeppnishæfni atvinnulífs og ætti það sama að gilda hér á landi. Í öðrum löndum hafa því aðrir skatta verið lækkaðir á móti gjaldinu eða undanþágur gefnar frá öðrum sköttum. Ísland er t.d. eina ríkið í Evrópu þar sem fiskiskipaflotinn nýtur engrar undanþágu eða styrkja hvað varðar eldsneytisskatta. Þetta minnkar samkeppnishæfnina enn frekar.

Hagstofa Íslands hefur gert rannsóknir á útgjöldum heimilanna og þar kemur fram að eldsneytisnotkun er þó nokkru meiri í dreifbýli en þéttbýli. Munurinn endurspeglar þá staðreynd að íbúar landsbyggðarinnar þurfa jafnan að ferðast um lengri veg. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur viðurkennt að áhrif kolefnisgjaldsins séu meiri á íbúa í dreifbýli. Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn á Alþingi. Kolefnisgjaldið er því í raun hefðbundin skattahækkun á fólk og fyrirtæki þar sem skattlagningin kemur þyngra niður á landsbyggðinni. Þessari nýju skattbyrði er því ekki jafnað niður á landsmenn af sanngirni. Við þetta má bæta að umhverfisráðherra hefur sagt að erfitt sé að meta nákvæmlega árangur af gjaldinu, mælt í minni losun en ella hefði verið hefði gjaldið ekki verið sett á. Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn á Alþingi og staðfest af umhverfisráðuneytinu á fundi með fjárlaganefnd.

Engar aðgerðir eru boðaðar í frumvörpum tengdum fjárlagafrumvarpinu sem koma til móts við íbúa á landsbyggðinni vegna gjaldsins. Auk þess er ekki að sjá að ívilna eigi umhverfisvænni starfsemi eða að aðrir skattar verði lækkaðir til mótvægis. Breyting á kolefnisgjaldi er skattahækkun, sett í búning græns skatts. Eðlilegt væri þá að lækka gjöld á aðra umhverfisvænni þætti. Við verðum að horfa til annarra landa í þessum efnum. Í Danmörku fóru stjórnvöld t.d. of geyst af stað þegar þau hækkuðu skatta vegna umhverfismála á fyrirtæki. Í Noregi er kolefnisgjald lægra en á Íslandi og að hluta til endurgreitt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Kolefnisgjaldið má ekki auka kostnað íslenskra fyrirtækja umfram það sem erlendir samkeppnisaðilar búa við. Slíkt dregur úr samkeppnishæfni, rýrir afkomu íslensku fyrirtækjanna og þar með svigrúm til fjárfestinga. Um leið dregur úr líkunum á því að markmiðinu með gjaldinu verði náð.

Það sem minnkar samkeppnishæfnina enn frekar er að aðilar sem ekki eru virðisaukaskattsskyldir hér á landi eru undanþegnir kolefnisgjaldinu. Þannig þurfa erlend skip sem taka olíu hér á landi ekki að greiða gjaldið en í sumum tilvikum eru þau við veiðar á sömu veiðislóð og þau íslensku. Erlend fiskiskip, skemmtiferðaskip og flutningaskip greiða ekki kolefnisgjald við eldsneytistöku hér á landi og ekkert kolefnisgjald er greitt af flugvélaeldsneyti hérlendis í ríkissjóð.

Þótt tækniframþróun sé hröð í þessum efnum er það ekki svo að hægt sé að fá stærri ökutæki, vinnuvélar og sum iðnaðartæki þannig að þau nýti endurnýjanlega orkugjafa. Það á t.d. við í jarðvinnugeiranum og landbúnaði. Orkuskipti eru því ekki raunhæfur kostur sem stendur, sér í lagi fyrir iðnað og atvinnutæki sem nota svokallaða litaða olíu, og möguleikar slíkra aðila til orkuskipta eru hverfandi.

Kolefnisgjaldið er skattur sem leggst með mismunandi hætti á atvinnugreinar og eðlilegt að gerð sé krafa um að til sé heildstæð stefna í málaflokknum áður en lengra er haldið. Það vekur sérstaka athygli að ekki virðist vera haldið nákvæmt bókhald yfir framlög ríkisins til mótvægis við skattlagninguna til verkefna sem m.a. tengjast samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eða bættra loftgæða almennt. Sjálfsögð og eðlileg krafa er að stjórnvöld birti opinberlega áætlanir sínar um ráðstöfun kolefnisgjaldsins.

Miðflokkurinn leggur því til að boðuð hækkun kolefnisgjaldsins í fjárlagafrumvarpinu um 10% komi ekki til framkvæmda fyrr en heildstæð stefna liggur fyrir um hvernig ætlunin er að nota kolefnisgjöld í baráttunni við loftslagsbreytingar án þess að þær bitni á landsbyggðinni eða samkeppnishæfni atvinnugreina og dragi þróttinn úr hagkerfinu. Lækkunin á kolefnisgjaldinu mun draga úr verðbólguþrýstingi með lækkun á verði eldsneytis.

Herra forseti. Ég vil næst koma aðeins inn á fyrirhugaðan urðunarskatt. Í fjárlagavinnunni var lagt upp með það að lagður yrði nefskattur á fólk og fyrirtæki í landinu en eins og með skattlagninguna á ferðaþjónustuna var ríkisstjórnin gerð afturreka með þennan skatt vegna lélegs undirbúnings. En hins vegar er alveg ljóst að það er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að leggja þennan skatt á og sýnist mér sem svo að hann verði lagður á í fjárlögunum að ári. Það sýnist vera sérstakt áhugamál ríkisstjórnarinnar að leggja á nýja skatta og færa þá í svona fallega búninga og gefa þeim nöfn eins og græna skatta. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir því að leggja svokallaðan urðunarskatt á fólk og fyrirtæki sem átti að skila um 1,5 milljörðum í auknar tekjur á árinu 2020 og 2,5 milljörðum þegar hann væri að fullu kominn til framkvæmda 2021. Verði þessi áform að veruleika er hér um 6.000 kr. skattlagningu á fjögurra manna fjölskyldu að ræða árið 2020, eða verður seinkað um ár, og verði síðan um 12.000 kr. þegar hann er kominn að fullu til framkvæmda.

Í þessu sambandi er rétt að horfa til þess að í umsögn hagsmunaaðila fékk þessi skattlagning algjöra falleinkunn, sérstaklega hvað varðar undirbúninginn og er nauðsynlegt að fylgjast vel með því hvernig ríkisstjórnin ætlar að framkvæma þetta þegar af því verður. Ljóst er að þetta hefur veruleg áhrif á t.d. atvinnulífið og ekki forsvaranlegt að fara í svona mikla skattlagningu án þess að allir hagsmunaaðilar séu hafðir með í ráðum.

Næst vil ég víkja aðeins að málefnum Landspítalans. Eins og ég hef nefnt hér er Landspítalinn stærsta og mikilvægasta heilbrigðisstofnun landsins. Hann hefur á að skipa framúrskarandi starfsfólki sem vinnur óeigingjarnt starf á hverjum degi, oft við erfiðar aðstæður. Miklar umræður hafa skapast um rekstrarvanda spítalans og sá vandi á sér margþættar rætur. Kjarni málsins er sá að spítalinn og sú þjónusta sem hann veitir vex hraðar en fjárlög gera ráð fyrir þrátt fyrir reiknaðan raunvöxt upp á 1,8% ár hvert. Spítalinn hefur tekið að sér ný verkefni þar sem fjárveitingar hafa ekki fylgt. Af hálfu yfirstjórnar heilbrigðismála hefur t.d. ekki verið leyst úr hinum svokallaða fráflæðisvanda sem felur í sér að á spítalanum liggur fólk sem að réttu lagi ætti að dveljast á hjúkrunarheimilum. Flóknir kjarasamningar hafa verið gerðir sem erfitt hefur verið að kostnaðarmeta, þar á meðal kjarasamningur við lækna árið 2015. Samningurinn var góður fyrir heilbrigðiskerfið en kostnaðarþættir hafa verið vanmetnir og spítalinn hefur ekki fengið fjármagn sem hann þarf til að standa straum af heildarkostnaði við þennan samning. Það er brýnt í svona tilfellum, við svona samningsgerð, að það liggi alveg ljóst fyrir hver raunkostnaðurinn er fyrir ríkið og hvernig eigi að mæta honum.

Brýnt er að búa heilbrigðisstarfsfólki viðunandi starfsskilyrði og tryggja þannig að mönnun sé á hverjum tíma fullnægjandi. Mönnunarvandi spítalans er meðal hans stærstu áskorana. Heilbrigðisyfirvöld hafa ekki lagt fram neinar áætlanir um það hvernig eigi að bregðast við honum. Yfirstjórn Landspítalans hefur kynnt fjárlaganefnd aðhaldsaðgerðir vegna halla á rekstri. Ein af þeim aðgerðum er að falla frá sérstökum kjörum fyrir hjúkrunarfræðinga vegna langvarandi mönnunarvanda á spítalanum, þ.e. í gegnum svokallað Hekluverkefni þar sem hjúkrunarfræðingar hafa fengið álagsgreiðslur fyrir störf sín í því augnamiði að laða þá til starfa og hækka starfshlutfall þeirra sem fyrir eru. Þetta er mikilvægt verkefni og er það áhyggjuefni að falla eigi frá því vegna þess að það mun þýða aukna yfirvinnu og sú yfirvinna verður fljótt að stórum tölum í stóra samhenginu. Það er mikill skortur á hjúkrunarfræðingum á Landspítalanum og deildir margar hverjar undirmannaðar. Það er eðli þessarar þjónustu að hún er ófyrirséð á mörgum sviðum. Þetta er bráðasjúkrahús og við lokum aldrei bráðaþjónustu þó svo að fjárveitingar séu búnar.

Það þarf að koma á einhvers konar sveigjanleika í fjárveitingum til spítalans svo við stöndum ekki frammi fyrir þessum vanda á hverju einasta ári. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að álag á heilbrigðiskerfið mun aukast jafnt og þétt næstu árin og áratugina með hækkandi lífaldri þjóðarinnar. Ef við ætlum að tryggja framúrskarandi heilbrigðisþjónustu fyrir alla þarf heilbrigðiskerfið að vera mun skilvirkara. Lýsandi dæmi um vanda þessa kerfis birtist í því að sjúklingar eru sendir til útlanda í aðgerðir sem kostar þrefalt meira en þær myndu kosta á Íslandi. Það þýðir ekki fyrir ríkisvaldið að benda á yfirstjórn Landspítalans og yfirstjórn Landspítalans að benda á ríkisvaldið. Þjóðin er að eldast og það mun þýða aukið álag á kerfið. Aldraðir, 80 ára og eldri, þurfa mesta heilbrigðisþjónustu. Auk þess hefur ný heilbrigðistækni kallað á aukinn kostnað. Stjórnvöld verða að horfast í augu við vandann og tryggja langtímafjármögnun mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins.

Herra forseti. Ég sé að það er farið að líða á tíma minn en ég ætla að víkja aðeins að landbúnaðinum. Það hefur verið sótt að þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar frá landnámi úr ýmsum áttum. Framlög til landbúnaðar hafa lækkað og lækkun er í þessu frumvarpi. Ekkert er minnst á landbúnaðinn í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið. Það segir kannski sína sögu. Það hefur verið látið undan ósanngjörnum og hættulegum kröfum um aukinn innflutning matvæla sem standast ekki heilbrigðiskröfur, matvæla sem eru ekki framleidd við þau skilyrði sem íslenskum landbúnaði er ætlað að uppfylla. Afar óhagstæður tollasamningur hefur nýlega tekið gildi og á sama tíma er gert ráð fyrir síminnkandi stuðningi við íslenska matvælaframleiðendur og neytendur. Um leið aukast íþyngjandi kröfur á íslenskan landbúnað jafnt og þétt. Það skekkir enn samkeppnisstöðu greinarinnar gagnvart erlendri framleiðslu. Landbúnaður og matvælaframleiðsla er undirstaða byggðar víða um land. Því má heldur ekki gleyma að innlend matvælaframleiðsla lækkar kolefnisspor landsins.

Brýnt er að standa vörð um innlenda matvælaframleiðslu til lands og sjávar sem eina af grunnstoðum samfélagsins. Þegar í stað þarf að grípa til aðgerða til að tryggja stöðu sauðfjárræktarinnar en þess sjást ekki merki í fjárlagafrumvarpinu. Þegar í stað þarf að koma fram með mótvægisaðgerðir gegn þeim óhagstæða tollasamningi sem nýlega tók gildi og er ógn við innlenda matvælaframleiðslu. Erfitt er að henda reiður á fjármögnun mótvægisaðgerða í fjárlagafrumvarpinu er lúta að landbúnaðinum og fyrirhuguðum innflutningi á landbúnaðarvörum og hverju þær eiga að skila. Í svo mikilvægu máli ætti að fylgja sundurliðun á aðgerðum og framlög til þeirra í kaflanum um landbúnað í fjárlagafrumvarpinu.

Ég vil víkja næst aðeins að ferðaþjónustunni sem er okkar stærsta atvinnugrein og stendur frammi fyrir mikilli óvissu. Þróun í ferðaþjónustu er meðal helstu óvissuþátta í forsendum fjárlagafrumvarpsins. Á undanförnum árum hefur vægi ferðaþjónustu í vergri landsframleiðslu vaxið úr rúmum 3,4% á árinu 2010 í 8,6% á árinu 2017. Framlag ferðaþjónustunnar við öflun gjaldeyristekna er verulegt. Horfur í greininni hafa því veruleg áhrif á efnahagsforsendur frumvarpsins. Stærsta útflutningsgrein landsins býr enn við allt of mikla óvissu. Athygli vekur að framlög til ferðaþjónustu lækka að raungildi um 292 millj. kr., 12,8%, frá fjárlögum 2019. Greinin hefur vaxið hratt undanfarin ár en þarf nú að takast á við hægari vöxt og jafnvel samdrátt. Mikilvægt er að bregðast við þessu með því að bæta rekstrarskilyrði greinarinnar strax, t.d. með hraðari lækkun tryggingagjalds. Þó að línur í ferðaþjónustu hafi skýrst undanfarna mánuði, eftir fall flugfélagsins WOW air, hefur óvissunni ekki verið aflétt og aðlögun ferðaþjónustunnar að breyttum aðstæðum er ekki lokið. Ætla má að ferðaþjónustan muni þurfa að takast á við mjög neikvæð áhrif af útgöngu Bretlands úr ESB auk þess sem tvísýnar efnahagshorfur í Bandaríkjunum og Kína kunna að hafa áhrif. Undir slíkum kringumstæðum getur samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu skipt sköpum. Þetta kemur m.a. fram í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar við frumvarpið.

Í fjármálaáætlun 2020–2024 kemur fram að fyrirhugað sé að gera breytingar á gjaldtöku ferðamanna á gildistíma áætlunarinnar en það lítur út fyrir að þeim áformum hafi verið slegið á frest og er það ánægjulegt. Hafa ber í huga að áformuð skattheimta á ferðamenn er mjög varhugaverð á þessu stigi og í þeirri niðursveiflu og óvissu sem greinin er í. Ef hér yrðu sett á einhvers konar komugjöld eins og áform voru um í upphafi við fjárlagavinnuna myndi það óhjákvæmilega hafa veruleg bein áhrif á alþjóðlega samkeppnishæfni greinarinnar. Ég hvet ríkisstjórnina til að stíga varlega til jarðar þegar kemur að hugleiðingum um skattheimtu á þessa mikilvægu grein.

Að lokum, herra forseti, vil ég nefna það sérstaklega að Miðflokkurinn leggur áherslu á auknar fjárveitingar til tollgæslu, fíkniefnaeftirlits og öryggis á landamærum upp á 250 millj. kr. og auk þess mun ég víkja að því síðar í umræðunni að við erum með breytingartillögu upp á 525 millj. kr. aukalega til öryrkja. Hún er tvenns konar, hækkun framlaga til Vinnumálastofnunar svo fjölga megi störfum öryrkja með stuðningi, það er mikilvægt úrræði sem hefur því miður verið vannýtt og mun ég fjalla nánar um það síðar, og auk þess leggjum við áherslu á að hækka frítekjumark öryrkja og leggjum til að 325 millj. kr. fari í að hækka það. Það er mikilvægt til þess að þeir öryrkjar sem geta stundað einhverja vinnu fái hærri ráðstöfunartekjur.

Ég sé, herra forseti, að tíma mínum er lokið. Það eru nokkur atriði sem ég hef ekki komið inn á og mun ég reyna að koma inn á þau síðar í þessari umræðu.